Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á málefnum innflytjenda nr. 116/2012

Mál nr. 2022020303

14.2.2022

Persónuvernd vísar til beiðni velferðarnefndar Alþingis frá 2. febrúar 2022 um umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda (þskj. 380, 271. mál á 152. löggjafarþingi).

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um ný verkefni Fjölmenningaseturs tengd samræmdri móttöku einstaklinga með vernd, auk heimilda til vinnslu persónuupplýsinga. Frumvarpið var áður lagt fram á 150. og 151. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Persónuvernd veitti umsagnir um þau frumvörp með bréfum, dags. 18. febrúar 2020, 3. mars 2021 auk viðbótarumsögn, dags. 22. s.m.

1.

Í fyrrnefndum umsögnum, dags. 18. febrúar 2020 og 3. mars 2021, gerði Persónuvernd athugasemdir við fyrirhuguð frumvörp. Lutu athugasemdir Persónuverndar að því að hlutverk Fjölmenningaseturs væri óskýrt og að skýra mætti nánar tilgang að baki vinnslu persónuupplýsinga með vísan til hlutverks og verkefna setursins; að ekki hefði verið tekin skýr afstaða til þess hvaða tegunda persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga, Fjölmenningarsetri væri heimilt að vinna með; að óskýrt væri hverjum bæri að veita hinum skráðu fræðslu um þá vinnslu persónuupplýsinga sem fyrirhuguð væri samkvæmt frumvarpinu; og að ekki hefði verið framkvæmt mat á áhrifum á persónuvernd sem hluta af almennu áhrifamati í tengslum við samþykkt frumvarpsins. 

Á fundi Persónuverndar með velferðarnefnd þann 22. mars 2021, óskaði nefndin eftir upplýsingum hvort þær breytingar sem lagðar voru til í áliti meirihluta nefndarinnar við frumvarpið á 150. löggjafarþingi (þingskjal 1684 við 457. mál) væru fullnægjandi til að verða við athugasemdum Persónuverndar sem fram komu í fyrrnefndum umsögnum stofnunarinnar. Í viðbótarumsögn Persónuverndar, dags. 22. mars 2021, segir meðal annars að því gefnu að fyrrnefnt álit meirihluta velferðarnefndar yrði tekið upp í óbreyttri mynd þá teldi Persónuvernd ekki tilefni til frekari athugasemda. Athygli var þó vakin á því að mat á áhrifum á persónuvernd hefði ekki verið framkvæmt og að Fjölmenningarsetri bæri þá að framkvæma slíkt mat áður en vinnsla persónuupplýsinga hæfist.

Í því frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi hafa verið gerðar breytingar til samræmis við tillögur meirihluta velferðarnefndar á 150. löggjafarþingi auk þess sem að tilgreint er í greinargerð að gert sé ráð fyrir því að Fjölmenningarsetur muni meta áhrif breyttra reglna á persónuvernd. Telur Persónuvernd að með þessu hafi verið komið til móts við umrædda athugasemd stofnunarinnar með fullnægjandi hætti og gerir því ekki athugasemdir við frumvarpið.


F.h. Persónuverndar,


Vigdís Eva Líndal                  Gunnar Ingi Ágústsson



Var efnið hjálplegt? Nei