Tafir á afgreiðslu mála hjá Persónuvernd

Vegna margra fyrirspurna um stöðu mála, sem eru til afgreiðslu hjá Persónuvernd, vill stofnunin koma því á framfæri að vegna fordæmalausra anna er fyrirsjáanlegt að tafir verði áfram á afgreiðslu allra mála hjá Persónuvernd. 

Staða Persónuverndar hefur verið erfið um nokkurt skeið en nýskráðum málum hjá stofnuninni hefur fjölgað mjög hratt undanfarin misseri. Stofnunin glímdi auk þess lengi vel við alvarlega undirmönnun og því er jafnframt til staðar uppsafnaður vandi vegna mikils fjölda óafgreiddra mála. Á meðan Persónuvernd tekst á við afleiðingar undirmönnunar undarfarinna ára og mikinn málafjölda eru tafir á málsmeðferð og svörum til málsaðila óhjákvæmilegar. 

Öll þau mál sem berast Persónuvernd eru sett í viðeigandi farveg og er málsaðilum tilkynnt um það, þó svo að á því geti orðið tafir, sbr. framangreint. Almennt er áætlað að afgreiðsla kvartana geti tekið um 6-12 mánuði en afgreiðslutími getur þó lengst enn frekar ef mál eru sérstaklega flókin eða umfangsmikil. Forgangsmál geta tekið skemmri tíma. Öll mál eru afgreidd eins hratt og mögulegt er og er þeim forgangsraðað eftir tilefni og getu hverju sinni. 

Benda má á að Persónuvernd birtir mánaðarlega yfirlit yfir helstu tölur í starfsemi stofnunarinnar á vefsíðu sinni. Þar má meðal annars sjá að 1. apríl 2019 var heildarfjöldi óafgreiddra mála hjá stofnuninni 680, en þess má geta að hann fór mest í 1.052 mál fyrr á árinu. Nýskráð mál á fyrstu þremur mánuðum ársins 2019 voru 930 talsins en til samanburðar voru nýskráð mál alls 2.413 á árinu 2018 og 1.911 árið 2017.Var efnið hjálplegt? Nei