Umsagnir

Umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands

Mál nr. 2020112794

19.11.2020

Efni: Umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands

Persónuvernd vísar til tölvupósts stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, dags. 5. nóvember 2020, þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands (26. mál á 151. löggjafarþingi 2020-2021, þskj. 26).

Frumvarp til stjórnarskipunarlaga var lagt fram á 141. löggjafarþingi (415. mál) og veitti Persónuvernd umsögn sína um það frumvarp með bréfi, dags. 28. desember 2012. Í greinargerð með frumvarpi því sem nú er til umsagnar segir að fyrra frumvarpið hafi verið uppfært með þeim breytingartillögum sem fylgdu framhaldsnefndaráliti meirihluta þáverandi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sbr. þskj. 1111 á 141. löggjafarþingi.

Í umsögn um fyrra frumvarpið, dags. 28. desember 2012 (mál nr. 2012/1419), gerði Persónuvernd athugasemd við að ekki væri þar fjallað um réttinn til verndar persónuupplýsinga. Nú segir aftur á móti í 3. mgr. 15. gr. að allir eigi rétt til verndar eigin persónuupplýsinga og að nánar skuli mælt fyrir um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga með lögum. Telur Persónuvernd að með þessu hafi verið komið til móts við umrædda athugasemd stofnunarinnar með fullnægjandi hætti. Hins vegar bendir stofnunin á að í athugasemdum við 15. og 16. gr. í greinargerð með frumvarpinu er vísað til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, en Persónuvernd áréttar að ný lög sama efnis hafa öðlast gildi, þ.e. lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.

Persónuvernd gerir að öðru leyti ekki athugasemdir við frumvarpið.

F.h. Persónuverndar,

Helga Sigríður Þórhallsdóttir             Gunnar Ingi ÁgústssonVar efnið hjálplegt? Nei