Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands

4.3.2007

Hinn 4. mars sl. veitti Persónuvernd sjávarútvegsnefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands

Persónuvernd vísar til bréfs sjávarútvegsnefndar Alþingis, dags. 27. febrúar sl., þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands (þskj. 961, 643. mál, 133. löggjafarþing).

Í 1. gr. frumvarpsins kemur fram að í stað 2.-3. málsl. 3. gr. laga nr. 22/1998 komi fjórir nýir málsliðir. Í ákvæðinu, sem fjallar um erlend skip sem óheimilt er að koma til íslenskra hafna, mun eftirfarandi nýmæli m.a. koma fram:

„Kaupendum afla, svo og umboðsmönnum, útflytjendum, flutningsaðilum, bönkum, lánastofnunum og opinberum stofnunum er skylt að láta sjávarútvegsráðuneytinu eða Fiskistofu í té, ókeypis og í því formi sem þessi stjórnvöld ákveða, allar þær upplýsingar sem unnt er að láta í té og nauðsynlegar eru taldar vegna eftirlits með framkvæmd framangreindra ákvæða".

Persónuvernd hefur nú skoðað frumvarpið út frá sjónarmiðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Varðandi framangreind ummæli í 1. gr. frumvarpsins vill Persónuvernd vekja athygli á því að skylda þeirra aðila, sem taldir eru upp í ákvæðinu, til þess að veita sjávarútvegsráðuneytinu og Fiskistofu upplýsingar er mjög víðtæk og er ekki gerður greinarmunur á eðli upplýsinga eða því hvort um er að ræða persónuupplýsingar í skilningi 1. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000 eða aðrar upplýsingar sem ekki falla undir gildissvið laganna.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að ef unnið er með viðkvæmar persónuupplýsingar skv. 8. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000, eru gerðar miklar kröfur til skýrleika lagaákvæða sem veita heimild til vinnslunnar. Þannig er rétt að benda á að í athugasemdum við 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga á grundvelli sérstakrar lagaheimildar segir m.a.:

„Það ræðst af túlkun viðkomandi lagaákvæðis hvort skilyrðinu er fullnægt. Mat á því hvort lagastoð er fyrir hendi ræðst hverju sinni af skýringu viðkomandi sérlagaákvæðis, en því meiri íhlutun í einkalíf einstaklingsins sem umrædd vinnsla hefur í för með sér þeim mun ótvíræðari þarf lagaheimildin að vera. Skýring slíks ákvæðis ræðst þá m.a. af því hvort löggjafinn hafi í raun tekið tillit til þeirra almennu persónuverndarsjónarmiða sem á reynir við meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga. Verður skilyrði 2. tölul. tæplega talið uppfyllt nema fyrir liggi að löggjafinn hafi skoðað slík sjónarmið en engu síður talið vinnsluna nauðsynlega vegna almannahagsmuna."

Með vísan til framangreinds bendir Persónuvernd á að í 1. gr. frumvarpsins mætti afmarka með skýrari hætti hvaða upplýsingum umræddum aðilum er skylt að afhenda sjávarútvegsráðuneytinu og Fiskistofu, einkum ef fyrirhugað er að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 77/2000.

Að framangreindu undanskildu gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við ákvæði frumvarpsins.




Var efnið hjálplegt? Nei