Eyðing gagna sem varða áminningu opinbers starfsmanns

1. Afhending frumrits
Í 18. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga (pul) er kveðið á um upplýsingarétt hins skráða. Samkvæmt því ákvæði á hinn skráði rétt á að fá frá ábyrgðaraðila (hér sveitarfélaginu) vitneskju um hvaða upplýsingar um hann er eða hefur verið unnið með, tilgang vinnslunnar, hver fær, hefur fengið eða mun fá upplýsingar um hann, hvaðan upplýsingarnar koma og hvaða öryggisráðstafanir eru viðhafðar við vinnslu, enda skerði það ekki öryggi vinnslunnar. Ákvæðið kveður því ekki á um það hvort viðkomandi á rétt á því að fá frumritið sjálft í hendur, en hann á alltént rétt á vitneskju um efni þess.


Auk þess er rétt að benda á ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um upplýsingarétt aðila máls. Ákvörðun stjórnvalds um að beita opinberan starfsmann stjórnsýsluviðurlögum, s.s. áminningu, telst vera stjórnvaldsákvörðun. Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga á starfsmaðurinn því rétt á að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varða. Fari hann fram á að fá afrit eða ljósrit af málsskjölum skal orðið við þeirri beiðni nema skjölin séu þess eðlis eða fjöldi þeirra svo mikill að það sé verulegum vandkvæðum bundið.


2. Eyðing gagna
Í 25. gr. pul. er kveðið á um að rangar, villandi og ófullkomnar persónuupplýsingarnar sem og persónuupplýsingar sem eru skráðar án tilskilinnar heimildar beri að leiðrétta , eyða eða auka við ef umræddur annmarki getur haft áhrif á hagsmuni þess sem skráður er. Ef eyðing eða breyting slíkra upplýsinga er óheimil samkvæmt ákvæðum annarra laga getur Persónuvernd bannað notkun þeirra.


Í 26. gr. laganna er kveðið á um eyðingu og bann við notkun persónuupplýsinga sem hvorki eru rangar né villandi, þ.e. upplýsingar sem falla ekki undir 25. gr. Þar segir að þegar ekki sé lengur málefnaleg ástæða til að varðveita persónuupplýsingar skuli eyða þeim. Málefnaleg ástæðu til varðveislu upplýsinga getur m.a. byggst á fyrirmælum í lögum eða á því að enn sé unnið með upplýsingarnar í samræmi við upphaflegan tilgang með söfnun þeirra. Ef ákvæði annarra laga standa því ekki í vegi getur skráður aðili engu að síður krafist þess að upplýsingum um hann sé eytt og notkun þeirra bönnuð ef slíkt telst réttlætanlegt út frá heildstæðu hagsmunamati. Við slíkt hagsmunamat er tekið tillit til hagsmuna annarra, almennra persónuverndarhagsmuna og þeirra aðgerða sem þörf er á til að verða við kröfunni. Persónuvernd getur bannað notkun upplýsinganna eða mælt fyrir um eyðingu þeirra.



Var efnið hjálplegt? Nei