Umsagnir

Umsögn Persónuverndar vegna reglna um númerabirtingar

11.7.2008

Persónuvernd vísar til draga að reglum um númerabirtingar, sem birt voru á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar hinn 6. febrúar sl. ásamt ósk um umsagnir.

Persónuvernd bendir á eftirfarandi:

Reglurnar eiga að gilda um símtöl og smáskilaboðasendingar úr símtækjum, sbr. 1. gr. regludraganna. Hins vegar verður ekki séð með hvaða hætti efnisákvæði regludraganna taka til smáskilaboðasendinga, sbr. það að 4.-7. og 9. gr. taka til símtala. Tekið skal fram að Persónuvernd er ekki að leggja til að í reglunum verði kveðið á um að notendum skuli tryggður réttur til númeraleyndar við sendingu smáskilaboða, heldur að gildissviðsákvæði reglanna endurspegli raunverulegt efni þeirra.

Í 6. gr. regludraganna er kveðið á um að notandi skuli eiga kost á því, eftir því sem er tæknilega framkvæmanlegt, með einföldum hætti og áður en símtal er afgreitt, að synja móttöku hringinga með númeraleynd. Ákvæði þetta er í samræmi við 3. mgr. 8. gr. tilskipunar nr. 2002/58/EB. Það er athugunarefni hvort jafnframt eigi að gera áskrifanda mögulegt að hafna móttöku hringinga úr tilteknum símanúmerum sem ekki njóta númeraleyndar, með svipuðum hætti og flest tölvupóstkerfi gera unnt að loka fyrir skeyti úr tilteknum póstföngum, sé það tæknilega mögulegt. Ýmis rök mæla með því að slík þjónusta standi áskrifendum til boða enda getur það gagnast í þeim tilvikum þar sem áskrifandi verður fyrir ónæði eða áreiti frá tilteknum notanda. Þar ber að hafa í huga að þrátt fyrir að númer birtist á skjá símtækis (njóti ekki númeraleyndar) getur það verið óskráð eða skráð sem leyninúmer, auk þess sem áreitið getur verið alveg jafn íþyngjandi þrátt fyrir vitað sé hver hringir. Þá má benda á að með sífelldum hringingum er hægt að halda línu upptekinni og hugsanlegt er að einu skammtímaúrræði sem móttakandi símtals hefur sé að taka símtæki úr sambandi.

Þá má að ósekju huga að því hvort rétt sé að gera áskrifendum kleift að hafna móttöku smáskilaboðasendinga af Netinu, s.s. af heimasíðum fjarskiptafyrirtækjanna. Unnt er að senda slík skilaboð án þess að fram komi frá hverjum sendingin er. Þar sem slíkt getur valdið viðtakanda ónæði og óþægindum mætti taka þetta til athugunar, sé það tæknilega mögulegt.





Var efnið hjálplegt? Nei