Aðgengi vátryggingafélaga að lögskráningu sjómanna

Persónuvernd vísar til tölvubréfs yðar frá 11. október 2005. Þar er þess óskað að Persónuvernd athugi hvaða forsendur séu fyrir því að vátryggingafélög hafi aðgang að lögskráningu sjómanna því að þér kærið yður ekki um að þau hafi aðgang að upplýsingum um yður.


Af tilefni þessa erindis óskaði Persónuvernd, með tölvubréfi hinn 14. október 2005, skýringa Siglingastofnunar á því í hvaða tilgangi vátryggingafélög fengju þennan aðgang. A hjá Siglingastofnun svaraði með tölvubréfi hinn 18. október 2005. Þar segir:

"Almennt
Um þessi mál gilda lög nr. 43/1987, um lögskráningu sjómanna, og samnefnd reglugerð nr. 880/2001, með síðari breytingum.

Hlutverki lögskráningar má, samkvæmt almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 43/1987, skipta í fimm meginhluta:
1. Tryggja að þeir sem eru um borð hafi tilskilin starfsréttindi.
2. Siglingatími sjómanna sé skráður.
3. Tryggt sé að tryggingar sjómanna séu samkvæmt lögum og samningum.
4. Í lögskráningu felast sönnur á því hverjir voru á skipi ef það ferst.
5. Lögskráning felur í sér könnun gagna um haffæri skips.

Aðgangur að lögskráningarkerfi sjómanna
Skilyrði þess að fá lesaðgang að lögskráningarkerfi sjómanna, er að viðkomandi greiði fyrir hann kr. 15.500.-, í samræmi við þjónustugjaldskrá Siglingastofnunar Íslands nr. 1/2005, sem aðgengileg er á heimasíðu stofnunarinnar, sigling.is.


Ástæða þess að aðgangurinn að kerfinu er jafn almennur og raun er á, er sú að í almennum aðgangi að skipaskránni er talið felast mikið aðhald fyrir útgerðarmenn, um að þeir sinni skyldum sínum skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 43/1987. Miklir hagsmunir eru fyrir skipverja að rétt sé staðið að skráningu þeirra í skipsrúm, t.d. ef þeir lenda í slysi, og sanna þarf að þeir hafi verið við vinnu á skipinu. Auk þess er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir sjómannastéttina í heild sinni, að geta gengið úr skugga um að þeir sem skráðir eru á skip hafi tilskilin réttindi til starfans. M.a. af þeirri ástæðu er í 15. gr. laga nr. 43/1987 sérstaklega mælt fyrir um skyldu lögskráningarstjóra til þess að veita stéttarsamtökum sjómanna aðgang að gögnum er varða lögskráningar, sé þess óskað. Því má segja að lögskráning fari að nokkru leyti fram fyrir opnum tjöldum, til þess að tryggja að skilmerkilega sé staðið að lögskráningu, bæði af hendi útgerðarmanns sem og lögskráningarstjóra.


Aðgangur tryggingafélaga að lögskráningarkerfi sjómanna
Samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga um lögskráningu sjómanna er yfirlýsing frá tryggingarfélagi um líf- og slysatryggingu skipverja eitt af því sem framvísa skal hjá lögskráningarstjóra við lögskráningu, en útgerðarmanni er skylt að kaupa slíkar tryggingar skv. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Áhafnatryggingar skipa eru yfirleitt hóptryggingar, þ.e. þær eru gefnar út fyrir ákveðin fjölda manna á hverju skipi. Tryggingafélag hefur því hagsmuni af því að geta fullvissað sig um að ekki séu fleiri skráðir á skipið heldur en eru tryggðir, enda þótt það sé hlutverk lögskráningarstjóra að ganga úr skugga um slíkt gerist ekki. Einnig geta verið hagsmunir bundnir því fyrir félag að geta skoðað t.d. aldursdreifingu sjómanna á minni skipum, meðalstarfstíma sjómanna á vissu atvinnusvæði og fleira í þeim dúr.


Að öðru leyti, m.a. í samræmi við það að öllum er frjálst að kaupa sér lesaðgang að lögskráningarkerfi sjómanna, vísar Siglingastofnun til tryggingafélaganna um ástæður þess að þau telja sig hafa hagsmuni af því að hafa aðgang að skránni."

Persónuvernd hefur farið yfir framangreindar skýringar. Af þeim má ætla að lagalegar forsendur fyrir því að vátryggingafélög hafi aðgang að lögskráningu sjómanna geti einkum verið að finna í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar er kveðið á um að vinnsla slíkra upplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar, sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna sinna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða, sem vernda ber samkvæmt lögum, vegi þyngra.


Tekið skal fram að þó svo að aðgangur vátryggingafélaga að umræddum upplýsingum geti verið heimill eru takmörk fyrir því í hvaða tilgangi upplýsingarnar má nota. Vísast um það til 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 þar sem grundvallarreglur um hvernig vinna má með persónuupplýsingar er að finna. Er þar m.a. kveðið á um að við vinnslu slíkra upplýsinga skuli þess gætt að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); og að þær séu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.).



Var efnið hjálplegt? Nei