Allar spurningar og svör

Dómstólar og vinnsla þeirra á persónuupplýsingum

Persónuverndarlög gilda um starfsemi dómstóla og annarra dómsyfirvalda en valdsvið eftirlitsyfirvalda nær ekki til þess þegar dómstólar fara með dómsvald sitt, meðal annars við birtingu dómsúrlausna á Netinu.

Gildir persónuverndarlöggjöfin um starfsemi dómstóla?

Persónuverndarlöggjöfin gildir um starfsemi dómstóla og annarra dómsyfirvalda. Til að standa vörð um sjálfstæði dómskerfisins nær eftirlitsvald Persónuverndar (og annarra persónuverndarstofnana) þó ekki til vinnslu persónuupplýsinga á vegum dómstóla þegar þeir fara með dómsvald sitt, meðal annars við birtingu dómsúrlausna á Netinu.

Í niðurstöðu dóms Evrópudómstólsins frá 24. mars 2022 (mál nr. C-245/20) sem varðaði undanþágu frá valdsviði eftirlitsyfirvalda segir að vinnsla persónuupplýsinga sem framkvæmd er af dómstólum í sambandi við upplýsingastefnu þeirra (e. in context of their comminucation policy) varðandi mál sem þeir hafa til meðferðar falli utan valdsviðs eftirlitsyfirvalda. 

Hvaða reglur gilda um birtingu persónuupplýsinga í dómsúrlausnum?

Almennt um meginregluna um opinbera málsmeðferð

Meginregla íslensks réttarfars um opinbera málsmeðferð byggir m.a. á sjónarmiðum um gagnsæi og jafnræði við úrlausn mála, þ.e. að leyst sé úr sambærilegum málum með sambærilegum hætti. Meginreglan felur m.a. í sér að þinghöld séu að jafnaði opin, þ.e. háð í heyranda hljóði, og að dómsúrlausnir séu birtar með opinberum hætti. Með því er leitast við að koma á framfæri upplýsingum sem erindi geta átt við almenning og varpa um leið ljósi á starfsemi héraðsdómstólanna. Með opinberri birtingu dómsúrlausna er upplýsingum einnig komið til lögfræðinga og annarra sérfræðinga.

Á Íslandi eru dómstólar á þremur dómstigum, þ.e. héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur Íslands. Á öllum dómstigum gilda bæði lög um meðferð einkamála og lög um meðferð sakamála og birtist fyrrgreind meginregla þar í ýmsum ákvæðum, m.a. um birtingu dómsúrlausna og afhendingu gagna.

Ákvæði í réttarfarslögum um birtingu persónuupplýsinga

Samkvæmt lögum um meðferð einkamála er dómurum skylt, meðan mál eru rekin fyrir Landsrétti eða héraðsdómi, gegn greiðslu gjalds að láta þeim sem hafa lögvarinna hagsmuna að gæta í té staðfest eftirrit af málsskjölum og úr þingbók eða dómabók. Áður en endurrit úr þingbókum og dómabókum eða eftirrit málsskjala eru afhent öðrum en aðilum máls skal, ef sérstök ástæða er til, afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- og einkahagsmuna.

Samkvæmt lögum um meðferð sakamála eiga aðilar og brotaþolar rétt á að fá staðfest endurrit úr þingbók eða dómabók endurgjaldslaust. Dómurum er einnig skylt gegn greiðslu gjalds að láta öðrum í té staðfest endurrit úr dómabók og af úrskurðum og ákvörðunum sem færðar hafa verið í þingbók. Áður en endurrit eru afhent skal, ef sérstök ástæða er til, afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna, þar á meðal atriði úr endurritum af úrskurðum og ákvörðunum ef það hefði í för með sér hættu á sakarspjöllum að þau kæmust til vitundar almennings. Hið sama á við ef dómar eða aðrar úrlausnir eru birtar opinberlega, svo sem á vefsíðum.

Reglur dómstólasýslunnar um birtingu dómsúrlausna dómstólanna

Reglur dómstólasýslunnar um birtingu dóma og úrskurða gilda um birtingu úrlausna dómstólanna. Samkvæmt þeim skulu dómsúrlausnir birtar á vefsíðu dómstólanna, með ákveðnum takmörkunum þó.

Takmarkanirnar lúta meðal annars að tegund mála, en ekki skal birta dómsúrlausnir í málum sem varða kröfur um gjaldþrotaskipti, málum samkvæmt lögræðislögum, barnaverndarlögum, barnalögum eða hjúskaparlögum, svo dæmi séu nefnd.

Um nafnleynd segir í reglunum að í sakamálum skuli gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, þó ekki um ákærða ef hann er sakfelldur. Ef birting á nafni ákærða getur talist andstæð hagsmunum brotaþola, eða um er að ræða úrskurð sem gengur undir rekstri máls, skal nafnleyndar einnig gætt um ákærða. Það á einnig við ef ákærði var ekki orðinn 18 ára þegar hann framdi það brot sem hann er sakfelldur fyrir.

Einnig skal gæta nafnleyndar í dómum í einkamálum ef sérstök ástæða er til og skal þá einnig afmá önnur atriði úr dómi sem tengt geta aðila eða aðra við sakarefnið.

Sé nafnið þitt birt í dómi í einkamáli skal það tekið út ef þú biður um það þegar eitt ár er liðið frá birtingu dómsins. Beiðni skal send til þess dómstóls sem birti dóminn.

Taka skal úr dómsúrlausnum upplýsingar um einka-, fjárhags-, eða viðskiptahagsmuni einstaklinga, sem eðlilegt er að leynt fari. Fer það eftir mati dómara hverju sinni. Þegar um er að ræða viðkvæmar heilsufarsupplýsingar skulu þær afmáðar nema tilgreining þeirra skipti máli fyrir niðurstöðu í dómsúrlausn en þá skal gætt nafnleyndar. Þegar atriði hafa verið afmáð úr dómsúrlausn skal þess gætt að það sem eftir stendur í dómsúrlausninni verði ekki tengt þeim hagsmunum sem ætlunin er að vernda. Einnig skulu kennitölur afmáðar úr dómsúrlausnum sem birtar eru á Netinu.

Persónuverndarlög

Valdsvið eftirlitsyfirvalda nær ekki til þeirrar vinnslu sem fer fram þegar dómstólar fara með dómsvald sitt. Persónuvernd leggur þó áherslu á að meginreglur persónuverndarlöggjafarinnar verði hafðar að leiðarljósi við þá vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram þegar dómstólar fara með dómsvald sitt.

Persónuupplýsingar birtust um mig á vefsíðu dómstóls, hvað á ég að gera? 

Hver og einn dómstóll annast birtingu dóma og úrskurða á vefsíðum þeirra. Hver og einn dómstóll telst því ábyrgðaraðili birtingar þeirra dómsúrlausna sem frá honum stafa. Þú þarft því að leita til tiltekins dómstóls um að persónuupplýsingar um þig verði afmáðar úr tiltekinni dómsúrlausn.



Var efnið hjálplegt? Nei