Efst á baugi - Úrskurðir o.fl.

Söfnun og miðlun persónuupplýsinga á samfélagsmiðlum

13.4.2018

Á síðasta fundi 29. gr.-vinnuhópsins*, sem fram fór 10.-11. apríl sl., var lýst yfir fullum stuðningi við yfirstandandi rannsóknir persónuverndarstofnana á vinnslu og miðlun persónuupplýsinga á vegum samfélagsmiðla. Einnig tilkynnti formaður hópsins, Andrea Jelinek, að stofnaður yrði starfshópur í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga þeirra vegum, þ. á m. miðlun upplýsinga til utanaðkomandi aðila (e. Social Media Working Group), en hlutverk hópsins yrði að vinna að langtímastefnumótun í tengslum við persónuvernd og samfélagsmiðla.

Í fréttatilkynningu frá vinnuhópnum er m.a. vitnað í formann hópsins þar sem hún segir að nú sé að hefjast nýtt tímabil í sögu persónuverndar og að vernd einstaklinga gegn ólögmætri notkun persónuupplýsinga á samfélagsmiðlum verði í brennidepli. Þá segir einnig í yfirlýsingu hennar að þó svo að Camebridge Analytica og Facebook séu efst í huga allra um þessar mundir sé tilgangurinn að skoða þessi mál í víðara samhengi og til lengri tíma. Háttsemi þessara fyrirtækja, sem hafi verið í umræðunni undanfarnar vikur, sé að öllum líkindum aðeins eitt dæmið um þá starfsemi sem mun víðar tíðkist að safna persónuupplýsingum af samfélagsmiðlum og miðla þeim í efnahagslegum og pólitískum tilgangi.

Þá hefur fjöldi systurstofnana Persónuverndar birt á vefsíðum sínum leiðbeiningar til einstaklinga um hvernig þeir geti gætt réttinda sinna gagnvart samfélagsmiðlum, s.s. með notkun á persónuverndarstillingum, en tengla á leiðbeiningarnar má nálgast í yfirlýsingu 29. gr. vinnuhópsins .

 


*29. gr. hópurinn er skipaður fulltrúum evrópskra persónuverndarstofnana og gegnir samræmingar- og ráðgjafarhlutverki á sviði persónuverndar innan ESB og EES.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica