Allar spurningar og svör

Viðgerðarsaga bíla

Með miðlun upplýsinga um þjónustu- og viðgerðarsögu bifreiða getur átt sér stað vinnsla persónuupplýsinga sem þarf að styðjast við heimild í persónuverndarlögum.

Eru upplýsingar um þjónustu- og viðgerðarsögu bifreiða persónuupplýsingar?

- Skilyrði þess persónuverndarlögin gildi er að vinnsla persónuupplýsinga hafi átt sér stað. Með persónuupplýsingum er átt við upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling („skráðan einstakling“); einstaklingur telst persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, svo sem með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem einkenna hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, erfðafræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti.

- Bifreiðar eru skráðar í ökutækjaskrá sem Samgöngustofa annast. Í ökutækjaskrá skal færa upplýsingar um ökutæki, eiganda þess og eftir atvikum umráðamann. Sjá hér nánar starfsreglur Samgöngustofu um upplýsingamiðlun úr ökutækjaskrá. Verk unnin á skráðum bifreiðum fylgja því umræddu ökutækjanúmeri og geta með því móti verið persónugreinanlegar upplýsingar.

Hvaða reglur gilda um afhendingu upplýsinga um þjónustu- og viðgerðarsögu bifreiðar til nýs bifreiðareiganda?

- Öll vinnsla persónuupplýsinga, svo sem miðlun þeirra frá Samgöngustofu, tryggingafélögum, bifreiðaumboðum eða verkstæðum, þarf að fara fram á grundvelli heimildar í persónuverndarlögum. Yfirlit yfir þær heimildir sem koma til greina má nálgast hér.

- Sú heimild sem hér gæti einkum komið til skoðunar er sú að vinnslan sé heimil á grundvelli þess að hún teljist nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili (t.d. þjónustuverkstæði eða bifreiðaumboð) eða þriðji maður (t.d. nýr eigandi bifreiðar) gætir. Í úrskurði Persónuverndar frá 25. júní 2017, í máli nr. 2016/1262, sem kveðinn var upp í gildistíð eldri persónuverndarlaga, var á því byggt að bifreiðaumboði hefði verið heimilt að fletta upp og miðla upplýsingum um þjónustusögu bifreiðar til annarrar bílasölu, í því skyni að verja hagsmuni fyrirtækisins og mögulegs nýs eiganda.

- Það er á ábyrgð ábyrgðaraðila (þ.e. þess sem miðlar upplýsingunum) að meta hvort og þá hvaða heimild til miðlunarinnar er til staðar, og þar með hvort bifreiðareiganda er unnt að óska eftir viðgerðar- og þjónustusögu bíls, en það mat getur sætt endurskoðun Persónuverndar, berist stofnuninni formleg kvörtun.

- Við alla vinnslu persónuupplýsinga þarf einnig að gæta að meginreglum persónuverndarlaga og þarf ábyrgðaraðili að auki að geta sýnt fram á hvernig það er gert. Framangreindar meginreglur lúta m.a. að því að ekki sé gengið lengra en þörf er á við vinnslu persónuupplýsinga og að vinnslan sé sanngjörn, gagnsæ, áreiðanleg og örugg.



Var efnið hjálplegt? Nei