Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á hafnarlögum nr. 61/2003

Mál nr. 2021020496

9.3.2021

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á hafnarlögum nr. 61/2003

Persónuvernd vísar til beiðni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis frá 23. febrúar 2021 um umsögn um frumvarp til laga um breytingu á hafnarlögum nr. 61/2003 (þskj. 855, 509. mál á 151. löggjafarþingi).

Með frumvarpinu er meðal annars lagt til að stjórn hafna verði heimilt að viðhafa rafræna vöktun á hafnarsvæði eða taka myndir með reglulegu millibili í öryggisskyni.

Persónuvernd veitti umsögn um drög að frumvarpinu sem nú er lagt fram á Alþingi. Drögin voru birt í samráðsgátt stjórnvalda þann 10. nóvember 2020 og gerði stofnunin tvennar athugasemdir. Annars vegar voru lagðar til breytingar á orðalagi 1. gr. frumvarpsdraganna með það að markmiði að skýra nánar tilgang vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við rafræna vöktun á hafnarsvæðum. Hins vegar var vakin athygli á því að skylt væri að framkvæma mat á áhrifum á persónuvernd vegna umræddrar vöktunar og að ákjósanlegt væri að það væri framkvæmt sem hluti af almennu áhrifamati í tengslum við samþykkt frumvarpsins, en þá væri ekki nauðsynlegt að láta slíkt mat fara fram áður en vinnslustarfsemi hefst.

Í frumvarpi því sem nú er óskað umsagnar Persónuverndar um hefur verið tekið tillit til fyrri athugasemda Persónuverndar hvað varðar 1. gr. frumvarpsins.

Hvað varðar athugasemd Persónuverndar um nauðsyn þess að framkvæmt verði mat á áhrifum á persónuvernd, og að ákjósanlegt væri að það væri framkvæmd við lagasetningu, segir í greinargerð með frumvarpinu að það væri mat ráðuneytisins að ábyrgðaraðilar vinnslunnar séu betur í stakk búnir til að framkvæma slíkt mat.

Persónuvernd áréttar fyrri athugasemd sína um að ákjósanlegt sé að mat á áhrifum á persónuvernd sé framkvæmt sem hluti af almennu áhrifamati frumvarpsins. Að mati Persónuverndar er framkvæmd matsins á því stigi nauðsynlegt til að koma í veg fyrir óþarfa vinnslu persónuupplýsinga. Í slíku mati væri t.a.m. hægt að leggja mat á hvort slík vöktun sé þörf við allar hafnir landsins.

Þá er vakin athygli á því að ekki er nauðsynlegt að framkvæma mat á áhrifum á persónuvernd fyrir hverja og eina höfn sem viðhefur vinnslu persónuupplýsinga með rafrænni vöktun, heldur er mögulegt að framkvæma eitt mat á áhrifum fyrir sambærilega vinnslu persónuupplýsinga. Þannig væri mögulegt að skipta höfnum eftir stærð og umfangi og framkvæma matið fyrir hverja tegund þeirra, t.d. fyrir smáar, meðalstórar og stórar hafnir eða eftir því hvort hafnir séu opnar eða lokaðar almenningi.

Ekki eru að öðru leyti gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins. Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.

F.h. Persónuverndar,

 

Vigdís Eva Líndal                              Gunnar Ingi Ágústsson



Var efnið hjálplegt? Nei