Umsagnir

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál

Mál nr. 2022010245

14.2.2022

Persónuvernd vísar til beiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 25. janúar 2022 um umsögn um tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál (þskj. 20, 20. mál á 152. löggjafarþingi). 

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að innanríkisráðherra verði falið að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda.

Persónuvernd gerir athugasemdir við eftirfarandi atriði: 

1.

Persónuvernd áréttar mikilvægi þess að frá upphafi verði hugað að kröfum laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, verði framangreindum starfshópi komið á fót. 

Af tillögunni má ráða að verið sé að leggja til umfangsmikla vinnslu persónuupplýsinga sem í mörgum tilvikum geta talist mjög viðkvæmar eða viðkvæms eðlis, auk þess sem þær geta varðað börn. Í því sambandi skal tekið fram að persónuupplýsingar barna njóta sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2018 og reglugerðar (ESB) 2016/679.

Því er nauðsynlegt að tryggt verði að hverjar þær breytingar sem kunna að vera gerðar á lögum og/eða reglugerðum fullnægi kröfum laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerðar (ESB) 2016/679. Meðal annars er vakin athygli á eftirfarandi þáttum:

  • Að tryggt verði að heimildir til vinnslu persónuupplýsinga, almennra persónuupplýsinga jafnt sem viðkvæmra, séu skýrar og afmarkist við þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru.
  • Að tryggt verði að farið sé að meginreglum laga nr. 90/2018, m.a. hvað varðar að persónuupplýsingar séu unnar með sanngjörnum og gagnsæjum hætti gagnvart hinum skráða, að þær séu fengnar í skýrt tilgreindum tilgangi og ekki unnar í öðrum ósamrýmanlegum tilgangi, að þær séu ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar og að viðunandi öryggi upplýsinganna sé tryggt.
  • Að metið verði hvort þörf sé á að gera mat á áhrifum á persónuvernd, sbr. 29. gr. laga nr. 90/2018 og 35. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, að teknu tilliti til umfangs og eðlis þeirrar vinnslu sem um ræðir.
  • Að tryggt verði að öryggi við vinnslu persónuupplýsinga verði með fullnægjandi hætti og að öllu leyti í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í lögum nr. 90/2018 og reglugerð (ESB) 2016/679, ekki síst ef um verður að ræða vinnslu í rafrænum upplýsingakerfum eða öðrum stafrænum lausnum. Þá er nauðsynlegt að öryggið sé tryggt frá fyrsta degi, þ.e. frá gildistöku laganna.

_______

Vakin er athygli á því hlutverki Persónuverndar að veita Alþingi, stjórnvöldum og öðrum aðilum ráðgjöf á sviði lagasetningar og stjórnsýslu sem tengist vernd einstaklinga við vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 2. tölul. 4. mgr. 39. gr. laga nr. 90/2018. Með vísan til þess bendir Persónuvernd á að stofnunin mun fúslega veita slíka ráðgjöf til starfshópsins verði hennar óskað.

Ekki eru að öðru leyti gerðar athugasemdir við efni þingsályktunartillögunnar að svo stöddu. Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.

F.h. Persónuverndar,

Helga Sigríður Þórhallsdóttir             Steinunn Birna Magnúsdóttir



Var efnið hjálplegt? Nei