Umsagnir

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra

14.7.2009

Hinn 30. júní sl., veitti Persónuvernd forsætisráðuneytinu umsögn um drög að frumvarpi um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra

Persónuvernd hefur borist ósk Ágústs Geirs Ágústssonar, formanns nefndar um endurskoðun laga um fjármál stjórnmálaflokka, um umsögn um drög að frumvarpi til breytinga á lögum nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

Drögin gera ráð fyrir því að stjórnmálasamtök og frambjóðendur í forvali eða prófkjöri innan slíkra samtaka geti afhent Ríkisendurskoðun upplýsingar um fjárframlög einstaklinga og lögaðila til þeirra á árunum 2002 til 2006 að upphæð 200.000 kr. eða meira. Þá kemur fram með hvaða hætti Ríkisendurskoðun skuli vinna úr upplýsingunum. Síðan segir um birtingu á niðurstöðum Ríkisendurskoðunar:

„Tilgreina skal sérstaklega þá aðila sem veitt hafa framlag að fjárhæð 500.000 kr. eða meira. Hafi aðili krafist trúnaðar um framlög sín til viðkomandi stjórnmálasamtaka skal engu að síður birta upplýsingar um upphæð framlagsins."

1.

Einstaklingar /lögaðilar

Þau lög, sem Persónuvernd starfar eftir og hefur það hlutverk að framfylgja, þ.e. lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, lúta að upplýsingum um einstaklinga en ekki lögaðila, sbr. þó undantekningu á því samkvæmt 2. mgr. 45. gr., sbr. reglugerð nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. Umsögn Persónuverndar tekur því aðeins til álitaefna varðandi persónuupplýsingavinnslu um einstaklinga.

2.

Einkalífsvernd. Viðkvæmar persónuupplýsingar.

Upplýsingar um stjórnmálaskoðanir eru skilgreindar sem viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. a-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Vinnsla þeirra verður að eiga sér lagaheimild og vera í samræmi við grundvallarreglur. Í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er mælt fyrir um grundvallarregluna um friðhelgi einkalífs. Telja ber að þær upplýsingar sem hér um ræðir eigi að njóta sérstakrar verndar samkvæmt þeim ákvæðum en sérstakt álitaefni er hvort umrædd lagasetning fái samrýmst þeim.

3.

Afturvirkni laga

Umrædd frumvarpsdrög gera ráð fyrir miðlun upplýsinga til Ríkisendurskoðunar frá tímabilinu 2002-2006, þ.e. frá þeim tíma þegar engnar lagareglur mæltu fyrir um upplýsingaskyldu stjórnmálasamtaka og frambjóðenda um fjáröflun. Er og gert ráð fyrir að Ríkisendurskoðun upplýsi opinberlega um þá aðila sem veitt hafi framlag að fjárhæð 500.000 kr. eða meira, jafnvel þótt aðili hafi krafist trúnaðar um framlög sín.

Af þessu tilefni er minnt á framangreindar grundvallarreglur stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, sem og ólögfestar meginreglur um hvenær lög megi vera afturvirk. Ekki er að finna almennt bann við afturvirkni laga í íslenskum rétti heldur er aðeins sérstaklega mælt fyrir um slíkt hvað varðar lög á tilteknum sviðum, m.a. refsilög, sbr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Í 27. gr. stjórnarskrárinnar er hins vegar að finna þá reglu að lög skuli birt, en sú regla byggist á því sjónarmiði að borgararnir geti kynnt sér efni þeirra til að geta hagað breytni sinni í samræmi við þau. Afturvirkni laga rekst á við þetta markmið 27. gr. stjórnarskrárinnar. Í því ljósi má telja stjórnarskrána setja takmörk við því að lög séu afturvirk.

Einkum verður að ætla að takmörk séu við því að settar séu íþyngjandi, afturvirkar lagareglur. Sem dæmi um slíkt má nefna að sett séu lög sem breyta réttarstöðu samkvæmt réttargerningum sem gerðir voru fyrir gildistöku laganna og sem menn höfðu réttmætar væntingar til að myndi ekki breytast. Það getur átt við ef einstaklingur hefur veitt fjárframlag til tiltekins aðila í góðri trú og með því skilyrði að ekki yrði upplýst um hver hefði veitt framlagið, enda hafi leynd þar að lútandi ekki brotið gegn lögum.

4.

Tillaga að breytingu

Í ljósi framangreinds leggur Persónuvernd til að við frumvarpsdrögin verði bætt þeirri reglu að miðlun til Ríkisendurskoðunar á upplýsingum um hvaða tilgreindu einstaklingar hafi veitt stjórnmálasamtökum og frambjóðendum fjárframlög skuli byggjast á samþykki þeirra.

Síðari málsliður d-liðar 4. mgr. tillögu frumvarpsdraganna felur í sér að upplýsingar um nafn styrkveitanda skuli birta þótt hann hafi óskað trúnaðar um framlag sitt. Er lagt til að við verði bætt eftirfarandi orðum: „en upplýsingar um heiti viðkomandi aðila skulu ekki birtar án samþykkis hans."

Var efnið hjálplegt? Nei