Úrlausnir

Vinnsla LÍN á upplýsingum frá Ríkisskattstjóra

23.6.2016

Persónuvernd hefur úrskurðað um að Lánasjóði íslenskra námsmanna hafi verið heimilt að afla upplýsinga um tekjur kvartanda frá Ríkisskattstjóra. Fræðsla gagnvart kvartanda hafi hins vegar ekki samrýmst 21. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. 

Reykjavík, 30. maí 2016

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 30. maí 2016 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2015/1619:

 

I.

Málsmeðferð

 1.

Tildrög máls

Þann 2. desember 2015 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi) vegna öflunar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (hér eftir LÍN) á upplýsingum um tekjur hans frá Ríkisskattstjóra. Í kvörtuninni segir m.a. að LÍN hafi sótt, skoðað og notað upplýsingar um tekjur kvartanda sem grundvöll að endurgreiðslu námslána sem eiginkona hans tók fyrir þeirra kynni. Kvartandi hafi aldrei verið upplýstur um að þessar upplýsingar yrðu sóttar eða veitt leyfi fyrir því. Eiginkona kvartanda hafi á árinu 2015 sótt um undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar af námslánum sínum vegna örorku, en umsókn hennar hafi verið synjað með vísan til þess að árstekjur hennar og kvartanda hafi samanlagt verið yfir viðmiðunarmörkum fyrir árstekjur hjóna samkvæmt reglum LÍN.

 

Kvartandi vísar til þess að maki lántaka beri hvorki beina né óbeina ábyrgð á skuldbindingum hans gagnvart LÍN. Ekki sé því rétt eða löglegt að tekjur maka komi til álita þegar mat á hæfi til endurgreiðslu fer fram. Þá hafi LÍN ekki leitað eftir heimild kvartanda til að sækja upplýsingar um tekjur hans við útreikning á greiðsluhæfi eiginkonu hans. Ekki verði séð að LÍN hafi haft heimild til að sækja upplýsingar um tekjur kvartanda, sbr. 8. gr. laga nr. 77/2000, eða fullnægt upplýsingaskyldu sinni, sbr. 21. gr. sömu laga.

 

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 4. janúar 2016, var LÍN boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi LÍN, dags. 1. febrúar 2016, er áréttað að við endurgreiðslu námslána sé eingöngu tekið mið af tekjustofni lánþega. Einungis sé litið til tekna maka við mat á því hvort greiðandi teljist vera í verulegum fjárhagsörðugleikum og uppfylli þar af leiðandi skilyrði sjóðsins til þess að geta átt rétt á ívilnandi undanþágu frá afborgun. Lánþegi geti nánar tiltekið sótt um og átt rétt á slíkri undanþágu ef sýnt þyki að nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valdi verulegum fjárhagsörðugleikum hjá honum eða fjölskyldu hans, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Til þess að hægt sé að meta hvort lánþegi og fjölskylda hans séu í verulegum fjárhagsörðugleikum sé nauðsynlegt að líta til tekna lánþega og maka hans. Hjón séu samsköttuð og beri gagnkvæma framfærsluskyldu sín í milli, sbr. 2. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, og LÍN telji það rökrétt og málefnalegt að líta til tekna maka við mat á fjárhagslegum örðugleikum, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og gr. 8.5 í úthlutunarreglum sjóðsins námsárið 2015-2016.

 

Í bréfi LÍN kemur jafnframt fram að sjóðurinn telji vinnslu upplýsinga um tekjur maka samrýmast meginreglum 7. gr. laga nr. 77/2000. Þá segir að LÍN geri ráð fyrir því að maka greiðanda, sem sækir um undanþágu frá afborgun á grundvelli verulegra fjárhagsörðugleika hjá sér eða fjölskyldu sinni, sé kunnugt um að tekjur hans verði skoðaðar við mat á því hvort um slíka fjárhagsörðugleika sé að ræða. LÍN telji sér því ekki skylt að upplýsa hinn skráða um framangreinda vinnslu, sbr. 2. tölul. 4. mgr. 21. gr. laga nr. 77/2000.

 

Með bréfi, dags. 17. febrúar 2016, ítrekuðu 10. mars s.á., var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar LÍN til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi kvartanda, dags. 22. mars 2016, segir að kvartandi telji gengið á grundvallarréttindi hans með því að LÍN sæki upplýsingar um tekjur hans í áðurgreindum tilgangi. Þá sé það hæpin forsenda af hálfu LÍN að sjóðurinn geri ráð fyrir að maka greiðanda, sem sækir um undanþágu, sé kunnugt um að tekjur hans verði skoðaðar. Að lokum bendir kvartandi á að í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 sé heimild til að veita undanþágu frá afborgun vegna verulegra fjárhagsörðugleika hjá „lánþega eða fjölskyldu hans“ en LÍN vísi hins vegar til þess að meta þurfi hvort „lánþegi og fjölskylda hans“ séu í verulegum fjárhagsörðugleikum. Í vinnureglum LÍN sé litið fram hjá því hvernig fjárhagslegum byrðum sé skipt í hjúskap kvartanda en LÍN gefi sér að kvartandi taki fjárhagslega ábyrgð á maka sínum. Sjóðurinn hafi ekki kannað hvort kvartandi og maki hans hafi gert með sér samning um að maki kvartanda sjái um afborganir af eigin skuldbindingum og eigin framfærslu.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

 1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Af framangreindu er ljóst að öflun LÍN á upplýsingum um tekjur kvartanda frá Ríkisskattstjóra fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.

