Creditinfo (LT) - áhættumatsupplýsingar um einstaklinga

Persónuvernd vísar til fyrri samskipta varðandi vinnslu áhættumatsupplýsinga um einstaklinga, þ.e. vinnslu sem felur í sér útreikning á líkum á lánshæfi einstaklings (líkur á að hann muni lenda í alvarlegum vanskilum).

Erindi Lánstraust hf. (LT) lýtur að því að mega telja vinnslu heimila á grundvelli samþykki hins skráða, enda þótt engin samþykkisyfirlýsing sé til. Vill LT líta svo á það jafngildi samþykki að fyrirtæki, sem er í áskrift að upplýsingakerfum félagsins, hafi einhliða breytt stöðluðum skilmálum í samningum sínum við viðskiptavin/hinn skráða og gert honum aðvart um það.

Hugtakið samþykki er skilgreint í 7. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Það er skilgreint sem :,,Sérstök, ótvíræð yfirlýsing sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv."

Samþykkishugtakið á sér fyrirmynd í 2. gr. tilskipunar nr. 95/46/ESB, en þar er talað um óþvingaða, sértæka og upplýsta viljayfirlýsingu skráðs aðila um að hann samþykki vinnslu persónuupplýsinga er varða hann sjálfan. Hér á landi getur vinnsla almennra persónuupplýsinga talist heimil enda þótt hún styðjist ekki við yfirlýst samþykki ef öðrum skilyrðum er fullnægt.

Auk þess sem vinnsla þarf að eiga sér stoð í heimildarákvæðum 8. gr., og eftir atvikum 9. gr., laga nr. 77/2000 þarf hún að samrýmast ákvæðum 7. gr. laganna. Haga skal meðferð persónuupplýsinga með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti, afla þeirra í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi. Ekki skal ganga lengra í vinnslu persónuupplýsinga en nauðsyn krefur.

Stjórn Persónuverndar ræddi mál þetta á fundi sínum þann 15. september sl. Ekki er fallist á að annar aðili samningssambands geti breytt samningnum einhliða með framangreindum hætti um vinnslu persónuupplýsinga. Í ljósi framangreinds og meginreglna 7. gr., þ. á m. um sanngjarna vinnslu, og þess að taka ber tillit til þess hve umrædd vinnsla getur verið afdrifarík og íþyngjandi fyrir hinn skráða, var erindi LT hafnað.




Var efnið hjálplegt? Nei