Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa

Mál nr. 2022040747

27.4.2022

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis

Reykjavík, 27. apríl 2022
Tilvísun: 2022040747/VEL

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa

 

1.

Persónuvernd vísar til beiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 12. apríl 2022 um umsögn um frumvarp til laga um heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa (þskj. 841, 599. mál á 152. löggjafarþingi).

Í frumvarpinu er lagt til að Reykjavíkurborg verði veitt lagaheimild til að setja á fót nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa fyrir börn sem reknar voru af barnaverndarnefnd Reykjavíkur á síðustu öld. Tilefni lagasetningarinnar sé að kveða á um nauðsynlegar heimildir í lögum í því skyni að fyrirhuguð úttekt Reykjavíkurborgar með skipun nefndar til að fjalla um starfsemi tveggja vöggustofa geti náð fram að ganga. Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu er greint frá því að við samningu frumvarpsins hafi verið höfð hliðsjón af lögum nr. 26/2007 um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila sem sett voru árið 2007 og eru fallin úr gildi. Þá kemur fram í greinargerð að gert sé ráð fyrir að nefndin muni framkvæma mat á áhrifum á persónuvernd sem hluta af undirbúningi og skipulagningu könnunar þegar umfang gagnasöfnunar og aðferðir við vinnslu liggi fyrir.

2.

Í aðdraganda að upphafi vinnu við framangreint frumvarp átti Persónuvernd fund með forsætisráðuneyti og Reykjavíkurborg vegna vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við fyrirhugaða úttekt. Á fundinum mælti Persónuvernd með að aflað yrði sérstakrar lagaheimildar fyrir skipun Reykjavíkurborgar á nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa og fyrir vinnslu persónuupplýsinga hjá nefndinni í því skyni. Slíkt fyrirkomulag væri best til þess fallið að tryggja að fullnægjandi heimild samkvæmt lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð (ESB) 2016/679 væri til staðar.

Í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um vinnslu persónuupplýsinga hjá nefndinni, þ.e. með afmörkun á heimildum hennar til gagnaöflunar. Meðal þess sem tiltekið er í ákvæðinu er að nefndin skuli hafa óheftan aðgang að öllum gögnum í vörslu stjórnvalda sem varða starfsemi þeirra vöggustofa sem lögin muni gilda um og að þagnarskylda takmarki ekki aðgang hennar.

Framangreint ákvæði er sniðið eftir sambærilegu ákvæði 3. gr. laga nr. 26/2007 sem jafnframt hafa ljóslega mjög verið höfð að fyrirmynd við frumvarpsgerðina að öðru leyti. Hins vegar teldust þau lög ekki fullnægja kröfum til sérstakrar lagaheimildar eins og þær birtast nú í persónuverndarlöggjöf, en þar eru áskilin sértæk ákvæði um vernd persónuupplýsinga eftir því sem nauðsyn ber til, sbr. m.a. g-lið 2. mgr. 9. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.

Í þessu sambandi skal tekið fram að rannsókn eins og fjallað er um í frumvarpinu er líkleg til að komast í opinbera umræðu. Á það einkum við um skýrslu um rannsóknarniðurstöður, en ljóst er að hún gæti með einhverjum hætti snert tiltekna einstaklinga, svo sem lífshlaup þeirra eða aðkomu að málum sem til umfjöllunar eru. Tekið er tillit til þessa í löggjöf um rannsóknarnefndir sem mótuð hefur verið eftir setningu áðurnefndra laga nr. 26/2007. Vísast þar til laga nr. 68/2011 um rannsóknarnefndir, en þau lög taka til rannsóknarnefnda sem Alþingi skipar. Meðal þess sem sérstaklega er tekið af skarið um í lögunum eru álitaefni í tengslum við birtingu upplýsinga sem rannsóknarnefnd fær í hendur, svo og það hvenær gögn frá nefndinni skuli afhent Þjóðskjalasafn Íslands, sbr. 11. gr. og 4. mgr. 13. gr. laganna, sbr. og 39. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Þá má nefna þá meðalhófsreglu 4. mgr. 6. gr. laga nr. 68/2011 að rannsóknarefnd skuli beita heimildum sínum til öflunar gagna og upplýsinga í þágu lögmætra markmiða sem tengjast rannsókn nefndarinnar og gæta þess að ganga ekki lengra en nauðsyn krefur.

Að mati Persónuverndar er nauðsynlegt að bætt verði við við frumvarpið ákvæðum um atriði eins og þau sem rakin eru hér að framan og tekin er afstaða til í lögum nr. 68/2011. Telur Persónuvernd að vafi geti að öðrum kosti leikið á því hvort fullnægt sé þeim kröfum sem gera verður til lagaheimildar til vinnslu persónuupplýsinga.

Persónuvernd bendir jafnframt á að í 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins virðist koma fyrir innsláttarvilla en nánar tiltekið virðist þar vanta hluta úr orðinu „almennar“ á eftir orðinu „geyma“.

-----------------------

Ekki eru að öðru leyti gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins að svo stöddu.
Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.

 

F.h. Persónuverndar,

Vigdís Eva Líndal                                Þórður SveinssonVar efnið hjálplegt? Nei