Efst á baugi - Úrskurðir o.fl.

Upptaka persónuverndarreglugerðar ESB í EES-samninginn og staða innleiðingar

24.4.2018

Persónuvernd vekur athygli á frétt dómsmálaráðuneytisins um upptöku persónuverndarreglugerðar ESB í EES-samninginn og stöðu innleiðingar. Í frétt dómsmálaráðuneytisins segir:

„Persónuverndarreglugerð ESB eða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og niðurfellingu tilskipunar 95/46/EB, kemur til framkvæmda í ríkjum ESB innan örfárra vikna eða hinn 25. maí nk.


Staða upptökuferlis í EES-samninginn

Persónuverndarreglugerð ESB mun ekki taka til EFTA-ríkjanna innan EES, þ.m.t. Íslands, fyrr en hún hefur verið tekin formlega upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og sú ákvörðun tekið gildi.  

Dómsmálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið hafa með aðkomu Persónuverndar unnið að upptöku persónuverndarreglugerðar ESB í EES-samninginn um nokkurt skeið.  Frá því að persónuverndarreglugerð ESB var samþykkt vorið 2016 hafa EFTA ríkin undirbúið  upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn.


Samningaviðræður EFTA-ríkjanna  og framkvæmdastjórnar ESB um tillögur að mismunandi útfærslum við aðlögun gerðarinnar fyrir EFTA-ríkin innan EES hafa staðið yfir frá apríl 2017. Samstaða náðist í mars sl. um drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku á reglugerðinni í EES-samninginn. EFTA-ríkin hafa formlega sent ESB drögin til meðferðar en ESB þarf að ljúka sinni málsmeðferð áður en drögin verða tekin fyrir á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Hvort það náist áður en reglugerðin kemur til framkvæmda í ríkjum ESB í lok maí nk. ræðst alfarið af því hvernig málsmeðferð ESB vindur fram. EFTA-ríkin hafa ekkert forræði á þeirri málsmeðferð.


Ef reglugerðin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn 25. maí nk.

Þó að reglugerðin hafi ekki verið tekin upp í EES-samninginn fyrir 25. maí nk. þá ætti ekki að stöðva flæði persónuupplýsinga á milli ESB og Íslands. EFTA-ríkin hafa verið í nánu samráði við Evrópusambandið um upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn og mikil vinna hefur farið fram við að tryggja aðlögun þessarar flóknu löggjafar að lagakerfi EFTA-ríkjanna. Boltinn er nú hjá framkvæmdarstjórn ESB en vonir standa til að þaðan verði þetta afgreitt fljótlega og mögulegt verði að taka reglugerðina upp í EES-samninginn um svipað leyti sem hún kemur til framkvæmda innan ESB.

Ein afleiðing af veru Íslands í EES hefur verið að frá sjónarhóli ESB hafa EFTA-ríkin ekki verið álitin svokölluð þriðju ríki heldur sem hluti af ESB hvað varðar EES-löggjöf. Á sama tíma hefur ESB tekið ákvörðun um að heimilt sé að senda persónuupplýsingar til ýmissa þriðju ríkja, t.d. Bandaríkjanna, á grundvelli samninga við þau um að gætt verði fullnægjandi persónuverndar. Þessir samningar sem byggja á eldra regluverki munu halda gildi sínu þar til annað verður ákveðið eins og mælt er fyrir um í 44. gr. nýju reglugerðarinnar.

Ákveðin hætta er á að lagatæknilega muni EFTA-ríkin falla á milli skips og bryggju ef nýja reglugerðin tekur gildi í Evrópu áður en hún getur tekið gildi hjá EFTA-ríkjunum, því þá teljast þau á meðan hvorki sem þriðju ríki sem njóta ákvörðunar framkvæmdarstjórnar ESB um persónuvernd né sem fullgildir þátttakendur innri markaðar ESB hvað varðar persónuvernd. Þar sem staða persónuverndar á Íslandi er í reynd jafnvel betri en í sumum aðildarríkjum ESB svo ekki sé talað um þriðju ríki er ljóst að sú staða yrði á skjön við alla skynsemi.

Allt kapp er lagt á að upptökuferlinu ljúki sem fyrst. Dómsmálaráðherra stefnir enn að því að leggja fram frumvarp til nýrra persónuverndarlaga, til innleiðingar á reglugerðinni, á vorþingi og eru vonir bundnar við að Alþingi geti samþykkt ný persónuverndarlög og þar með lokið innleiðingunni fyrir sumarhlé í byrjun júní.“


Þetta vefsvæði byggir á Eplica