Umsagnir

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um lífsýnasöfn

27.2.2008

Persónuvernd barst bréf frá heilbrigðisráðuneytinu, dags. 21. janúar sl., þar sem óskað var eftir umsögn stofnunarinnar um drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 110/2000 um lífsýnasöfn.

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um lífsýnasöfn


Persónuvernd hefur borist erindi frá heilbrigðisráðuneytinu, dags. 21. janúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn stofnunarinnar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lífsýnalögum.

1.

Í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsdraganna er lagt til að hugtakið lífsýni verði skilgreint með þeim hætti að um sé að ræða lífrænt efni úr mönnum, lifandi eða látnum, sem veitt getur um þá „einstaklingsbundnar" líffræðilegar upplýsingar. Af greinargerð með frumvarpsdrögunum má ráða að ætlunin með þessu sé að eyða vafa um að afleiddar afurðir úr slíku lífrænu efni sem eru ekki rekjanlegar til einstaklinga séu ekki lífsýni. Persónuvernd gerir enga efnislega athugasemd við þetta. Hún telur þó skýrara að notast við eftirfarandi orðalag:

Lífsýni: Lífrænt efni úr mönnum, lifandi eða látnum, sem veitt getur líffræðilegar upplýsingar sem unnt er að rekja til tiltekins einstaklings.

Yrði slíkt orðalag einnig í samræmi við hugtakanotkun í öðrum lögum, þ. á m. lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Sé með orðinu þjónustusýni aðeins átt við sýni sem tekin eru vegna læknismeðferðar, en ekki annars konar þjónustu, er lagt til að notað verði orðið lækningasýni. Verður það orð hér eftir notað í umsögn þessari.

2.

Í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsdraganna er gert ráð fyrir að undir lög um lífsýni muni áfram falla sýni sem orðin eru 5 ára gömul, en greint verði á milli safna sem hafa að geyma sýni tekin vegna læknismeðferðar (lækningasýni) og safna með lífsýnum sem hefur verið aflað í öðrum tilgangi. Gert er ráð fyrir að í þeim síðarnefndu skuli lífsýni vera varðveitt án persónuauðkenna. Hins vegar er gert ráð fyrir að í þeim fyrrnefndu megi sýni vera merkt með persónuauðkennum, andstætt því sem er samkvæmt núgildandi lögum nr. 110/2000 um lífsýnasöfn.

Persónuvernd hefur annars vegar litið til þeirra hagsmuna sem eru, í ljósi sjónarmiða um friðhelgi einkalífs, af því að varðveita lækningasýni án persónuauðkenna. Hún hefur einnig litið til hagsmuna af mikilvægi þess að sporna gegn hættu á mistökum þegar veitt er læknismeðferð. Áskilnaði um endurmerkingu lækningasýna fylgir allnokkur áhætta fyrir sjúklinginn. Af þeirri ástæðu, og í ljósi þess hve áskilnaður um endurmerkningu lækningasýna getur reynst torveldur í framkvæmd, leggst Persónuvernd ekki gegn því að lækningasýni séu varðveitt með persónuauðkennum. Hins vegar er mikilvægt að í lögunum verði lögð rík áhersla á aðrar ráðstafanir til að tryggja öryggi sýnanna - bæði gagnvart skemmdum og aðgangi óviðkomandi aðila.

3.

Eins og áður segir er gerður greinarmunur á „lífsýnasafni þjónustusýna" og „lífsýnasafni vísindasýna". Virðist miðað við að hér sé um ólík söfn að ræða er lúti mismunandi reglum. Bent er á að oft eru á einu og sama safni varðveitt lífsýni sem aflað hefur verið í mismunandi tilgangi. Er eðlilegt að orðalag taki mið af því.

 

4.

Af 4. mgr. 9. gr. frumvarpsdraganna virðist mega ráða að lækningasýni megi að jafnaði afhenda til vísindarannsókna án persónuauðkenna. Í athugasemdum með frumvarpsdrögunum er ekki að finna frekari skýringar á því hvaða viðmið skuli lögð til grundvallar við mat á því hvort lífsýni skuli afgreidd með eða án persónuauðkenna. Standi vilji til þess að skapa svigrúm fyrir afhendingu sýna sem eru merkt með persónuauðkennum þarf að tilgreina hvaða skilyrði þurfi þá að uppfylla. Til greina kemur að gera áskilnað um heimild lífsýnagjafa eða heimild Persónuverndar.

-

Að lokum er þess vinsamlega óskað að Persónuvernd verði kynnt ný drög þegar þau liggja fyrir.





Var efnið hjálplegt? Nei