Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti (öflun verðbréfafyrirtækja á upplýsingum um viðskiptavini)

Umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, dags. 18. febrúar 2003

18.2.2003

Persónuvernd hefur borist bréf efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, dags. 13. þ.m., þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um 5. gr. frumvarps til laga um verðbréfaviðskipti, sérstaklega um 2. málsl. 1. mgr. Ákvæði 2.–4. mgr. varða ekki vinnslu persónuupplýsinga og veitir Persónuvernd því ekki umsögn um þau. Í 1. mgr. er hins vegar ákvæði sem rétt er að gera athugasemdir við. Þar segir, í 1.–3. málsl.:

Fjármálafyrirtæki skal afla sér upplýsinga hjá viðskiptavinum sínum um þekkingu og reynslu þeirra í verðbréfaviðskiptum og markmið þeirra með fyrirhugaðri fjárfestingu, eftir því sem máli skiptir vegna þjónustunnar sem óskað er eftir. Enn fremur skal fjármálafyrirtæki afla sér upplýsinga um fjárhagsstöðu þeirra viðskiptavina sem eru í viðvarandi viðskiptasambandi við fjármálafyrirtækið. Í ljósi þessa skal fjármálafyrirtæki veita viðskiptavinum greinargóðar upplýsingar, m.a. um þá fjárfestingarkosti sem þeim standa til boða.


Tilgangurinn með þessum ákvæðum er, eftir því sem ráða má af athugasemdum greinargerðar með frumvarpinu, að tryggja að viðskiptavinum fjármálafyrirtækja verði veitt ítarleg ráðgjöf um þá áhættu sem fylgir mismunandi fjárfestingarkostum, hvaða fjárfestingarkostir telja má að henti þeim best í ljósi markmiða þeirra með verðbréfaviðskiptum o.s.frv. Persónuvernd telur að þetta sé málefnalegur tilgangur og fái því samrýmst þeirri skuldbindingu sem fram kemur í b-lið 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 95/46/EB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, að persónuupplýsingar skuli fengnar með skýrt tilgreindum og lögmætum markmiðum.


Persónuvernd telur einnig mikilvægt að betrumbæta ákvæði 1. mgr. 5. gr. Eðlileg meginregla í verðbréfaviðskiptum hlýtur að vera sú að það sé komið undir kaupandanum sjálfum hvaða upplýsingar hann veitir um sig og hverjar ekki, enda beri hann áhættuna af afleiðingum þess að veita ekki tilteknar upplýsingar. Eðlilegt er því að öll upplýsingaöflun verðbréfafyrirtækja vegna ráðgjafar við hinn skráða fari fram með ótvíræðu og upplýstu samþykki hans. Þetta fyrirkomulag samrýmist best því grundvallarsjónarmiði allrar löggjafar um vernd persónuupplýsinga, að hinn skráði hafi eins mikla stjórn á upplýsingum um sig og frekast er kostur, þ.e. hvar þær eru skráðar, hvert þeim er miðlað o.s.frv.


Persónuvernd telur óæskilegt að fyrirskipa með lögum að annar aðili viðskiptasambands skuli safna persónuupplýsingum um hinn - og jafnvel ekki veita honum umbeðna þjónustu nema slíkar upplýsingar séu veittar. Nauðsynlegt er að hvaða aðili sem er, hvort sem um er að ræða fjármálafyrirtæki eða annað, meti það sjálfur hvort hann ákveður að eiga tiltekin viðskipti, óháð því hve miklar persónuupplýsingar hann hefur um viðsemjandann, enda kynnu sum fyrirtæki að vilja eiga verðbréfaviðskipti án tiltekinna persónuupplýsinga. Höfuðatriðið hlýtur að vera að viðskiptavinur sé upplýstur um hvaða upplýsingar nauðsynlegt eða æskilegt sé að veita og hvaða afleiðingar það getur haft veiti hann þær ekki.


Í ljósi ofangreinds leggur Persónuvernd það til að í 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins verði bætt við ákvæði um að samþykki viðskiptavinar þurfi fyrir öflun upplýsinga um fjárhagsmálefni hans. Einnig leggur Persónuvernd það til að í stað þess að kveða á um að fjármálafyrirtæki skuli afla ákveðinna upplýsinga verði kveðið á um að þau skuli ráðleggja viðskiptavinum um hvaða upplýsingar þeir þurfi að veita, mikilvægi þess að þær séu veittar og hugsanlegar afleiðingar þess að þær skorti.





Var efnið hjálplegt? Nei