Aðgangur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að rannsóknaniðurstöðum á Landspítala Háskólasjúkrahúsi

Hinn 19. febrúar sl. fjallaði stjórn Persónuverndar um fyrirhugaðan rafrænan aðgang Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) að rannsóknarniðurstöðum innan Landspítala Háskólasjúkrahúss (LSH).

Hinn 19. febrúar sl. fjallaði stjórn Persónuverndar um fyrirhugaðan rafrænan aðgang Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) að rannsóknarniðurstöðum innan Landspítala Háskólasjúkrahúss (LSH).

Persónuvernd taldi málið lúta að lögmæti þess að heilsufarsupplýsingar sem til verða á einni heilbrigðisstofnun verði aðgengilegar á annarri heilbrigðisstofnun. Ef engar takmarkanir eru settar við slíkum aðgangi yrði um leið talið heimilt að koma á heildstæðri rafrænni sjúkraskrá fyrir landið allt með samtengingum milli heilbrigðisstofnana. Slík vekur upp ýmis álitamál og til þess þarf mjög skýra lagaheimild sem ekki er fyrir hendi í gildandi löggjöf.

Í samræmi við þetta taldi Persónuvernd að ákvæði laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga bæri að túlka svo að rafrænar sjúkraskrár mættu ekki vera aðgengilegar sjálfvirkt og fyrirvaralaust utan þeirrar heilbrigðisstofnunar eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns þar sem þær væru færðar.

Hins vegar var þetta ekki talið útiloka að tilgreindum starfsmönnum utan heilbrigðisstofnunar eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns yrði veittur aðgangur að rafrænni sjúkraskrá sem bundinn væri við einstök tilvik eða einstaka sjúklinga. Slíkur aðgangur yrði að byggjast á sérstökum rökum og yfir vafa hafið að aðgangurinn væri viðkomandi starfsmönnum nauðsynlegur vegna starfa þeirra. Í ljósi þessa var talið heimilt að veita starfsmönnum HH aðgang að upplýsingum í skrá LSH yfir rannsóknasvör, enda væri þess gætt að aðgangurinn afmarkaðist við þá starfsmenn sem nauðsynlega þyrftu á slíkum aðgangi að halda vegna starfa sinna og væri ekki víðtækari en nauðsyn krefði í ljósi þeirra starfa.

Þá kom fram að rannsóknarsvör HH ætti einungis að varðveita í rafrænu sjúkraskrárkerfi LSH ef slíkt tryggði öryggi upplýsinganna betur en að varðveita þær hjá heilsugæslunni sjálfri. Ef sú yrði raunin yrði að gæta að því að starfsmenn LSH fengju ekki sjálfvirkan og fyrirvaralausan aðgang að þeim heilsufarsupplýsingum sem HH ber ábyrgð á, en aðgangur að sjúkraskrám á almennt að afmarkast við starfsmenn þeirrar heilbrigðisstofnunar eða starfsstofu þar sem þær eru færðar.

Bréf Persónuverndar til Landspítala Háskólasjúkrahúss og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.



Var efnið hjálplegt? Nei