Fyrirspurn um hvort kröfum tilskipunar 2002/58/EB sé fullnægt

Persónuvernd vísar til fyrirspurnar yðar frá 11. apríl 2005 varðandi mál þar sem höfundaréttarsamtök hafa komist að því hverjir hafa fjölfaldað efni á Netinu á þann hátt að þau telja brotið gegn lögum. Mun þetta hafa verið gert með sérstökum rannsóknaraðferðum "á borð við (gagna)hleranir og söfnun persónuupplýsinga, aðallega upplýsinga um fjarskipti einstaklinga, í því skyni að nota þær fyrir dómstólum", eins og segir í tölvupósti yðar. Er í tengslum við þetta spurt hvort íslensk lög fullnægi skilyrðum tilskipunar 2002/58/EB um einkalífsvernd í fjarskiptum, einkum kröfum 21. gr. þar sem kveðið er á um þá skyldu aðildarríkjanna að koma í veg fyrir óleyfilegt aðgengi að fjarskiptasendingum. Það ákvæði hefur verið innleitt með 47. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti þar sem segir:

"Fjarskiptafyrirtæki sem veita almenna fjarskiptaþjónustu skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja öryggi þjónustunnar í samráði við rekstraraðila fjarskiptaneta ef við á. Ef sérstök hætta er á að leynd fjarskipta á tilteknu neti verði rofin skal þjónustuveitandinn upplýsa áskrifendur um hættuna.


Öllum sem starfa við fjarskiptavirki, hvort sem um er að ræða starfsmenn fjarskiptafyrirtækja eða aðra, er skylt, bæði meðan þeir gegna starfi og eftir að þeir hafa látið af því, að halda leyndu fyrir óviðkomandi aðilum öllu því sem um fjarskiptavirkin fer, hvort sem um er að ræða efni skeyta eða samtala eða hvort fjarskipti hafa átt sér stað og á milli hverra.


Ekki má án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti, önnur skjöl eða annála um sendingar sem um fjarskiptavirkin fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Um aðgang lögreglu að upplýsingum um fjarskipti skal fara samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.


Enginn sem starfar við fjarskiptavirki, net eða þjónustu má skjóta undan skeytum, gögnum, myndum eða öðrum merkjum sem afhent eru til fjarskiptaflutnings eða liðsinna öðrum við þess konar athæfi.


Sá sem fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar tekur við símskeytum, myndum eða öðrum fjarskiptamerkjum og táknum eða hlustar á símtöl má ekki skrá neitt slíkt hjá sér eða notfæra sér það á nokkurn hátt. Jafnframt ber honum að tilkynna sendanda að upplýsingar hafi ranglega borist sér. Skylt er að gæta fyllsta trúnaðar í slíkum tilfellum."

Ljóst er að í tengslum við það mál, sem nefnt er í tölvupósti yðar, reynir á álitaefni tengd þessum ákvæðum. Þess má og geta að einnig reynir á hvort heimild hafi verið til vinnslu persónuupplýsinga í lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Öll vinnsla slíkra upplýsinga þarf að fullnægja einhverju þeirra skilyrða sem kveðið er á um í 8. gr. laganna. Sé um að ræða vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga þarf einnig að vera fullnægt einhverju þeirra skilyrða sem kveðið er á um í 9. gr. laganna. Upplýsingar um að maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað eru viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna.


Auk þess sem heimild þarf að vera til vinnslu persónuupplýsinga í 8. og, eftir atvikum, 9. gr. laga nr. 77/2000 verður kröfum 1. mgr. 7. gr. laganna um hvernig vinna má með persónuupplýsingar ávallt að vera fullnægt. Þessar kröfur lúta meðal annars að því að við vinnslu persónuupplýsinga sé gætt sanngirni, sbr. 1. tölul. ákvæðisins; meðalhófs, sbr. m.a. 1., 2. og 3. tölul.; og þess að tilgangur vinnslunnar sé yfirlýstur og skýr, sbr. 2. tölul. Einn þáttur í sanngirni vinnslu er að hún fari ekki fram með leynd og er því að öllu jöfnu óheimilt að vinna með persónuupplýsingar á þann hátt að upplýsingum um m.a. tilgang vinnslunnar sé haldið frá þeim sem hún lýtur að.


Annað, sem hér verður að líta til, er ákvæði laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Samkvæmt 87. gr. þeirra þarf dómsúrskurð svo að lögreglu sé, í þágu rannsóknar, heimilt að grípa til m.a. eftirfarandi aðgerða, sem taldar eru upp í a–c-lið 86. gr. laganna: (a) að leggja fyrir síma- eða fjarskiptafyrirtæki að leyfa að hlustað sé á eða tekin séu upp símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki eða að öðrum kosti síma eða fjarskiptatæki í eigu eða umráðum tilgreinds manns; (b) að fá upplýsingar hjá síma- eða fjarskiptafyrirtækjum um símtöl eða fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki; og (c) að taka upp samtöl eða nema annars konar hljóð eða merki með því að nota til þess sérstaka hljóðupptökutækni eða sambærilega tækni án þess að þeir sem í hlut eiga viti af því.


Frá reglunni um dómsúrskurð er aðeins ein undantekning, þ.e. að upplýsingar um símtöl eða fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptafyritæki má fá án slíks úrskurðar sé fengið til þess samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda símans eða fjarskiptatækisins.


Í ljósi alls ofangreinds má telja líklegt að íslensk lög veiti fjarskiptum slíka vernd að skilyrðum tilskipunar 2002/58/EB, sé fullnægt, a.m.k. kröfum þess ákvæðis sem tilgreint er í fyrirspurn yðar, þ.e. 21. gr.



Var efnið hjálplegt? Nei