Umsagnir

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020-2030

Mál nr. 2020112902

30.11.2020

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020-2030

Persónuvernd vísar til beiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 19. nóvember 2020 um umsögn um tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020-2030 (þskj. 310, 278. mál á 151. löggjafarþingi).

Með tillögunni er ályktað að unnið skuli að því að efla menntun landsmanna til ársins 2030 í samræmi við framlagða menntastefnu.

Í C-lið II. hluta menntastefnunnar er fjallað um hæfni fyrir framtíðina og segir þar í 7. lið að leggja skuli áherslu á stafræna tilveru. Þá segir um lið C7 í greinargerð með þingsályktunartillögunni að nemendur skuli skilja bæði tækifæri og áskoranir stafrænnar tilveru og fá þjálfun í upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi. Samhliða hagnýtingu stafrænnar tækni skuli nemendur fá tækifæri til að auka þekkingu sína á persónuvernd og meðferð og greiningu upplýsinga. Jafnframt segir að hugað verði að notkun nemenda á samfélagsmiðlum og þeim kennd ábyrg nethegðun og helstu reglur um örugg stafræn samskipti.

Persónuvernd fagnar því að í framlagðri menntastefnu til næstu 10 ára sé lögð áhersla á að nemendum sé veitt tækifæri til auka þekkingu sína á persónuvernd og meðferð og greiningu upplýsinga.

Persónuvernd og friðhelgi einkalífs eru ein mikilvægustu mannréttindi sem til eru. Á tímum stafræns veruleika þar sem persónuupplýsingar eru orðnar einn helsti gjaldmiðill samfélagsins eykst nauðsyn þess að allir, ekki síst börn og ungmenni, fái fræðslu um og þekki helstu grundvallarréttindi sín og skyldur. Þess skal getið að í evrópsku persónuverndarreglugerðinni (ESB) 679/2016 er persónuupplýsingum barna veitt sérstök vernd þar sem þau kunna að vera síður meðvituð um áhættu, afleiðingar og réttindi sín í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga. Í samræmi við það hefur verið lögð sérstök áhersla á að standa vörð um málefni barna hjá Persónuvernd og mikilvægur liður í því starfi er að vekja börnin og ungmennin sjálf til vitundar um réttindi sín.

Það er mat Persónuverndar að mikilvægt sé að koma grunnfræðslu um persónuvernd til allra barna undir 18 ára aldri. Í því skyni hefur Persónuvernd meðal annars sent fræðsluefni í alla grunnskóla landsins og fyrirhugað er að senda frekara efni út á næstu misserum.

Þá vekur Persónuvernd athygli á að sent var erindi til mennta- og menningarmálaráðherra í júní sl. þar sem óskað var eftir samtali um hvernig unnt sé að stuðla að grunnfræðslu í skólum til allra barna um persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

_____________________

Ekki eru gerðar aðrar athugasemdir við efni þingsályktunartillögunnar. Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.

F.h. Persónuverndar,

Helga Sigríður Þórhallsdóttir                        Steinunn Birna MagnúsdóttirVar efnið hjálplegt? Nei