Umsagnir

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun regluverks um starfsemi fjárhagsupplýsingastofa

Mál nr. 2021020506

8.3.2021

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun regluverks um starfsemi fjárhagsupplýsingastofa

Persónuvernd vísar til beiðni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis frá 24. febrúar 2021 um umsögn um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun regluverks um starfsemi fjárhagsupplýsingastofa (þskj. 164, 163. mál á 151. löggjafarþingi).

Er þar lagt til að Alþingi álykti að fela dómsmálaráðherra að skipa starfshóp sem taki til endurskoðunar lög og reglur sem gilda um starfrækslu fjárhagsupplýsingastofa og vinnslu upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila í því skyni að miðla þeim til annarra. Starfshópurinn leggi sérstaka áherslu á réttarstöðu neytenda á fjármálamarkaði hvað varðar vinnslu slíkra upplýsinga og geri tillögur um úrbætur til að bæta stöðu neytenda á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn hafi meðal annars samráð við Persónuvernd.

Persónuvernd bendir á að samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga er starfræksla fjárhagsupplýsingastofa og vinnsla upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila, þ.m.t. vanskilaskráning og gerð lánshæfismats, í því skyni að miðla þeim til annarra, bundin leyfi stofnunarinnar. Við vinnslu persónuupplýsinga ber fjárhagsupplýsingastofu jafnframt að gæta að almennum kröfum laganna, sem lúta meðal annars að því að heimild standi til vinnslunnar, sbr. 9. gr. laganna, svo og meginreglum 1. mgr. 8. gr. laganna.

Að auki er í gildi reglugerð nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, sem mælir meðal annars fyrir um starfsleyfisskyldu vegna söfnunar og skráningu upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila, í því skyni að miðla þeim til annarra, sbr. 1. mgr. 2. gr. hennar. Í framkvæmd sinni hefur Persónuvernd bent á að starfsemi fjárhagsupplýsingastofa falli að miklu leyti undir umrætt ákvæði.

Í samræmi við framangreind ákvæði hefur Persónuvernd veitt einu fyrirtæki starfsleyfi til slíkrar starfsemi sem háð er ákveðnum skilmálum.

Persónuvernd bendir á að í athugasemdum við 15. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 90/2018 segir meðal annars:

Eðlilegt væri að setja sérstakar reglur eða frekari ákvæði um framkvæmd persónuverndarreglna í tengslum við gerð og öflun upplýsinga um lánshæfismat inn í [reglugerð nr. 246/2001] um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga. Þá er álitamál hvort rétt væri að setja sérstök lög um efnið í ljósi þessa mikla umfangs sem er á vinnslu persónuupplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust og margvíslegra áhrifa sem slík vinnsla hefur á stöðu einstaklinga, einkum gagnvart fjármálafyrirtækjum.

Að mati Persónuverndar samræmist efni þingsályktunartillögunnar tilvitnuðum athugasemdum í greinargerðinni. Tekur Persónuvernd jafnframt undir sjónarmið þess efnis að þörf sé á endurskoðun þeirra réttarreglna sem gilda um starfsemi fjárhagsupplýsingastofa og vinnslu upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila í því skyni að miðla þeim áfram. Persónuvernd áréttar þó mikilvægi þess að við slíka endurskoðun verði í hvívetna hugað að rétti einstaklinga til persónuverndar og friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Persónuvernd lýsir sig enn fremur reiðubúna til frekara samráðs vegna málsins verði tillagan samþykkt af Alþingi.

F.h. Persónuverndar,

Helga Þórisdóttir                               Vigdís Eva LíndalVar efnið hjálplegt? Nei