Umsagnir

Umsögn um breytt drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda þeirra og um upplýsingaskyldu þeirra

15.7.2009

Þann 1. júlí sl., veitti Persónuvernd forsætisráðuneytinu umsögn um breytt drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda þeirra og um upplýsingaskyldu þeirra.

Umsögn um breytt drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda þeirra og um upplýsingaskyldu þeirra


Persónuvernd vísar til umsagnar stofnunarinnar til nefndar um endurskoðun laga um fjármál stjórnmálaflokka, dags. 30. júní 2009, um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda þeirra og um upplýsingaskyldu þeirra, sbr. beiðni um umsögn sem barst með tölvubréfi hinn 25. s.m. Í frumvarpsdrögunum er lagt til að stjórnmálasamtök og frambjóðendur í prófkjöri eða forvali innan slíkra samtaka geti óskað athugunar Ríkisendurskoðunar á framlögum til sín, en Ríkisendurskoðun birtir niðurstöður slíkrar athugunar.

Með umsögninni, sem tekur aðeins til vinnslu upplýsinga um einstaklinga, voru gerðar athugasemdir við d-lið 4. mgr. tillögu frumvarpsdraganna að nýju bráðabirgðaákvæði við umrædd lög þess efnis að Ríkisendurskoðun skuli tilgreina sérstaklega þá aðila sem veitt hafa framlag að fjárhæð 500.000 kr. eða meira. Hafi aðili krafist trúnaðar um framlög sín til viðkomandi stjórnmálasamtaka skuli engu að síður birta upplýsingar um upphæð framlagsins. Í umsögn Persónuverndar kom fram sá skilningur að samkvæmt þessu ákvæði yrði nafn viðkomandi birt þótt hann hefði farið fram á hið gagnstæða.

Hinn 30. júní 2009 barst Persónuvernd tölvubréf frá formanni framangreindrar nefndar sem með fylgdu endurskoðun frumvarpsdrög. Þar segir m.a. að skilningur Persónuverndar á framangreindu ákvæði hafi ekki verið réttur og hafi það ef til vill ekki verið nógu skýrlega orðað. Í hinum endurskoðuðu frumvarpsdrögum hefur ákvæðinu verið breytt og hljóðar það nú svo:

„Ríkisendurskoðun skal vinna úr þeim upplýsingum sem til hennar er miðlað, skv. 3. mgr., og birta með samræm[d]um hætti niðurstöður fyrir hver stjórnmálasamtök og frambjóðendur þeirra sem hér segir:

[?]

d. Tilgreina skal sérstaklega þá aðila sem veitt hafa framlag að fjárhæð 500.000 kr. eða meira. Hafi aðili krafist trúnaðar um framlög sín til viðkomandi stjórnmálasamtaka skal engu að síður birta upplýsingar um fjárhæð framlagsins en upplýsingar um heiti viðkomandi aðila skulu ekki birtar án samþykkis hans. Sé um einstakling að ræða skal birting á nafni hans sem styrkveitanda ávallt byggja á samþykki hans."

Persónuvernd gerir ekki athugasemdir við þetta ákvæði eins og það hljóðar nú. Stofnunin telur hins vegar æskilegt, með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin eru í umsögn hennar, dags. 30. júní 2009, að miðlun upplýsinga um fjárframlög einstaklinga til Ríkisendurskoðunar byggist á samþykki einstaklinga með sama hætti og birting hennar á slíkum upplýsingum.





Var efnið hjálplegt? Nei