Umsagnir

Umsögn Persónuverndar um breytingar á lögum um tekjuskatt

6.12.2007

Persónuvernd barst bréf efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, dags. 19. nóvember 2007, þar sem óskað var umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003 (þskj. 36, 36. mál á 135. löggjafarþingi). Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 98. gr. laganna sem hafi það í för með sér að látið verði af opinberri birtingu og framlagningu álagningar- og skattskráa.

Frumvarp þetta hefur áður verið lagt fram, síðast á 132. löggjafarþingi. Var þá óskað umsagnar Persónuverndar um frumvarpið, þ.e. með bréfi, dags. 31. janúar 2006. Með bréfi, dags. 2. mars s.á., veitti stofnunin umbeðna umsögn. Með bréfi, dags. 3. desember 2007, vísaði Persónuvernd til þeirrar umsagnar.

Umsögn um frumvarp til laga um að birtingu álagningar- og skattskráa verði hætt

Persónuvernd vísar til bréfs efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, dags. 31. janúar 2006, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt nr. 90/2003 (þingskjal 23, 23. mál). Eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á 98. gr. laganna sem hafa það í för með sér, verði þær að lögum, að hætt verður opinberri birtingu álagningarskráa og skattskráa, sem og útgáfu upplýsinga úr síðarnefndu skránum.

Birting umræddra skráa hefur tíðkast um áratugaskeið eins og rakið er í almennum athugasemdum við frumvarpið. Kemur þar og fram að aðeins voru lagðar fram skattskrár fram til ársins 1979, enda var þá ekki gerður greinarmunur á skattskrám og álagningarskrám. Frá þeim tíma var hins vegar tekið að skilja þar á milli. Í 98. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, og síðar í 98. gr. laga nr. 90/2003 um sama efni, birtist sá greinarmunur.

1.

Varðandi álagningarskrár ber að hafa í huga að þær hafa ekki að geyma endanlegar upplýsingar um tekjur manna heldur eru í eðli sínu bráðabirgðaskrár. Samkvæmt því eru upplýsingar í álagningarskrám í mörgum tilvikum ekki réttar, sbr. hins vegar til hliðsjónar 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar er kveðið á um þá grundvallarreglu að við meðferð persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum; óáreiðanlegar eða ófullkomnar upplýsingar beri að afmá eða leiðrétta. Bendir Persónuvernd á að opinber birting upplýsinga úr álagningarskrám í fjölmiðlum orkar tvímælis í ljósi þessarar meginreglu 7. gr.

Eins og vikið er að hér að neðan er í lögum kveðið á um heimild til útgáfu skattskráa. Sambærilega heimild er ekki að finna í lögum um álagningarskrár. Í ljósi þess komst og tölvunefnd að því, þ.e. hinn 1. febrúar 1995, að fyrirhuguð útgáfa upplýsinga um 14.000 einstaklinga úr slíkum skrám væri óheimil. Sú niðurstaða var staðfest af héraðsdómi Reykjavíkur hinn 8. mars 1996. Um aðgang fjölmiðla, og birtingu þeirra á upplýsingum úr skránum, meðan þær lægju frammi, taldi tölvunefnd hins vegar, eins og fram kom m.a. í fréttatilkynningu nefndarinnar hinn 13. júlí 1995, að þar sem lögboðið væri að leggja þær fram yrði aðgangur fjölmiðla að þeim hvorki takmarkaður né skorður reistar við heimild þeirra til að birta efni þeirra meðan þær væru aðgengilegar almenningi á grundvelli lagaheimildar þar að lútandi. Þegar sýningu álagningarskráa í skjóli þess sérákvæðis lyki færi hins vegar um aðgang að þeim og meðferð upplýsinga úr þeim að öðru leyti samkvæmt þeim almennu reglum er gilda um skráningu og meðferð persónuupplýsinga samkvæmt þágildandi lögum nr. 121/1989 um það efni. Hinn 22. júní 1995 gaf umboðsmaður Alþingis frá sér það álit að hann teldi ekki tilefni til athugasemda við þessa afstöðu tölvunefndar.

2.

Varðandi skattskrár skal bent á að útgáfa þeirra var fyrst heimiluð með lögum nr. 7/1984 sem breyttu 98. gr. þágildandi laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Kom sú lagabreyting til í framhaldi af umræðu um hvort slík útgáfa væri heimil, en tölvunefnd, forveri Persónuverndar, hafði litið svo á að heimild til þess brysti.

Í tengslum við umrædda útgáfuheimild er rétt að hafa reynslu Norðmanna til hliðsjónar. Eins og rakið er í frumvarpinu hafa reglur norskra laga um birtingu skattskráa verið sams konar og á Íslandi þannig að heimilt hefur verið að gefa út skattskrár. Því hefur nú verið breytt, þ.e. með lögum nr. 30/2004 um breytingu á lögum nr. 24/1980 um álagningu skatta. Er nú kveðið á um það í 1. mgr. 3. tölul. greinar 8-8 í þeim lögum að óheimilt sé að afrita skattskrár, þ. á m. með ljósmyndun og notkun rafrænnar tækni.

Tilefni þessarar lagasetningar var sú að um nokkurt skeið höfðu skattskrár í Noregi verið birtar á Netinu allan ársins hring, m.a. af ýmsum stærstu fjölmiðlum landsins. Mátti þar leita upplýsinga um skattgreiðslur allra Norðmanna nokkur ár aftur í tímann eftir nöfnum og póstnúmerum, og um skeið einnig heimilisföngum. Var þetta mjög til umræðu í Noregi og varð niðurstaðan að lokum sú að með þessari netbirtingu væri of nærri gengið friðhelgi einkalífs fólks. Telur Persónuvernd brýnt að komið verði í veg fyrir að sambærileg aðstaða komi upp hér á landi og tekið var á með framangreindri lagasetningu í Noregi.

3.

Með vísan til alls framangreinds telur Persónuvernd frumvarpið samrýmast almennum sjónarmiðum um einkalífsvernd og gerir engar athugasemdir við efni þess.




Var efnið hjálplegt? Nei