Allar spurningar og svör

Þagnarskylda og trúnaður

Þeir sem vinna með persónuupplýsingar þurfa að huga að þagnar- og trúnaðarskyldu sem á þeim getur hvílt. Þagnarskyldan takmarkar þó ekki valdheimildir Persónuverndar varðandi aðgang að húsnæði og tækjabúnaði.

Hvaða reglur gilda um þagnarskyldu og trúnað við meðferð persónuupplýsinga?

Ein af meginreglum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga er að þær séu unnar með þeim hætti að viðeigandi öryggi persónuupplýsinganna sé tryggt. Þetta felur m.a. í sér þagnarskyldu og trúnaðarskyldu þeirra sem vinna með persónuupplýsingar.

Einnig eru ákveðnar heimildir samkvæmt lögunum til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga sérstaklega bundnar skilyrði um þagnarskyldu. Í fyrsta lagi má nefna heimild til vinnslu sé hún nauðsynleg til að unnt sé að fyrirbyggja sjúkdóma eða vegna atvinnu­sjúkdóma­lækninga, til að meta vinnufærni starfsmanns, greina sjúkdóma og veita umönnun eða með­ferð á sviði heilbrigðis- eða félagsþjónustu. Tekið er fram í lögunum að umrædd vinnsla skuli framkvæmd af starfsmanni sem bundinn er þagnarskyldu. Í öðru lagi má nefna heimild til vinnslu sé hún nauðsynleg vegna skjalavistunar í þágu almannahagsmuna, þ.e. einkum varðveislu skjala á opinberum skjalasöfnum. Hvað þessa vinnslu varðar er í lögunum tekið fram að hún skuli fara fram á grundvelli laga sem kveði meðal annars á um þagnarskyldu.

Ennfremur kemur fram í lögunum að leyfisskyld vinnsla persónuupplýsinga skal bundin því skilyrði að farið verði með persónuupplýsingarnar af þeirri varúð sem reglur um þagnarskyldu og tilgangur vinnslunnar krefjast.

Hver er staða persónuverndarfulltrúa með tilliti til þagnarskyldu og trúnaðar?

Sérstaklega er í lögunum kveðið á um þagnarskyldu persónuverndarfulltrúa en honum er óheimilt að segja frá nokkru því sem hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara. Þess ber þó að geta að þagnarskylda gildir ekki hafi hinn skráði veitt samþykki sitt til þess að leynd sé aflétt, svo og þegar nauðsyn krefur vegna framkvæmdar starfa persónuverndarfulltrúans.

Hafa þagnarskylduákvæði áhrif á eftirlitsheimildir Persónuverndar?

Sérstaklega er kveðið á um það í lögum að réttur Persónuverndar til að krefjast upplýsinga eða aðgangs að starfsstöðvum og tækjabúnaði verði ekki takmarkaður með vísan til reglna um þagnarskyldu.

Einnig er kveðið á um að starfsmönnum Persónuverndar, svo og öðrum sem vinna verkefni á vegum stofnunarinnar, sé óheimilt að segja frá nokkru sem þeir hafa fengið vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara. Þetta ákvæði felur í meginatriðum í sér það sama og sú regla upplýsingalaga að stjórnvaldi sé óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gildi um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. 


Fáni EvrópusambandsinsVinnsla þessara spurninga og svara var styrkt af Evrópusambandinu - The European Union's Rights, Equality and Citizenship Programme (2014-2020)

Spurningarnar og svörin eru unnin af Persónuvernd sem ber fulla ábyrgð á þeim. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ber enga ábyrgð á notkun þeirra upplýsinga sem svörin hafa að geyma.


Var efnið hjálplegt? Nei