Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála (símhleranir)

Umsögn til allsherjarnefndar Alþingis, dags. 28. apríl 2004

28.4.2004

Persónuvernd hefur borist beiðni allsherjarnefndar Alþingis um umsögn um frumvarp til breytingar á lögum um meðferð opinberra mála, 871. mál.
Persónuvernd hefur kynnt sér efni umrædds frumvarps og gerir engar athugasemdir við önnur ákvæði en 6. gr. þar sem lagt er til að á eftir 2. mgr. 87. gr. oml. komi ný málsgrein þar sem gert er ráð fyrir að sé brýn hætta á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum geti handhafi ákæruvalds ákveðið að aðgerðir skv. 86. gr. hefjist án dómsúrskurðar. Hann skuli þó bera ákvörðunina eins fljótt og auðið er undir úrskurð dómara og ekki síðar en innan sólarhrings frá því að ákvörðunin var tekin.

Persónuvernd minnir á að friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu er vernduð af 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en hann hefur lagagildi hér á landi, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Má ekki gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns. Þá er í 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans mælt fyrir um að sérhver maður eigi rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta, sbr. að í 2. mgr. er hnykkt á því að opinber stjórnvöld skuli ekki ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi. Í samræmi við framangreint hafa heimildir til símhlerana samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála verið háðar undanfarandi dómsúrskurði nema sá sem í hlut hafi átt hafi gefið samþykki sitt.

6. grein frumvarpsins gerir ráð fyrir mikilli skerðingu á friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu þar sem þar er gert ráð fyrir að löggæsluyfirvöld geti t.d. fengið hljóðritanir í hendur án þess að til þess standi úrskurður dómara. Áður en slíkt ákvæði er lögfest þarf að meta til hlítar hvort raunverulega sé þörf á slíkri réttindaskerðingu. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að íslenska dómskerfið er eitt það skilvirkasta í heimi. Færa verður því brýn rök þeim breytingum sem lagðar eru til.

Verði það hins vegar mat þingmanna að þörf sé á lagabreytingu telur Persónuvernd nauðsynlegt að kanna hvort ekki megi ná þeim markmiðum sem að er stefnt með annarri og vægari aðferð. Eftir lauslega athugun á þessu telur Persónuvernd að kanna þurfi hvort t.d. mætti orða ákvæðið eitthvað á þessa leið:

"Ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum getur handhafi ákæruvalds ákveðið að aðgerðir skv. a, b og c lið 86. gr. hefjist án dómsúrskurðar. Hann skal bera ákvörðunina eins fljótt og auðið er undir úrskurð dómara og ekki síðar en innan sólarhrings frá því að ákvörðunin var tekin og gildir þá einu þótt aðgerðinni hafi verið hætt. Því síma- eða fjarskiptafyrirtæki sem framkvæmt hefur slíka aðgerð í samræmi við ákvörðun handhafa ákæruvalds er þó óheimilt að afhenda umrædd gögn fyrr en úrskurður dómara liggur fyrir. Ef dómari kemst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi átt að hefja umrædda aðgerð skal fyrirtækið eyða gögnunum. Sama á við um gögn sem fyrirtækið hefur safnað ef handhafi ákæruvalds framvísar ekki, innan 5 daga, dómsúrskurði sem heimilar honum móttöku gagnanna."

Framangreind tillaga er í samræmi við almenn sjónarmið um meðalhóf, þ.e. að aldrei skuli ganga lengra en þörf krefur til að ná settu marki. Hún tryggir bæði að hindra megi tjón á rannsóknarhagsmunum og sakarspjöll, s.s. ef rannsóknartækifæri glatast, en tryggir einstaklingum jafnframt áfram sambærileg réttindi og þeir hafa notið samkvæmt umræddum ákvæðum laga um meðferð opinberra mála.



Var efnið hjálplegt? Nei