Umsagnir

Umsögn Persónuverndar um frumvarp til laga um samræmda neyðarsvörun

6.12.2007

Óskað var eftir umsögn Persónuverndar um frumvarp til laga um samræmda neyðarsvörun.

Umsögn Persónuverndar um frumvarp til laga um samræmda neyðarsvörun


Persónuvernd vísar til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dags. 15. nóvember 2007, þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um samræmda neyðarsvörun. Þau ákvæði frumvarpsins, sem einkum varða vinnslu persónuupplýsinga, eru annars vegar 4.–7. gr. um fyrirkomulag neyðarsvörunar, skráningu upplýsinga um tilkynningar til neyðarsvörunar, afritun samskipta, varðveislu upplýsinga og þagnarskyldu starfsfólks neyðarsvörunar. Hins vegar er það 9. gr. um heimild dómsmálaráðherra til setningar reglugerðar um nánari framkvæmd laganna, en ætla má að þar kynnu m.a. að vera ákvæði um meðferð persónuupplýsinga sem safnast upp við neyðarsvörun. Þá er ljóst að slík ákvæði yrðu í reglum settum af dómsmálaráðherra samkvæmt 2. málsl. 6. gr. frumvarpins, en þar segir að hann setji nánari reglur um varðveislu upplýsinga um tilkynningar, aðgengi að þeim og notkun.

Persónuvernd telur það til bóta að ólíkt því sem er í gildandi lögum, þ.e. lögum nr. 25/1995 um samræmda neyðarsímsvörun, er í frumvarpinu sérstaklega tiltekið hversu lengi skuli varðveita tilkynningar sem berast neyðarsímsvörun, en það merkir að tekin er afstaða til þess hver sé málefnalegur varðveislutími. Samkvæmt 1. málsl. 6. gr. frumvarpsins skal þannig varðveita slíkar tilkynningar í a.m.k. sex mánuði. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 570/1996 um framkvæmd samræmdrar neyðarsímsvörunar, sbr. 5., 6. og 8. gr. laga nr. 25/1995, er mælt fyrir um varðveislu hljóðritana í a.m.k. tvo mánuði og er því ljóst að frumvarpið gerir ráð fyrir lengri varðveislutíma en nú tíðkast. Í ljósi tilgangs umræddrar vinnslu telur Persónuvernd hins vegar ekki efni til að gera athugasemdir við að varðveislutíminn sé lengdur nokkuð umfram það sem nú er, enda má ætla að nokkurra mánaða varðveisla, eins og sú sem frumvarpið gerir ráð fyrir, geti telist hóflegt.

Þess ber þó að geta að Persónuvernd telur almennt æskilegt að í lögum sé afmarkaður hámarksvarðveislutími upplýsinga fremur en lágmarksvarðveislutími eins og gert er í frumvarpinu. Í ljósi tilgangs umræddrar vinnslu kann hins vegar að vera nauðsynlegt að veita stjórnvöldum svigrúm til að mæla fyrir um lengri varðveislutíma en sex mánuði í ákveðnum tilvikum eins unnt yrði að gera samkvæmt 2. málsl. 6. gr. frumvarpsins.

Persónuvernd gerir því ekki efnislegar athugasemdir við ákvæði 6. gr. Að öðru leyti sér stofnunin heldur ekki tilefni til athugasemda.




Var efnið hjálplegt? Nei