Umsagnir

Umsögn Persónuverndar um frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002

Mál nr. 2021020401

24.2.2021

Efni: Umsögn Persónuverndar um frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002.

Persónuvernd vísar til frumvarpsdraga félagsmálaráðuneytisins sem birt voru í samráðsgátt stjórnvalda þann 9. febrúar 2021, en þar var óskað umsagnar um drög að frumvarpi til laga um breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002.

Í drögum að frumvarpinu eru lagðar til breytingar á stjórnsýslu barnaverndar í samræmi við samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og breytingar á þeim stofnunum félagsmálaráðuneytisins sem koma að barnavernd. Lagt er til að barnaverndarnefndir verði lagðar af og dagleg verkefni verði falin barnaverndarþjónustu. Í frumvarpinu er lagt til að barnaverndarþjónusta verði samþætt annarri þjónustu í þágu farsældar barna. Þá er jafnframt lagt til að löggjöf verði löguð að stafrænum lausnum í barnavernd, þar með talið sameiginlegum gagnagrunni í barnavernd.

Þess skal getið að Persónuvernd hefur veitt félagsmálaráðuneytinu umsagnir um drög að frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, dags. 16. október 2020, drög að frumvarpi til laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, dags. 13. nóvember s.á., og um drög að frumvarpi til laga um Barna- og fjölskyldustofu, dags. 13. nóvember s.á. Þá veitti Persónuvernd umsagnir um framangreind þrjú lagafrumvörp til velferðarnefndar Alþingis, dags. 18. janúar 2021, sem birtar eru á vef Alþingis og á vef Persónuverndar.

Persónuvernd gerir athugasemdir við eftirfarandi atriði í frumvarpsdrögunum.

1.

Í frumvarpsdrögunum er vísað til þess að í vissum tilvikum taki barnaverndarþjónusta við hlutverki málstjóra við samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Er þess getið m.a. í 14., 16. og 22. gr. frumvarpsdraganna.

Persónuvernd vekur athygli á að við fyrrgreindar aðstæður er afar mikilvægt að tryggja að viðeigandi breytingar verði gerðar á aðgangsstýringum í upplýsingakerfum, þ.e. að lokað sé fyrir aðgang tengiliðar og/eða málstjóra að upplýsingum um börn sem ekki eru lengur í þeirra umsjá. Þá kann að vera rétt að huga að því að nýr málstjóri hafi ekki ótakmarkaðan aðgang að upplýsingum langt aftur í tímann, nema það sé talið nauðsynlegt með tilliti til hagsmuna barnsins.

Að auki er mikilvægt að huga að ströngum aðgangsstýringum í upplýsingakerfum samþættingarinnar að öðru leyti. Um þetta, og öryggi persónuupplýsinga að öðru leyti, gilda m.a. 27. gr. laga nr. 90/2018 og 32. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.

2.

Í 10. gr. frumvarpsdraganna er lögð til ný málsgrein sem komi á eftir 4. gr. 21. gr. laganna en 21. gr. fjallar um málsmeðferð vegna tilkynninga til barnaverndarþjónustu. Í hinum nýja málslið segir að ef fyrir liggi beiðni um samþættingu þjónustu skuli barnaverndarþjónusta upplýsa tengilið eða málstjóra um ákvarðanir samkvæmt 21. gr. laganna.

Í athugasemdum við ákvæðið segir að í ákvæðinu felist að barnaverndarþjónustu beri að veita tengilið og/eða málstjóra upplýsingar um ákvörðun um að hefja könnun eða hefja ekki könnun þegar beiðni um samþættingu þjónustu er fyrir hendi.

Að mati Persónuverndar er ekki rökstutt hvers vegna talið sé nauðsynlegt að upplýsa tengilið og/eða málstjóra í öllum tilvikum um tilkynningu sem ekki leiðir til þess að hafin sé könnun. Að mati Persónuverndar samrýmdist það betur sjónarmiðum um meðalhóf að í þeim tilfellum væri um að ræða heimild en ekki skyldu til að upplýsa tengilið og/eða málstjóra þegar barnaverndarþjónusta meti það nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni barnsins.

3.

Í athugasemdum við 1. mgr. 12. gr. frumvarpsdraganna segir að þegar könnun máls hjá barnaverndarþjónustu fer fram og beiðni um samþættingu þjónustu liggur fyrir þá sé gert ráð fyrir því að barnaverndarþjónusta taki þátt í samþættingu sem einn af þjónustuveitendum í þágu farsældar barnsins. Þá segir að í því felist að barnaverndarþjónusta fái heimild til að skiptast á upplýsingum við þjónustuveitendur sem taka þátt í samþættingu þjónustu.

Í samræmi við sjónarmið um meðalhóf leggur Persónuvernd til að í athugasemdum segi að barnaverndarþjónusta fái heimild til að skiptast á nauðsynlegum upplýsingum við þjónustuveitendur.

4.

Í 3. tölul. 13. gr. frumvarpsdraganna er fjallað um hvernig fara eigi með samþættingu þjónustu þegar barnaverndarþjónusta tekur ákvörðun um að ljúka barnaverndarmáli eftir að það hefur verið fullkannað eða fullreynt að beita úrræðum laganna.

Í 1. málslið 3. tölul. 13. gr. segir að ef fyrir liggi beiðni um samþættingu þjónustu sé tengilið og/eða málstjóra, og eftir atvikum þjónustuveitendum sem taka þátt í samþættingu þjónustunnar, heimilt að vinna með niðurstöðu könnunar.

