Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um Póst- og fjarskiptastofnun (eftirlit Persónuverndar)

Umsögn til samgöngunefndar Alþingis, dags. 26. febrúar 2003

26.2.2003

Persónuvernd hefur borist beiðni Alþingis um umsögn um frumvarp til laga um Póst- og fjarskiptastofnun, dags. 18. þ.m. Þau ákvæði frumvarpsins, sem varða vernd persónuupplýsinga, eru c-liður 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. um að Póst- og fjarskiptastofnun skuli vinna að ráðstöfunum til að vernda persónuupplýsingar og friðhelgi einkalífs; 7. mgr. 5. gr. um heimild stofnunarinnar til athugana á starfsstöðvum fjarskiptafyrirtækja og til að leggja þá meðal annars hald á gögn, en í þeim gætu verið persónupplýsingar; og 2. og 4.–7. mgr. 8. gr., en þar er fjallað um þagnarskyldu starsmanna stofnunarinnar og heimildir til að víkja frá henni. Persónuvernd telur ekki ástæðu til að gera efnislegar athugasemdir við þessi ákvæði. Hins vegar telur hún rétt að vekja athygli á því að í frumvarpinu er ekki að finna ákvæði um hver mörk valdsviðs Póst- og fjarskiptastofnunar og Persónuverndar skuli vera. Á þau valdmörk getur þó oft reynt þar sem í lögum um fjarskipti, sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. núgildandi laga um stofnunina nr. 110/1999 og 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins, er að finna ýmsar reglur um vernd persónuupplýsinga. Í frumvarpi til nýrra laga um fjarskipti, sem nú er fyrir Alþingi, er einnig að finna slíkar reglur.


Persónuvernd leggur til þá lausn á þessum vanda að við 3. gr. frumvarpsins bætist ný 3. mgr. (og núverandi 3. mgr. verði þá 4. mgr.) sem verði svohljóðandi:

Persónuvernd skal hafa eftirlit með að farið sé eftir ákvæðum IX. kafla laga um fjarskipti nema annað sé tekið þar sérstaklega fram. Skal afla umsagnar Persónuverndar við setningu reglugerðar samkvæmt 4. mgr. 38. gr. þeirra laga um meðferð upplýsinga sem nauðsynlegar eru fyrir gerð reikninga, sundurliðun þeirra og málsmeðferð vegna kvartana; skilmála samkvæmt 4. mgr. 45. gr. sömu laga um afhendingu símaskrárupplýsinga; og reglna samkvæmt 51. gr. laganna um fyrirkomulag númerabirtingar. Persónuvernd hefur, í samræmi við hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, eftirlit með öryggi persónuupplýsinga varðandi fjarskipti, m.a. að því er varðar eftirlit með vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við reikningagerð og númerabirtingu.





Var efnið hjálplegt? Nei