Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2004 um siglingavernd

21.11.2006

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2004 um siglingavernd

Persónuvernd vísar til bréfs samgöngunefndar, dags. 15. nóvember sl., þar sem óskað er umsagnar Persónuverndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2004 um siglingavernd, 238. mál, EES-reglur (þskj. 241 á 133. löggjafarþingi.)

Í d-lið 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að við 4. gr. laga nr. 50/2004 bætist ný málsgrein, 5. mgr., svohljóðandi:

„Siglingastofnun annast eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Við framkvæmd eftirlits með siglingavernd skal fulltrúum Siglingastofnunar heimill aðgangur að skipum, hafnarsvæðum, mannvirkjum, búnaði, gögnum og skjölum, eftir því sem telja má nauðsynlegt vegna eftirlitsins. Fulltrúar hafna, skipa og útgerða, sem lög þessi og reglur settar samkvæmt þeim taka til, skulu veita stofnuninni þá aðstoð sem þörf er á vegna eftirlits í þágu siglingaverndar. Samgönguráðherra setur nánari reglur um framkvæmd eftirlits í þágu siglingaverndar."

Persónuvernd telur rétt að benda á 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, en þar er kveðið á um að ekki megi gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

Ef fyrirhugað er að veita Siglingastofnun umræddar heimildir án þess að afla þurfi dómsúrskurðar telur Persónuvernd æskilegra að það sé tekið fram berum orðum í ákvæðinu.




Var efnið hjálplegt? Nei