Hvorki í ákvæðinu né athugasemdum við það er að finna nánari skýringu á hvaða vinnsla sé heimil á grundvelli ákvæðisins. Til þess að hægt verði að vinna persónuupplýsingar á grundvelli ákvæðisins þarf að mati Persónuverndar að vera skýrt hvaða vinnslu persónuupplýsinga sé verið að heimila með ákvæðinu og hver tilgangur hennar sé.

Í lokamálslið 3. tölul. 13. gr. draganna segir að þegar beiðni um samþættingu þjónustu liggi ekki fyrir og mál hafi hafist með tilkynningu skv. 17. gr. frá þjónustuveitanda skuli jafnframt upplýsa þjónustuveitandann um lok málsins. Í athugasemd við ákvæðið segir hins vegar að í þeim tilvikum sé heimilt að miðla upplýsingum um að barnaverndarmáli hafi verið lokað til þjónustuveitanda ef hann hafi tilkynnt málið til barnaverndarþjónustu. Í skýringum við ákvæðið kemur jafnframt fram að heimildin taki eingöngu til niðurstöðunnar um lok máls en ekki til þeirra forsendna sem þar liggja að baki.

Að mati Persónuverndar þarf að vera skýrt hvort um sé að ræða skyldu eða heimild til að upplýsa þjónustuveitanda, sem tilkynnt hefur um aðstæður barns til barnaverndarþjónustu, um að máli hafi verið lokað. Þá þarf að mati Persónuverndar jafnframt að koma skýrt fram í lagaákvæðinu sjálfu að heimildin/skyldan taki eingöngu til miðlunar upplýsinga um niðurstöðu um lok máls en ekki forsendna hennar. Ekki verður talið nægjanlegt að það komi eingöngu fram í greinargerð.

5.

Í 22. gr. frumvarpsdraganna er lagt til að við 1. mgr. 33. gr. laganna bætist við þrír nýir málsliðir. Samkvæmt fyrsta málslið er gert ráð fyrir því að þegar barnaverndarþjónusta hefur tekið yfir umsjá eða forsjá barns skuli jafnframt samþætta þjónustu í þágu farsældar barns óháð afstöðu foreldra.

Að mati Persónuverndar færi betur á því að ekki væri um skyldu að ræða til að samþætta þjónustu heldur heimild til þess ef metin er þörf á slíkri þjónustu. Er því lagt til að 1. málsl. 22. gr. frumvarpsdraganna orðist svo:

„Jafnframt er heimilt að samþætta þjónustu í þágu farsældar barnsins eftir því sem við á, óháð afstöðu foreldra.“

6.

Í 27. gr. frumvarpsdraganna segir að ráðherra geti ákveðið með reglugerð að leggja skyldu á barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar að vinna gögn sem tengjast barnaverndarmálum í gagnagrunnum og stafrænum lausnum sem starfrækt séu af Barna- og fjölskyldustofu.

Í athugasemdum með ákvæðinu segir hins vegar að lagt sé til að barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar verði skylt að vinna gögn sem tengjast barnaverndarmálum í miðlægum gagnagrunnum og stafrænum lausnum Barna- og fjölskyldustofu.

Í ljósi þess hve umfangsmiklar og viðkvæmar upplýsingar getur verið um að ræða leggur Persónuvernd til að skýrt verði kveðið á um að vinnsla gagna sem tengjast barnaverndarmálum verði eingöngu heimil í miðlægum gagnagrunnum og stafrænum lausnum sem Barna- og fjölskyldustofa hefur umsjón með. Að mati Persónuverndar væri slíkt skilyrði til þess fallið að draga úr þeirri miklu áhættu sem fylgir því að upplýsingarnar verði varðveittar hjá fjölda mismunandi aðila. Þá má ætla að öryggisvitund þessara aðila sé mismikil og aðstæður þeirra jafnframt ólíkar þegar kemur að því að tryggja öryggi persónuupplýsinga í þeirra vörslum.

Að auki er mikilvægt að huga að ströngum aðgangsstýringum í upplýsingakerfum samþættingarinnar að öðru leyti. Um þetta, og öryggi persónuupplýsinga að öðru leyti, gilda m.a. 27. gr. laga nr. 90/2018 og 32. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.

Hvað varðar nánari umfjöllun um öryggi við vinnslu persónuupplýsinga, meðal annars í nefndum gagnagrunnum og stafrænum lausnum Barna- og fjölskyldustofu, vísar Persónuvernd til þeirra umsagna stofnunarinnar sem nefndar voru fremst í umsögn þessari (á bls. 1).

7.

Í greinargerð með frumvarpsdrögunum er, í lið 6, gert ráð fyrir kafla um mat á áhrifum sem ekki hefur verið ritaður að svo stöddu. Persónuvernd bendir á nauðsyn þess að í þeim kafla verði fjallað um mat á áhrifum á persónuvernd, sbr. 29. gr. laga nr. 90/2018 og 35. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.

________________

Ekki eru að öðru leyti gerðar athugasemdir við efni draganna að svo stöddu. Persónuvernd áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á síðari stigum málsins ef stofnunin telur þörf á. Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.

F.h. Persónuverndar,

Helga Sigríður Þórhallsdóttir                      Steinunn Birna MagnúsdóttirVar efnið hjálplegt? Nei