Allar spurningar og svör

Forystustjórnvald og samræmingarkerfi

Eingöngu þarf að ákvarða forystustjórnvald þegar ábyrgðaraðili stundar vinnslu yfir landamæri.

Hvenær þarf að huga að reglum um forystustjórnvald?

Eingöngu þarf að ákvarða forystustjórnvald þegar ábyrgðaraðili stundar vinnslu yfir landamæri. Vinnsla yfir landamæri felur annaðhvort í sér að:

(a)   vinnsla persónuupplýsinga fer fram í tengslum við starfsemi starfsstöðva ábyrgðaraðila eða vinnsluaðila innan Sambandsins í fleiri en einu aðildarríki, eða

(b)   vinnsla  persónuupplýsinga fer fram í tengslum við starfsemi einnar starfsstöðvar ábyrgðaraðila eða vinnsluaðila innan Sambandsins en hefur veruleg áhrif eða líklegt er að hafi veruleg áhrif á skráða einstaklinga í fleiri en einu aðildarríki.

Meta þarf í hvoru tilviki fyrir sig hvort þessi skilyrði séu uppfyllt.

Hvað er forystustjórnvald?

Í stuttu máli má segja að forystustjórnvald sé sú persónuverndarstofnun sem ber höfuðábyrgð á meðferð máls sem varðar vinnslu persónuupplýsinga yfir landamæri, til dæmis ef hinn skráði kvartar yfir vinnslunni. Sér forystustjórnvaldið um að samræma rannsóknaraðgerðir og fá aðkomu persónuverndarstofnana í öðrum aðildarríkjum eftir þörfum.

Ákvörðun um forystustjórnvald fer eftir staðsetningu á starfsstöð ábyrgðaraðila. 

Persónuverndarstofnun í því landi þar sem ábyrgðaraðili eða vinnsluaðili hefur starfsstöð sína, nánar tiltekið höfuðstöðvar sínar hafi hann starfsstöð í fleiri en einu aðildarríki, telst til þess bær að koma fram sem forystustjórnvald vegna vinnslu yfir landamæri sem sá ábyrgðaraðili eða vinnsluaðili annast.

Auk þess skal sérhver persónuverndarstofnun teljast til þess bær að fjalla um kvörtun sem lögð er fyrir hana eða mögulegt brot gegn Evrópureglugerðinni um persónuvernd ef viðfangsefnið tengist eingöngu starfsstöð í aðildarríki hennar eða hefur eingöngu veruleg áhrif á skráða einstaklinga í því aðildarríki. Í þeim tilvikum skal stofnunin tilkynna forystustjórnvaldinu um málavöxtu án tafar. Forystustjórnvaldið skal vera eini tengiliður ábyrgðaraðila eða vinnsluaðila vegna vinnslu hans yfir landamæri.

Reglurnar um forystustjórnvald gilda ekki þegar stjórnvöld eða einkaaðilar annast vinnslu í þágu almannahagsmuna. Í þeim tilvikum er persónuverndarstofnun þess aðildarríkis, þar sem stjórnvaldið eða einkaaðilinn hefur staðfestu, eina persónuverndarstofnunin sem er til þess bær að beita valdheimildum samkvæmt áðurnefndri Evrópureglugerð.

Hvert er hlutverk forystustjórnvalds?

Forystustjórnvald skal starfa með öðrum hlutaðeigandi persónuverndarstofnunum í samræmi við ákvæði Evrópureglugerðarinnar með það fyrir augum að ná samstöðu. Forystustjórnvaldið og aðrar hlutaðeigandi persónuverndarstofnanir skulu skiptast á öllum viðeigandi upplýsingum.

Forystustjórnvaldið getur hvenær sem er óskað eftir því að aðrar hlutaðeigandi persónuverndarstofnanir veiti gagnkvæma aðstoð og getur átt frumkvæði að sameiginlegum aðgerðum, einkum við rannsóknir.

Forystustjórnvaldið skal án tafar senda viðeigandi upplýsingar um málið til hinna persónuverndarstofnananna sem í hlut eiga. Það skal einnig senda þeim drög að ákvörðun til að fá álit þeirra og skal taka tilhlýðilegt tillit til sjónarmiða þeirra. Ef einhver þeirra leggur fram viðeigandi og rökstudd andmæli gegn drögum að ákvörðuninni innan fjögurra vikna frá því að samráð fer fram skal forystustjórnvaldið vísa málinu til samræmingarkerfisins sé það ekki fylgjandi andmælunum eða telji þau ekki viðeigandi eða rökstudd. Berist engin andmæli skal líta svo á að forystustjórnvaldið og aðrar hlutaðeigandi persónuverndarstofnanir séu sammála um fyrirliggjandi drög að ákvörðun og skulu þau bundin af þeim.

Forystustjórnvaldið skal samþykkja ákvörðun og tilkynna hana starfsstöð ábyrgðaraðilans eða vinnsluaðilans, nánar tiltekið aðalstöðvum hans hafi hann starfsstöð í fleiri en einu aðildarríki, og veita öðrum hlutaðeigandi persónuverndarstofnunum og persónuverndarráðinu upplýsingar um viðkomandi ákvörðun, þ.m.t. samantekt um þær staðreyndir og ástæður sem máli skipta. Persónuverndarstofnunin, sem kvartað hefur verið til, skal síðan tilkynna kvartandanum um ákvörðunina.

Hvað er samræmingarkerfi?

Til að stuðla að samræmdri beitingu persónuverndarreglugerðarinnar skulu persónuverndarstofnanir eiga samstarf sín í milli, og ef við á, við framkvæmdastjórnina með hjálp samræmingarkerfisins.

Kveðið er á um það í formálsorðum reglugerðarinnar að einkum ætti að beita kerfinu þegar persónuverndarstofnun hyggst gera ráðstöfun sem ætlað er að hafa réttaráhrif vegna vinnsluaðgerða sem hafa veigamikil áhrif á verulegan fjölda skráðra einstaklinga í nokkrum aðildarríkjum. Því ætti einnig að beita þegar einhver hlutaðeigandi persónuverndarstofnana eða framkvæmdastjórnin fer fram á að samræmingarkerfið annist meðferð slíks máls.

Þegar samræmingarkerfið er notað ætti persónuverndarráðið, innan tiltekins tíma, að gefa út álit ef meirihluti fulltrúa þess ákveður það eða ef einhver hlutaðeigandi persónuverndarstofnana eða framkvæmdastjórnin fer fram á það.

Þá er tekið fram að einnig megi nota samræmingarkerfið til að stuðla að samræmdri beitingu stjórnvaldssekta. 


Fáni EvrópusambandsinsVinnsla þessara spurninga og svara var styrkt af Evrópusambandinu - The European Union's Rights, Equality and Citizenship Programme (2014-2020)

Spurningarnar og svörin eru unnin af Persónuvernd sem ber fulla ábyrgð á þeim. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ber enga ábyrgð á notkun þeirra upplýsinga sem svörin hafa að geyma.


Var efnið hjálplegt? Nei