Tafir á afgreiðslu mála hjá Persónuvernd

Vegna margra fyrirspurna um stöðu mála og ítrekana á kvörtunum og fyrirspurnum sem Persónuvernd hafa borist undanfarið vill stofnunin benda á að verkefnastaða hjá Persónuvernd hefur verið erfið um langt skeið, enda hefur stofnunin glímt við alvarlega undirmönnun í mörg ár. Á sama tíma hafa verkefni stofnunarinnar þrefaldast. 

Á meðan Persónuvernd er undirmönnuð eru tafir á málsmeðferð og svörum til málsaðila óhjákvæmilegar. Reynt verður sem fyrr að forgangsraða málum eftir mikilvægi þeirra, en fyrirsjáanlegt er að miklar tafir verði áfram á afgreiðslu flestra mála.

Vegna margra fyrirspurna um stöðu mála og ítrekana á kvörtunum og fyrirspurnum sem Persónuvernd hafa borist undanfarið vill stofnunin benda á að verkefnastaða hjá Persónuvernd hefur verið erfið um langt skeið, enda hefur stofnunin glímt við alvarlega undirmönnun í mörg ár. Á sama tíma hafa verkefni stofnunarinnar þrefaldast. Þetta leiddi m.a. til neyðarbeiðni til þáverandi innanríkisráðuneytis, dags. 27. desember 2016, umsagnar til fjárlaganefndar Alþingis sl. vor og frétta á vefsíðu stofnunarinnar sl. haust um að fyrirsjáanlegar tafir yrðu á afgreiðslu allra mála hjá Persónuvernd.


Loks var ákveðið í fjárlögum 2018 að bregðast að einhverju leyti við framangreindri stöðu hjá Persónuvernd með um 80% aukningu á fjárheimildum. Vegna þessa voru nýlega auglýstar fimm lausar stöður hjá stofnuninni, sem 215 manns sóttu um.


Persónuvernd berast tæp 2000 mál á ári og þessum málafjölda sinna í dag sjö starfsmenn. Óafgreidd mál eru nú rúmlega 500 og því eru um og yfir 80 mál til afgreiðslu hjá hverjum starfsmanni ásamt því sem ný mál berast á degi hverjum, en það sem af er þessu ári hafa verið skráð um 320 ný mál.


Persónuvernd þykir miður að geta ekki sinnt innkomnum erindum betur, en á meðan stofnunin er undirmönnuð eru tafir á málsmeðferð og svörum til málsaðila óhjákvæmilegar. Tekið skal fram að öll þau mál sem berast Persónuvernd eru sett í viðeigandi farveg og er málsaðilum tilkynnt um það þó svo að á því geti orðið töf í ljósi verkefnastöðu stofnunarinnar. Þá er málum forgangsraðað eftir mikilvægi þeirra hverju sinni.Var efnið hjálplegt? Nei