Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um birtingu laga og stjórnvaldaerinda (rafræn útgáfa Lögbirtingablaðsins)

Umsögn til allsherjarnefndar Alþingis, dags. 9. desember 2002

9.12.2002

Persónuvernd hefur borist erindi Alþingis, dags. 27. nóvember sl., þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldaerinda. Samkvæmt frumvarpinu á að afleggja hina hefðbundnu, prentuðu útgáfu Lögbirtingablaðsins. Framvegis verði það birt á internetinu en hægt verði að kaupa útprentanir þaðan. Í niðurlagi athugasemda með frumvarpinu segir: "Einnig er gert ráð fyrir að gætt verði persónuverndar við útgáfuna þannig að hindruð verði, eftir því sem mögulegt er, kerfisbundin leit í blaðinu eftir nöfnum eða kennitölum einstaklinga. Sama á við um lögpersónur." Persónuvernd gerir þessi orð að sínum og bætir við að upplýsingar um einstaklinga mega ekki vera aðgengilegar á internetinu lengur en þörf krefur, sbr. þær reglur sem birtast í 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og 6. gr. tilskipunar nr. 95/46/EB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Þá er ekki æskilegt að nálgast megi upplýsingar um lögaðila lengur en nauðsyn ber til. Má í þessu sambandi nefna að í reglugerð nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, sem sett er með stoð í 45. gr. laga nr. 77/2000, er að finna ýmis ákvæði sem binda birtingu upplýsinga um fjárhagsmálefni lögaðila ýmsum takmörkunum, m.a. um hversu lengi þær mega vera skráðar. Þannig hefur birst sá vilji löggjafar- og framkvæmdarvalds að upplýsingar um lögaðila skuli njóta verndar hvað þetta varðar.


Ætla verður að tilgangurinn með birtingu upplýsinga í Lögbirtingablaðinu sé sá að tilkynna almenningi ýmsar stjórnvalds- og dómsathafnir, löggerninga og annað því um líkt, sbr. 3. gr. laga nr. 64/1943, þannig að mönnum sé kunnugt um að ákveðin stjórnvaldsathöfn sé fyrirhuguð eða að ákveðinn löggerningur hafi verið gerður o.s.frv. þannig að þeir geti, svo dæmi sé tekið, náð fram lögmætum hagsmunum þegar stjórnvaldsathöfnin fer fram eða á meðan löggerningur er í gildi. Hins vegar verður ekki talið að tilgangurinn með birtingu upplýsinga í Lögbirtingablaðinu sé sá að gera mönnum kleift að kanna "sögu" tiltekinna einstaklinga eða lögaðila og að unnt verði með einni aðgerð að kalla fram upplýsingar um allar stjórnvaldsathafnir þeim tengdum eða löggerninga sem þeir hafa gert eftir að athafnirnar hafa farið fram eða löggerningarnir fallið úr gildi.


Í þessu sambandi verður að líta til þess að í Lögbirtingablaðinu er birt mikið af upplýsingum sem eingöngu hafa gildi í skamman tíma. Þegar nauðungarsölu er lokið, svo dæmi sé tekið, hefur skráningin um hana ekki lengur það gildi sem hún upphaflega hafði. Sumar af þeim upplýsingum, sem birtar eru, geta haft gildi um langan tíma, en þó kemur að því að þær hætta að þjóna hlutverki sínu. Sem dæmi um það má nefna upplýsingar um kaupmála hjóna eftir að þau hafa skilið lögskilnaði.


Með vísan til alls framangreinds leggur Persónuvernd áherslu á að möguleikar til leitar að persónuupplýsingum í netútgáfu Lögbirtingablaðsins skuli vera takmarkaðir, einkum þegar um er að ræða upplýsingar sem ekki gegna lengur því hlutverki sem þær höfðu við skráningu. Engu að síður má hugsa sér að þær verði áfram varðveittar, enda geta þær við vissar aðstæður haft gildi, t.d. við sönnun í dómsmáli, en að aðgangur áskrifenda að þeim verði einungis leyfður að fullnægðum skýrt skilgreindum skilyrðum. Hafa verður í huga að Lögbirtingablaðinu er ekki ætlað að þjóna hlutverki "vanskilaskrár". Um slíkar skrár fer eftir 45. gr. laga nr. 77/2000 og reglugerð nr. 246/2001. Þar er reynt að tryggja að skráning á fjárhagsmálefnum einstaklinga og lögaðila sé sanngjörn og málefnaleg, og er þannig reynt að finna hæfilegt jafnvægi á milli þeirra viðskiptahagsmuna, sem eru af því að fá aðgang að fjárhagsupplýsingum, og hagsmuna einstaklinga og lögaðila af að upplýsingar um þá njóti verndar. Vandséð er hvernig tryggja má slíkt ef Lögbirtingablaðið kemur með einhverju móti til með að leysa af hólmi hefðbundnar "vanskilaskrár" sem einungis er heimilt að halda að fullnægðum ströngum skilmálum.





Var efnið hjálplegt? Nei