Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um fjarskipti, 209. mál

Mál nr. 2020102707

13.11.2020

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um fjarskipti, 209. mál

Persónuvernd vísar til beiðni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis frá 22. október 2020 um umsögn um frumvarp til laga um fjarskipti (þskj. 210, 209. mál á 151. löggjafarþingi).

Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði hér á landi efnisákvæði reglugerðar (ESB) 2018/1971 frá 11. desember 2018 um Evrópskan hóp eftirlitsaðila á sviði fjarskipta BEREC (e. Body of European Regulators for Electronic Communications) og skrifstofu honum til stuðnings (e. Agency for Support for BEREC), auk annarra Evrópugerða á sviði fjarskipta.

Að gefnu tilefni vill Persónuvernd benda á að framkvæmdastjórn ESB hefur sett fram tillögu að nýrri reglugerð um vernd persónuupplýsinga í fjarskiptum. Reglugerðin kæmi í stað tilskipunar (ESB) 2002/58 frá 12. júlí 2002 um vinnslu persónuupplýsinga og verndun einkalífs í fjarskiptum (e. ePrivacy Directive). Sú tilskipun var innleidd með fjarskiptalögum nr. 81/2003. Með fjarskiptalögum var eftirlitsskylda og úrskurðarvald fellt undir Póst- og fjarskiptastofnun, enda var aðildarlöndum með tilskipuninni látið eftir að velja þá stofnun sem bæri ábyrgð á málaflokknum í viðkomandi landi.

Væntanleg reglugerð hefði það í för með sér að umrædd verkefni færðust yfir til persónuverndarstofnana og yrði Evrópska persónuverndarráðið (e. European Data Protection Board) samræmingaraðili vegna mála sem varða persónuvernd í fjarskiptum en Persónuvernd er aðili að ráðinu fyrir hönd Íslands. Í því sambandi skal tekið fram að samkvæmt svörum systurstofnanna Persónuverndar við spurningum Evrópska persónuverndarráðsins á árinu 2019 sinnir meirihluti persónuverndarstofnana í Evrópu þessum verkefnum nú þegar.

Með hliðsjón af þeirri sérfræðiþekkingu sem til staðar er hjá Persónuvernd og þeirri staðreynd að hér reynir umfram annað á mat á vinnslu persónuupplýsinga, sem og því að Persónuvernd er með lögum falið eftirlit með vinnslu persónuupplýsinga hérlendis, verður að gera athugasemd við að þessi afmarkaði hluti málaflokksins, þ.e. persónuvernd í fjarskiptum, heyri ekki undir valdsvið stofnunarinnar.

Er það því tillaga Persónuverndar að verkefni, sem falla undir væntanlega reglugerð, verði að fullu færð undir Persónuvernd. Í því felst að kveðið verði á um það í frumvarpinu að eftirlit með 88., 89., 90., 91. og 94. gr. frumvarpsins falli undir valdssvið Persónuverndar, samkvæmt lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Persónuvernd telur ekki tilefni til að gera frekari athugasemdir við frumvarpið að svo stöddu. Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.

F.h. Persónuverndar,

Þórður Sveinsson                              Vigdís SigurðardóttirVar efnið hjálplegt? Nei