Úrlausnir

Svar stjórnar Persónuverndar til Barnaverndarstofu

31.5.2006

Persónuvernd vísar til erindis Barnaverndarstofu, dags. 25. maí 2004, þar sem óskað er eftir umsögn og áliti Persónuverndar um túlkun ákvæða í reglugerð nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu og ákvæðis 44. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um upplýsingaskyldu gagnvart barnaverndarnefnd.

Erindið varðar ágreining milli Barnaverndarstofu og embættis lögreglustjórans í Reykjavík um miðlun persónuupplýsinga frá Lögreglunni í Reykjavík til Barnaverndar Reykjavíkur. Tilurð ágreiningsins er sú að starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur hefur reynst erfitt að nálgast endurrit myndbanda frá lögreglunni í Reykjavík sem innihalda skýrslutökur í kynferðisbrotamálum.

Að mati Barnaverndarstofu er ákvæði 44. gr. barnaverndarlaga talið uppfylla skilyrði 2. tl. 6. gr. reglugerðar nr. 322/2001 og það talið hafa að geyma skýra og ótvíræða skyldu lögreglu til að láta upplýsingar af hendi. Þá hafnar Barnaverndarstofa alfarið þeirri túlkun lögreglu að ákvæði 44. gr. barnaverndarlaga nái ekki til skyldu til að afhenda gögn og bendir á að orðalag ákvæðisins undirstriki að barnaverndarnefndir eigi rétt á gögnum sem til eru og að þær eigi einnig rétt á því að þeir aðilar sem 44. gr. nær til geta þurft að taka sérstaklega saman upplýsingar og senda nefndunum. Barnavernarstofa bendir á að hvorki í ákvæði 44. gr. né í lögskýringargögnum komi fram að upplýsingaskyldan eigi einungis við í tilteknum tegundum mála eða um tilteknar tegundir upplýsinga eða gagna.

Með bréfi dags. 4. júní 2004 var lögreglustjóranum í Reykjavík gefinn kostur á því að koma á framfæri sjónarmiðum sínum til ofangreinds ágreiningsefnis. Svar barst með bréfi dags. 16. ágúst sl. þar sem sjónarmið embættis lögreglustjórans í Reykjavík eru reifuð. Þar kemur m.a. fram að embættið líti svo á að Persónuvernd sé ekki bær að lögum til að fjalla um það álitaefni hvort lögreglu sé skylt að afhenda rannsóknargögn í sakamáli. Að auki kemur fram í svarbréfinu að það efni sem um ræðir sé sönnunargagn í sakamálum og fari um aðgang að því eftir lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og um synjun afhendingar slíkra gagna skuli bera undir embætti ríkissaksóknara sem æðra stjórnvald. Embætti lögreglustjórans telur einnig í svari sínu að gera verði greinarmun á aðgangi að upplýsingum og aðgangi að gögnum og því verði aðgangur að rannsóknargögnum opinbers máls ekki byggður á 44. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Embættið hafnar því einnig í bréfi sínu að aðgangur að rannsóknargögnum verði byggður á reglugerð nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu.

Persónuvernd sendi Barnaverndarstofu bréf í framhaldinu, dags. 19. ágúst sl., þar sem Barnaverndarstofu var boðið að tjá sig um efni bréfs lögreglustjórans í Reykjavík. Í svarbréfi, dags. 22. september sl. kemur fram að Barnaverndarstofa hafnar þeim skilningi lögreglustjórans að Persónuvernd sé ekki bær að lögum til að fjalla um erindi stofunnar. Í bréfinu kemur einnig fram sú krafa Barnaverndarstofu að Persónuvernd leysi úr fyrirliggjandi ágreiningi um hvort lögreglu beri að afhenda Barnaverndarstofu myndbandsspólur í samræmi við 44. gr. barnaverndarlaga með vísan til reglugerðar nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu, sbr. 3. mgr. 45. gr. laga nr. 77/2000, sbr. og með vísan til 3. og 6. tl. 8. gr. og 2. tl. 9. gr. sömu laga.

Málið var tekið fyrir á fundi stjórnar Persónuverndar þann 24. september sl. Niðurstaða stjórnar Persónuverndar var sú að 44. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 hafi að geyma ótvíræða lagaheimild í skilningi 2. tl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Að mati Persónuverndar standa ákvæði laga nr. 77/2000 því ekki í vegi að heimilt sé að afhenda umrædd gögn. Á hinn bóginn er það ekki á valdsviði Persónuverndar að skera úr réttarágreiningi um skyldu eins stjórnvalds til að afhenda öðru stjórnvaldi gögn, enda lýtur réttarágreiningurinn ekki að skýringu laga nr. 77/2000 heldur þeim valdheimildum sem Barnaverndarstofu er að lögum fengnar í 44. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002



Var efnið hjálplegt? Nei