 

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst LÍN vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.

 

2.

Lögmæti vinnslu

Svo að vinna megi með persónuupplýsingar verður ávallt að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. er vinnsla persónuupplýsinga heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila. Fyrir liggur að eiginkona kvartanda sótti um undanþágu frá greiðslu afborgunar af námsláni sínu í mars 2015 en umsóknin kom til vegna örorku hennar, sbr. áðurnefnt ákvæði 2. málsl. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

 

Í 1. málsl. 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 kemur fram að skuldari, sem sækir um undanþágu skv. 6. mgr., skuli leggja sjóðstjórn til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli. Samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 478/2011, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, skal lánþegi við þessar aðstæður leggja fyrir sjóðstjórn upplýsingar um eignir sínar, lífeyri og annað það sem stjórnin telur máli skipta. Jafnframt segir þar að sjóðstjórn setji nánari almennar reglur um framkvæmd þessa heimildarákvæðis. Slíkar reglur er að finna í grein 8.5.1 í úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir skólaárið 2015-2016, sbr. sambærilega reglu í grein 7.5.1 í eldri úthlutunarreglum sjóðsins fyrir skólaárið 2014-2015, en þar kemur meðal annars fram að almennt sé miðað við að ekki séu veittar undanþágur ef árstekjur lánþega eru yfir 3.330.000 kr. og ef árstekjur hjóna/sambúðarfólks eru yfir 6.660.000 kr. Þá er til þess að líta að í 4. mgr. 14. gr. laga nr. 21/1992 kemur fram að Ríkisskattstjóra sé skylt að láta Lánasjóðnum í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna.

 

Samkvæmt framansögðu verður talið að LÍN hafi verið heimilt, með vísan til 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, að afla upplýsinga um tekjur kvartanda frá Ríkisskattstjóra.

 

3.

Fræðsla

Í 21. gr. laga nr. 77/2000 er sú skylda lögð á ábyrgðaraðila að láta hinn skráða vita þegar hann aflar persónuupplýsinga frá öðrum en honum sjálfum. Ber ábyrgðaraðila að greina honum frá þeim atriðum sem talin eru upp í 3. mgr. 21. gr., m.a. nafni og heimilisfangi ábyrgðaraðila, tilgangi vinnslunnar og öðrum upplýsingum, að því marki sem þær eru nauðsynlegar, með hliðsjón af þeim sérstöku aðstæðum sem ríkja við vinnslu upplýsinganna, svo að hinn skráði geti gætt hagsmuna sinna, svo sem upplýsingar um tegundir eða flokka þeirra upplýsinga sem unnið er með og hvaðan upplýsingarnar koma, sbr. a- og b-lið 3. tölul. 3. mgr. 21. gr.

 

Auk fullnægjandi vinnsluheimildar ber ávallt að gæta að því við vinnslu persónuupplýsinga að fullnægt sé öllum kröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, en þar er meðal annars mælt fyrir um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.). Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. ber ábyrgðaraðili ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga uppfylli ávallt ákvæði 1. mgr. ákvæðisins. Forsenda þess að vinnsla teljist sanngjörn, samkvæmt áðurnefndum 1. tölul. 1. mgr. 7. gr., er að hún sé gagnsæ gagnvart hinum skráða en í því felst meðal annars að hinn skráði viti um vinnsluna og hafi fengið fræðslu um hana, sbr. ákvæði 20. og 21. gr. laga nr. 77/2000.

 

Fyrir liggur í málinu að ábyrgðaraðili veitti kvartanda ekki fræðslu um þá vinnslu persónuupplýsinga sem fram fór um hann, sbr. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 77/2000. Ekki verður fallist á það með LÍN að sjóðurinn hafi mátt ætla að kvartanda væri þegar kunnugt um vinnsluna, sbr. 2. tölul. 4. mgr. 21. gr. laga nr. 77/2000, en eins og fram hefur komið var það maki kvartanda sem tók umrætt lán og sótti um undanþágu frá afborgun þess en ekki kvartandi sjálfur, auk þess sem lánið var tekið fyrir þeirra kynni.

 

Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd að fræðsla til kvartanda hafi ekki verið í samræmi við 21. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Lánasjóði íslenskra námsmanna var heimilt að afla upplýsinga um tekjur [A] frá Ríkisskattstjóra. Fræðsla til hans samrýmdist ekki 21. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.



 

 

 




Var efnið hjálplegt? Nei