Bréf Persónuverndar til efnahags- og viðskiptanefndar vegna frumvarps til laga um breyting á lögum um vátryggingarsamninga

Bréf Persónuverndar til efnahags- og viðskiptanefndar um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga, að því er varðar upplýsingaöflun tryggingafélaga.

Efni: Frumvarp til laga um breyting á lögum um vátryggingarsamninga, 387. mál.

Vísað er fyrri samskipta vegna frumvarps til laga um breyting á lögum um vátryggingarsamninga. Það er er m.a. tilkomið vegna niðurstöðu Persónuverndar, dags. 16. ágúst 2005, um að í lögum sé ekki að finna skýra heimild fyrir vátryggingafélög til að afla heilsufarsupplýsinga um skyldmenni vátryggingartaka.

Persónuvernd hefur þegar skilað umsögn um framangreint frumvarp og er enn þeirrar skoðunar að út frá sjónarmiðum um friðhelgi einkalífs sé varhugavert að heimila aðilum utan heilbrigðiskerfisins umfangsmikla skráningu eða aðra meðferð heilsufarsupplýsinga án þess að til komi upplýst samþykki hlutaðeigandi einstaklinga. Persónuvernd gerir sér hins vegar grein fyrir því að einnig verður að líta til annarra sjónarmiða og að löggjafinn kunni að meta það svo að þau sjónarmið vegi þyngra.

Fari svo að löggjafinn ákveði að heimila umrædda upplýsingavinnslu er mikilvægt að ákvæði þar að lútandi beri skýrlega með sér vilja löggjafans. Persónuvernd hefur ávallt lýst sig reiðubúna til að leggja sitt af mörkum til þess og átti því frumkvæði að fundi hinn 28. febrúar sl. með fulltrúa Fjármálaeftirlitsins og fulltrúum Samtaka fjármálafyrirtækja. Á fundinum var sammælst um að gera eftirfarandi tillögu að orðalagi 1. gr. frumvarpsins:

„Á meðan félagið hefur ekki samþykkt að veita vátryggingu getur það óskað eftir upplýsingum sem hafa þýðingu fyrir mat þess á áhættunni. Í þeim tilgangi er félaginu heimilt að óska upplýsinga um sjúkdóma sem vátryggingartaki eða vátryggður, foreldri hans eða systkini eru haldin eða hafa verið haldin óháð því hvernig sjúkdómur hefur greinst. Slíkra upplýsinga skal aflað beint hjá vátryggingartaka, eða eftir atvikum vátryggðum, sem skal, eftir bestu vitund, veita rétt og tæmandi svör við spurningum félagsins. Sé upplýsinganna aflað frá öðrum en vátryggingartaka eða vátryggðum skal, áður en þeirra er aflað, liggja fyrir skriflegt upplýst samþykki þess sem aflað er upplýsinga um. Vátryggingartaki, og eftir atvikum vátryggður, skal að eigin frumkvæði veita upplýsingar um sérstök atvik sem hann veit, eða má vita, að hafa verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættu.

Félaginu er óheimilt, fyrir eða eftir gerð samnings um persónutryggingu, að óska eftir, afla með einhverjum öðrum hætti, taka við eða hagnýta sér upplýsingar sem fengnar eru úr niðurstöðu erfðarannsóknar á einstaklingi og geta gefið til kynna hættu á að hann þrói með sér eða fái tiltekinn sjúkdóm. Félaginu er einnig óheimilt að óska eftir rannsóknum sem teljast nauðsynlegar til þess að kostur sé á að fá slíkar upplýsingar.

Synji félagið að veita persónutryggingu skal það rökstyðja synjunina sé eftir því leitað."




Var efnið hjálplegt? Nei