Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um rannsóknarnefnd umferðarslysa

Umsögn til samgöngunefndar Alþingis, dags. 2. desember 2004

2.12.2004

I.
Almennt

Persónuvernd hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um rannsóknarnefnd umferðarslysa (RU), 236. mál., sbr. bréf samgöngunefndar Alþingis dags. 18 nóvember 2004, en þar er gert ráð fyrir allnokkurri vinnslu persónuupplýsinga á vegum nefndarinnar.

Áður en Persónuvernd víkur að sjálfu efni frumvarpsins vill hún vekja athygli á því að nú þegar á sér stað á Íslandi verulega umfangsmikil skráning slysa. Er málum nú svo háttað að sama slysið kann að vera skráð á fjölmörgum stöðum, á sjúkrahúsum, hjá tryggingafélögum, Umferðarstofu, lögreglu, landlækni, Neyðarlínu, Lýðheilsustöð, Rannsóknarnefnd umferðarslysa og víðar. Yfirsýn yfir þessa skráningu liggur ekki fyrir - en hún er forsenda þess að unnt sé bæði að ná fram hagkvæmni og að virða meginsjónarmið löggjafar um meðferð persónuupplýsinga. Er þá m.a. vísað til meginreglna 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þ. á m. um að ekki sé gengið lengra í vinnslu þeirra en nauðsynlegt er, að aðeins séu skráðar nægilegar og viðeigandi upplýsingar og að vinnslan sé vönduð og áreiðanleg.

Í framangreindri meginreglu felst m.a. að vinnsla persónuupplýsinga skuli ekki vera á hendi fleiri aðila en nauðsyn ber til, en sem dæmi má nefna að fyrirhuguð vinnsla RU samkvæmt frumvarpinu fellur að miklu leyti saman við vinnslu Umferðarstofu skv. h-lið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 50/1987.

Að mati Persónuverndar er umhugsunarvert hvort ekki beri, áður en kemur að lagasetningu um einn af þessum skráningaraðilum, í þessi tilviki Rannsóknarnefnd umferðarslysa, að fá yfirsýn yfir slysaskráningu hér á landi með framangreind sjónarmið í huga.

II.
Efnislegar athugasemdir um frumvarp til laga
um rannsóknarnefnd umferðarslysa, 236. mál.


Efnislegar athugasemdir Persónuverndar við framangreint frumvarp eru hins vegar þessar:

1. Afmarka þarf stjórnsýsluhlutverk RU nægilega skýrt til þess að af megi ráða hvaða upplýsingar nákvæmlega hún þarf til að geta sinnt því hlutverki.

2. Í 10. gr. frumvarpsins segir að "rannsóknarnefnd umferðarslysa [sé] heimilt við rannsókn mála að leita eftir upplýsingum varðandi ökutæki, ökumenn, farþega, vitni og annað sem kann að skipta máli varðandi rannsóknina." Ekki er tekið fram hvort upplýsingarnar eigi að berast RU með persónuauðkennum og þá hvaða. Það þarf að koma fram.

3. Þá er nauðsynlegt, sé hugmyndin sú að RU fá í hendur viðkvæmar persónuupplýsingar, eins og þær eru skilgreindar í lögum nr. 77/2000, að það komi skýrt fram og þá hvaða upplýsingar.

Nægja ekki þær óljósu ályktanir sem draga má af ákvæði 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þagnarskylda nefndarmanna og starfsliðs hennar nái "til hvers konar upplýsinga um einkahagi manna og annarra upplýsinga sem leynt eiga að fara vegna lögmætra einka- og almannahagsmuna", né skilgreining 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins um að til trúnaðargagna, sem nefndinni er óheimilt að veita aðgang að, teljist m.a. heilsufarsupplýsingar.

Samkvæmt lögum nr. 77/2000 verður öll vinnsla persónuupplýsinga að eiga sér lagastoð samkvæmt einhverju af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laganna, sbr. og einhverju af skilyrðum 1. mgr. 9. gr. þeirra ef um er að ræða vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 9. gr. er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga heimil standi til hennar sérstök heimild samkvæmt í öðrum lögum.

Við mat á því hvort slík sérlagaákvæði uppfylli skilyrði 2. tl. 1. mgr. 9. gr. verður að horfa til athugasemda í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því sem varð að lögum nr. 77/2000, en þar segir: "Mat á því hvort lagastoð er fyrir hendi ræðst hverju sinni af skýringu viðkomandi sérlagaákvæðis, en því meiri íhlutun í einkalíf einstaklingsins sem umrædd vinnsla hefur í för með sér þeim mun ótvíræðari þarf lagaheimildin að vera. Skýring slíks ákvæðis ræðst þá m.a. af því hvort löggjafinn hafi í raun tekið tillit til þeirra almennu persónuverndarsjónarmiða sem á reynir við meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga. Verður skilyrði 2. tölul. tæplega talið uppfyllt nema fyrir liggi að löggjafinn hafi skoðað slík sjónarmið en engu síður talið vinnsluna nauðsynlega vegna almannahagsmuna."

Með vísun til framangreinds, og þeirra sjónarmiða sem fram koma í dómi Hæstaréttar í máli nr. 151/2003, þarf lagaákvæði sem heimilar ábyrgðaraðila tiltekna vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga að vera afar skýrt. T.d. þarf að koma fram hvort og þá að hvaða marki heimildir standi til vinnslu með sjúkra- og krufningarskýrslur og, sé við það miðað að þau berist nefndinni á persónugreinanlegu formi, þarf að koma fram hvenær þau skuli gerð ópersónugreinanleg.





Var efnið hjálplegt? Nei