Réttur foreldra til vitneskju um símnotkun barna sinna

Persónuvernd veitti fjarskipafyrirtæki leiðbeinandi svar um rétt foreldra til vitneskju um símnotkun barna sinna, þ.e. barna sem nota Frelsi en eru þó skráðir notendur tiltekins númers. Persónuvernd vísaði til inntaks forsjár og að í henni felst m.a. sú skylda að vernda barn gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Einnig var vísað til þess að almennt fara foreldrar með upplýsingarétt barna sinna og meginreglan er sú að þeir geta fengið slíkar upplýsingar. 


Efni: Upplýsingar um símnotkun barna, leiðbeinandi svar


I.
Fyrirspurn A
Þann 6. febrúar 2012 barst Persónuvernd fyrirspurn A um rétt foreldra til vitneskju um símnotkun barna sinna – þegar barnið er „skráður hvorutveggja notandi og greiðandi.“

Með bréfi, dags. 30. apríl 2012, spurði Persónuvernd hvort gerðir væru áskriftarsamningar við börn, en hún taldi það vera forsendu þess að barn gæti verið skráð sem notandi og greiðandi. Í svarbréfi A, dags. 1. október 2012, er útskýrt að börn geti keypt fyrirframgreidda farsímaþjónustu (Frelsi) en verið skráð sem notendur tiltekins símanúmers. Í bréfinu segir m.a.:

„Í fyrsta lagi skal tekið fram að ólögráða einstaklingar geta ekki greitt fyrir notkun á farsíma með áskriftarsamningi, nema fyrir liggi sérstök heimild frá forráðamanni. Er það í samræmi við ákvæði 76. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 og starfsreglur A. Ólögráða einstaklingar geta hins vegar keypt fyrirframgreidda farsímaþjónustu og geta þá verið skráðir sem rétthafar tiltekins símanúmers. Í sumum tilvikum eru þó foreldrar eða forráðamenn ólögráða einstaklinga skráðir rétthafar og þá er hinn ólögráða einstaklingur skráður sem notandi þjónustunnar. Að mati A er slík sala á fyrirframgreiddri farsímaþjónustu og skráning rétthafa símanúmers heimil með vísan til 75. og 76. gr. lögræðislaga.  [...] Sérstakir skilmálar gilda um frelsi. Samkvæmt þeim þarf að kaupa áfyllingu á 3 mánaða fresti til að halda símanúmeri opnu fyrir úthringingar. [...] A geymir upplýsingar sem safnast um viðskipti viðskiptavinar, s.s. með samskiptum við þjónustuver og einnig upplýsingar í tengslum við notkun viðskiptavinar á fjarskiptaþjónustu A, t.d. vörukaup og áfyllingarsögu, tímasetningar og lengd símtala auk kerfisupplýsinga sem tengjast viðskiptavini, s.s. tæknilegar merkjasendingar og bilanir eða kerfisatvik. [...] Rétt er að taka fram að af frelsisnotendum A, þá eru um 10% þeirra undir 18 ára aldri. Af þeim er um helmingur á aldrinum 16-18 ára. [...]

Eins og áður er rakið þá safnast ýmsar upplýsingar um símnotkun rétthafa símanúmers hjá A og getur viðkomandi fengið aðgang að slíkum upplýsingum. Í sumum tilvikum er um persónuupplýsingar að ræða, s.s. sundurliðun símnotkunar þar sem fram koma upplýsingar um símanúmer þeirra sem viðskiptavinur á samskipti við.

Kveikjan að upphaflegri fyrirspurn A til Persónuverndar var sú hversu vandmeðfarnar persónuupplýsingar um börn eða unglinga kunna að vera og hvort foreldrar eða forráðamenn kunni skilyrðislaust að hafa aðgang að þessum upplýsingum. Hér þarf ekki aðeins að líta til ákvæða laga um meðferð persónuupplýsinga heldur einnig laga og alþjóðasáttmála sem fjalla um réttindi barna og ungmenna, s.s. samninga Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins þar sem meðal annars er vikið að friðhelgi einkalífs barna. Ætla má að í flestum tilvikum séu foreldrar og forráðamenn með hagsmuni barna sinna að leiðarljósi þegar þeir óska upplýsinga um símnotkun barna sinna. Þó geta komið upp tilvik þar sem sú regla vegist á við friðhelgi einkalífs barna sem gildir gagnvart öllum, einnig foreldrum eða forráðamönnum viðkomandi. A telur rétt að gæta samræmis í framkvæmd sinni hvað þetta snertir og leitaði því liðsinnis Persónuverndar í þeim efnum. Hugmyndir A snúa að því að kveða á um þetta í starfsreglum og jafnvel skilmálum þannig að notendum, forráðamönnum og starfsfólki sé ljóst hvaða reglur gilda þegar foreldrar eða forráðamenn barna óska eftir upplýsingum um símnotkun þeirra. [...]“


Með bréfi, dags. 10. apríl 2012, óskaði Persónuvernd svars Póst- og fjarskiptastofnunar um það hvort til væru sérreglur á sviði fjarskiptaréttar um tilvik þegar notendur fjarskiptaþjónustu eru börn. Í svarbréfi Póst- og fjarskiptastofnunar, dags. 18. apríl 2012, segir að svo sé ekki.

