Umsagnir

Umsögn Persónuverndar um drög að reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra

Mál nr. 2022081274

11.8.2022


Efni: Umsögn Persónuverndar um drög að reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra

1.

Persónuvernd vísar til draga að reglugerð um umferðarmerki sem ætlað er að leysa af hólmi gildandi reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra, nr. 289/1995, með síðari breytingum, sem birtist í samráðsgáttinni þann 14. júlí 2022.

Í 20. gr. draganna segir að upplýsingamerkjum sé ætlað að veita vegfarendum upplýsingar um ýmis atriði sem telja megi þýðingarmikil fyrir umferðina en feli ekki í sér boð, bönn eða aðrar sérreglur fyrir umferð. Í 21. gr. draganna eru talin upp ýmis upplýsingamerki ásamt skýringum. Að minnsta kosti fjögur merkjanna sem þar er fjallað um varða rafrænt myndavélaeftirlit. Er um að ræða eftirfarandi merki:

655.61 Löggæslumyndavél

655.62 Meðalhraðaeftirlit

655.71 Eftirlitsmyndavél

659 Rafræn gjaldtaka

Þá er að finna frekari skýringar um hvenær sé heimilt að nota framangreind merki í 123. gr., 124. gr., 125. gr. og 127. gr. í viðauka I með reglugerðardrögunum.

2.

Persónuvernd vekur athygli á að við merkingar um rafræna vöktun með eftirlitsmyndavélum er nauðsynlegt að huga að því að fylgt sé lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018, eða eftir atvikum lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi nr. 75/2019, sbr. einnig reglur um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun nr. 837/2006, allt eftir því hvað á við hverju sinni. Meðal annars getur þurft að huga að því að á merkingum komi fram hver ábyrgðaraðili vöktunar sé. Þá getur þurft að huga að því hvort og þá hvernig uppfylla þurfi fræðsluskyldu gagnvart hinum skráðu vegna rafrænnar vöktunar sem felur í sér vinnslu persónuupplýsinga, sbr. ákvæði laga og reglna þar að lútandi.

Í þessu sambandi vekur Persónuvernd jafnframt athygli á leiðbeiningum Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) nr. 3/2019, frá 29. janúar 2020[1], um rafræna vöktun, þar sem meðal annars er fjallað um fræðsluskyldu vegna rafrænnar vöktunar. Auk þess hefur Persónuvernd gefið út álit vegna drónanotkunar Landhelgisgæslunnar, sbr. mál nr. 2018/2184, dags. 31. október 2019, þar sem fjallað er ítarlega um fræðsluskyldu í tengslum við meðferð persónuupplýsinga í löggæslutilgangi samkvæmt lögum nr. 75/2019.

 

__________________

Persónuvernd áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum síðar ef stofnunin telur þörf á. Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.

F.h. Persónuverndar,

Helga Sigríður Þórhallsdóttir                         Steinunn Birna Magnúsdóttir

 


[1] https://edpb.europa.eu/sites/default/files/files/file1/edpb_guidelines_201903_video_devices_en.pdfVar efnið hjálplegt? Nei