Efst á baugi - Úrskurðir o.fl.

Fimm lausar stöður hjá Persónuvernd

22.12.2017

TIL MÓTS VIÐ NÝJA TÍMA – MEÐ PERSÓNUVERND!
FIMM LAUSAR STÖÐUR

 

Persónuvernd stendur á miklum tímamótum þar sem umfangsmiklar breytingar hafa verið gerðar á evrópskri persónuverndarlöggjöf. Breytingarnar snerta alla borgara, stofnanir og fyrirtæki landsins – og eru svar löggjafans við tæknibyltingunni og hinni gríðarlegu upplýsingasöfnun og úrvinnslu persónuupplýsinga sem henni fylgir. Vegna þessa eru nú auglýstar til umsóknar fimm nýjar stöður hjá Persónuvernd. Leitað er að framúrskarandi einstaklingum sem eru tilbúnir að takast á við krefjandi verkefni með samhentu teymi hjá Persónuvernd.

 

Persónuvernd er sjálfstætt stjórnvald sem annast eftirlit með framkvæmd laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglna settra samkvæmt þeim. Eitt af helstu verkefnum Persónuverndar er að ráðleggja og leiðbeina þeim sem vinna með persónuupplýsingar. Persónuvernd er fjölskylduvænn og samhentur vinnustaður.

 

Lausar eru tvær stöður sérfræðinga á sviði upplýsingaöryggis

Er upplýsingaöryggi hluti af þínu erfðamengi? Brennur þú af þörf til þess að hjálpa öðrum að skilja og fara að persónuverndarreglunum? Getur þú fundið leiðir til lausnar og unnið með lögfræðingum? Í stuttu máli sagt: veistu heilmikið um tæknimál og öryggi upplýsinga og getur þú miðlað þeirri þekkingu? Ef svo er, þá er Persónuvernd að leita að þér!

HELSTU VERKEFNI:

Sem sérfræðingur í upplýsingaöryggi munt þú, í samstarfi við aðra, sinna ráðgjöf og leiðbeiningu til stofnana og fyrirtækja auk almennra borgara. Umfjöllun um og mat á öryggi persónuupplýsinga verður stór þáttur vinnunnar, m.a. með hliðsjón af innbyggðri og sjálfgefinni persónuvernd, mati á áhrifum um persónuvernd (DPIA), sem og ábyrgðarskyldu ábyrgðaraðila og vinnsluaðila. Um er að ræða ný störf hjá Persónuvernd og því einstakt tækifæri til að taka þátt í mótun virkara frumkvæðiseftirlits með öryggi persónuupplýsinga að leiðarljósi og fylgjast með tækniþróun og vinnslu persónuupplýsinga á innlendum og erlendum vettvangi.

 MENNTUNAR- OG HÆFNISKRÖFUR:

  • BS-gráða í tölvunarfræði, eða önnur menntun sem nýtist í starfi
  • Reynsla af úttektum á upplýsingakerfum er kostur
  • Reynsla af upplýsingaöryggismálum er kostur
  • Samskiptahæfni og lipurð í mannlegum samskiptum er skilyrði

  Nánari upplýsingar má nálgast hér: https://capacent.is/radningar/storf/personuvernd/serfraedingar-a-svidi-upplysingaoryggis-6184/

 

Lausar eru tvær stöður lögfræðinga

Hefur þú áhuga á að vera í framvarðasveit lögfræðinga til að standa vörð um persónuupplýsingar einstaklinga? Brennur þú af þörf til þess að hjálpa öðrum að skilja og fara að persónuverndarreglunum? Hefur þú framúrskarandi vald á íslensku, bæði í ræðu og riti? Ef svo er, þá er Persónuvernd að leita að þér!

 HELSTU VERKEFNI:

·         Hefðbundin lögfræðistörf, m.a. vinna að úrskurðum í ágreiningsmálum og álitum

·         Afgreiðsla fyrirspurna

·         Önnur verkefni sem forstjóri kann að fela starfsmanni, m.a. vegna fyrirsjáanlegra breytinga á verkefnum Persónuverndar

 MENNTUNAR- OG HÆFNISKRÖFUR:

·         Embættis- eða meistarapróf í lögfræði

·         Mikil áhersla er lögð á gott vald á íslensku og ensku auk færni til að tjá sig í ræðu og riti. Þekking á Norðurlandamáli er kostur

·         Nákvæmi, frumkvæði og ögun í vinnubrögðum

·         Góð samskiptahæfni og lipurð í mannlegum samskiptum er skilyrði

    Nánari upplýsingar má nálgast hér: https://capacent.is/radningar/storf/personuvernd/logfraedingar-6185/ 

 

Laus er staða skrifstofumanns með reynslu af skjalavinnslu

HELSTU VERKEFNI:

·         Hefðbundin skrifstofustörf, skjalavinnsla/málaskráning.

MENNTUNAR- OG HÆFNISKRÖFUR:

·         Stúdentspróf og gott vald á íslensku og ensku

·         Háskólapróf á sviði skjalavörslu er kostur

·         Reynsla af almennum skrifstofustörfum og málaskráningu er skilyrði. Þekking á færslu bókhalds er kostur

·         Nákvæmi, frumkvæði og ögun í vinnubrögðum

·         Góð samskiptahæfni og lipurð í mannlegum samskiptum er skilyrði

   Nánari upplýsingar má nálgast hér: https://capacent.is/radningar/storf/personuvernd/skrifstofumadur-med-reynslu-af-skjalavinnslu-6186/

 

 

Umsóknarfrestur er til og með 11. janúar 2018. Umsóknir um starfið skulu berast í gegnum vefsíðu Capacent og skulu þeim fylgja ítarlegar upplýsingar um nám og starfsferil ásamt prófskírteinum. Launakjör eru samkvæmt gildandi kjarasamningi ríkisins við viðkomandi stéttarfélag.

 

Nánari upplýsingar um störf lögfræðinga veita Þórður Sveinsson og Vigdís Eva Líndal, skrifstofustjórar hjá Persónuvernd, í síma 510-9600.

Nánari upplýsingar um störf sérfræðinga í upplýsingaöryggi veitir Vigdís Eva Líndal, í síma 510-9600.

Nánari upplýsingar um störf skrifstofumanneskju veitir Auður Bjarnadóttir, hjá Capacent audur.bjarnadottir (hjá) capacent.is

Konur jafnt sem karlar eru hvattar til að sækja um þessi störf.

 

 

Vörumerki Persónuverndar

Þetta vefsvæði byggir á Eplica