Ýmis bréf

Miðlun Þjóðskrár Íslands á upplýsingum um látna menn

15.6.2011

Persónuvernd gerir ekki athugasemd við leit að upplýsingum hjá Þjóðskrá um látna einstaklinga, nánar tiltekið um fæðingardag, dánardag og fæðingarstað, í þágu heimasíðu í minningu látinna manna.

Efni: Aðgangur að upplýsingum um látna einstaklinga hjá Þjóðskrá

I.
Fyrirspurn yðar

Persónuvernd vísar til fyrri samskipta varðandi fyrirhugaða vinnslu yðar á upplýsingum um látna einstaklinga, þ. á m. fundar hinn 21. febrúar 2011. Nú hefur borist bréf frá yður þar sem vinnslunni er lýst svo:

„Í stuttu máli hyggjumst við setja upp vefsíðu sem mun annast minningu látinna Íslendinga. Gert er ráð fyrir að gögn séu skráð inn í kerfið með eftirfarandi hætti:

Almenn skráning byggð á opinberum upplýsingum frá Þjóðskrá, sbr. fæðingardagur, dánardagur og fæðingarstaður. Ef leitað er að einstaklingi, þá koma einungis fram fyrrgreindar grunnupplýsingar sem eru þær sömu og liggja til grundvallar hjá Íslendingabók. Gerum ráð fyrir að stofna einnig minningarbók þar sem vinir og ættingjar geta skrifað minningargreinar en verður háð okkar ritstjórn og samþykki.


Lögráða einstaklingur í lifanda lífi getur fengið sér heimasíðutilkynningu sem verður virk að honum látnum með sérstökum samningi þess eðlis. Um er að ræða forsíðu með mynd, CV, ættartré, myndir og almennar upplýsingar.
Með sérstökum samningi geta ættingjar látins einstaklings óskað eftir heimasíðukynningu með sama hætti nefnt er í öðrum tölulið.“

Í framhaldi af þessu segir í bréfinu:

„Óskum við eftir staðfestingu frá Persónuvernd um hvort við megum móttaka með sama hætti og Íslendingabók, almennar upplýsingar um látna einstaklinga frá Þjóðskrá. Með þeim hætti náum við að halda til haga almennum upplýsingum um látna íslendinga og tryggja örugga og rétta skráningu þeirra aðila sem hafa óskað eftir sérstakri kynningu.“

I.
Svar Persónuverndar
1.

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar, en eins og fyrr greinir gilda lög nr. 77/2000 m.a. um upplýsingar um látna.

2.
Svo að vinna megi með persónuupplýsingar þarf að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000. Þar er m.a. mælt fyrir um að vinna megi með slíkar upplýsingar sé það nauðsynlegt til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.

Með stoð í framangreindu ákvæði hefur Persónuvernd talið heimilt að vinna með svonefndar almennar lýðskrárupplýsingar í þágu ættfræðirannsókna, útgáfu æviskrárrita og öðrum sambærilegum tilgangi.

Af erindi yðar verður ráðið að fyrirhuguð öflun upplýsinga um látna, auk skráningar á fæðingardegi, dánardegi og fæðingarstað, falli undir umrætt ákvæði. Þá má ætla að birting upplýsinga í minningargreinum, sem nákomnir rita, eigi stoð í sama ákvæði. Auk þess reynir þar á ákvæði 5. gr. laga nr. 77/2000 sem mælir fyrir um að lögin skuli túlkuð á þann hátt að sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsi hins vegar samrýmist. Loks liggur fyrir að í ákveðnum tilvikum eru það hinir skráðu sjálfir sem ákveða, fyrir andlát sitt, að birta upplýsingar á umræddri síðu.

Mál þetta var rætt á fundi stjórnar Persónuverndar í dag. Komst hún að þeirri niðurstöðu að með vísan til alls framangreinds væri ekki ástæða til athugasemda við að leitað væri upplýsinga hjá Þjóðskrá um látna einstaklinga, nánar tiltekið um fæðingardag, dánardag og fæðingarstað, í þágu umræddrar heimasíðu.Var efnið hjálplegt? Nei