II.
Svar Persónuverndar
Þegar notuð eru fyrirfram greidd farsímakort ræður notandi því hvort hann skráir sig hjá viðkomandi fjarskiptafyrirtæki eða ekki. Hafi það verið gert geta legið fyrir persónuupplýsingar hjá viðkomandi fjarskiptafyrirtæki um notandann. Spurning A er sú hvort forsjáraðilar þeirra barna, sem nota slíka farsímaþjónustu, geti farið með upplýsingaréttinn og fengið vitneskju um þessar persónuupplýsingar.

Í 38. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 er sérregla um upplýsingarétt að því er fjarskiptaupplýsingar varðar. Hann nær til þess að fá fjarskiptanotkun sundurliðaða. Ákvæðið nær samkvæmt orðalagi sínu aðeins til áskrifenda tal- og farsímaþjónustu en hafa ber í huga að verndarákvæði fjarskiptalaga eiga sér fyrirmynd í persónuverndartilskipun nr. 2002/58/EB (Tilskipun um vinnslu persónuupplýsinga og um verndun einkalífs á sviði rafrænna fjarskipta), sbr. tilskipun nr. 2009/136/EB, sem m.a. er ætlað að vernda grundvallarréttindi einstaklinga, einkum rétt þeirra til friðhelgi einkalífsins. Upplýsingaréttur er þáttur í honum og skýra ber ákvæðin í því ljósi. Að öðrum kosti ná þau ekki því markmiði sínu að þjóna persónuverndarhagsmunum einstaklinga sem nota almenna fjarskiptaþjónustu – þ.e. notenda, eins og það hugtak er skýrt í 25. tölul. 3. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003.

Þegar sérákvæðum fjarskiptalaga sleppir taka við hin almennu ákvæði laga nr. 77/2000. Samkvæmt 18. gr. þeirra á hinn skráði rétt á að vita hvaða upplýsingar um hann er unnið með. Þeir sem eru sjálfráða fara sjálfir með þennan rétt.

Menn verða sjálfráða við 18 ára aldur, sbr. 1. tölul. 1. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, en fram að því eiga þeir að njóta forsjár. Í 28. gr. grein barnalaga nr. 76/2003 er fjallað um inntak hennar. Í henni felst m.a. sú skylda að vernda barn gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Forsjáraðili fer einnig með lögformlegt fyrirsvar barns, þ. á m. að því er varðar beitingu upplýsingaréttar.

Ávallt þarf þó að líta til aldurs barns og þroska og meta hvenær það getur einnig farið sjálft með upplýsingarétt sinn. Í 6. mgr. 28. gr. barnalaga segir að foreldrum beri að hafa samráð við barnið áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski þess gefur tilefni til. Skuli afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem það eldist og þroskist. Í þessu felst m.a. að hinn skráði getur almennt einnig farið með upplýsingarétt sinn hafi hann þroska til þess.

Þegar á framangreint reynir er ávallt nauðsynlegt (a) að sá sem fer með forsjá, og æskir vitneskju á grundvelli ákvæða um upplýsingarétt, sanni á sér deili og sýni fram á að hann sé í raun forsjáraðili skráðs notanda fjarskiptaþjónustu og (b) að í ákveðnum tilvikum kunna ólögráða engu að síður að fara alfarið með upplýsingaréttinn ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Um það má vísa til þess sem segir í hjálögðu áliti svonefnds 29. gr. starfshóps nr. 2/2009, bls. 10-11. Ábyrgð á því að þessa sé gætt hvílir á viðkomandi fjarskiptafyrirtæki sem ábyrgðaraðila vinnslu persónuupplýsinga.

Tekið er fram að svar þetta, sem veitt er í samræmi við 5. tölulið 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000, er leiðbeinandi, og hefur ekki að geyma bindandi efnislega úrlausn. Svarið verður birt á vefsíðu Persónuverndar.


Leiðbeinandi svar Persónuverndar í máli nr. 2012/197.



Var efnið hjálplegt? Nei