Umsagnir

Umsögn um ósk Bændasamtakanna um að í lögum um búnaðargjald verði kveðið á um að ríkisskattstjóri láti samtökunum í té skrá um greiðendur gjaldsins

Umsögn til landbúnaðarnefndar Alþingis, dags. 25. nóvember 2002

25.11.2002

Persónuvernd hefur borist bréf Alþingis, dags. 15. þ.m., ásamt fylgiskjölum, þ.e. afriti af bréfi Bændasamtaka Íslands til þingsins, dags. 1. þ.m., og afriti af bréfi Tölvunefndar til Bændasamtakanna, dags. 31. október 2000. Í bréfi yðar er beiðst umsagnar um þá ósk Bændasamtakanna að í lögum nr. 84/1997 um búnaðargjald verði kveðið á um að ríkisskattstjóri láti samtökunum í té skrá um greiðendur gjaldsins, en í bréfi Tölvunefndar til Bændasamtakanna kom fram sá skilningur nefndarinnar að samtökin hefðu rétt "til aðgangs að "álagningarskrá" og "skattskrá" búnaðargjalds eftir ákvæðum 98. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt eftir því sem við [gæti] átt." Þessi niðurstaða byggðist á 2. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem heimiluð er "opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta, sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta", og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 84/1997 þar sem segir að um álagningu búnaðargjalds gildi ákvæði X. kafla laga nr. 75/1981, en þar er meðal annars 98. gr.

I.

Í bréfi Bændasamtaka Íslands til þingsins, dags. 1. þ.m., segir meðal annars:


Loks óska Bændasamtökin eftir því að í lögin verði sett ákvæði sem taki af vafa um það, að Bændasamtök Íslands geti haft aðgang að álagningarskrá búnaðargjalds eða a.m.k. skrá yfir greiðendur gjaldsins, þar sem fram kemur af hvaða búgreinum þeir greiða. Tölvunefnd úrskurðaði á sínum tíma, sbr. meðfylgjandi afrit af bréfi, að samtökin ættu rétt til aðgangs að álagningarskrá og skattskrá búnaðargjalds, en embætti ríkisskattstjóra hefur talið óvarlegt að láta þessar skrár af hendi.

Við höfum átt gott samstarf við ríkisskattstjóra um þessi málefni, en beinn aðgangur að skránni væri til mikils hagræðis. Því má ekki gleyma, að hér er um að ræða gjöld bænda til samtaka sinna á lands- og héraðavísu, auk gjalda til Lánasjóðs landbúnaðarins og Bjargráðasjóðs. Það er óeðlilegt, að félagasamtök viti ekki hverjir greiða til þeirra; þá hafa samtökin kunnugleika til að leiðrétta mistök í skiptingu á milli búgreina og búnaðarsambanda og tryggja þannig sem besta framkvæmd.

Um það er enginn ágreiningur við RSK. Loks eru viss réttindi tengd greiðslu búnaðargjalds, s.s. fyrirgreiðsla úr Bjargráðasjóði.


Það er tillaga Bændasamtakanna, að á eftir 4. málsgrein 5. greinar laganna komi inn nýtt ákvæði er verði 5. málsgrein 5. greinar og hljóði svo:
"Að lokinni álagningu ár hvert skal Ríkisskattstjóri láta Bændasamtökum Íslands í té skrá um greiðendur búnaðargjalds eftir sveitarfélögum, þar sem fram komi af hvaða búgreinum hver og einn hefur greitt."

II.

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 84/1997 kemur fram að hluti búnaðargjalds rennur til Bændasamtaka Íslands. Við mat á því hvort það gefi tilefni til þess að Bændasamtökin viti hverjir greiðendur gjaldsins eru verður að hafa í huga að það hvort greitt er búnaðargjald fer eftir því hvort greiðandinn stundar ákveðna búgrein en ekki því hvort hann er félagi í Bændasamtökunum, en félagsaðild að samtökunum er frjáls. Í raun telst búnaðargjald því vera skattur en ekki félagsgjald. Er innheimta gjaldsins í höndum ríkissjóðs en ekki Bændasamtakanna. Þar af leiðandi verður ekki séð að samtökin hafi af því fjárhagslega hagsmuni að vita hverjir greiðendurnir eru.


Þá er að líta til þess hvort Bændasamtökin hafi einhverja aðra lögmæta hagsmuni en fjárhagslega af því að fá lista yfir greiðendur búnaðargjalds. Í bréfi samtakanna, dags. 1. þ.m., er vísað til að samtökin hafi átt samstarf við ríkisskattstjóra um málefni tengd búnaðargjaldi en í því sambandi verður hins vegar að líta til þess að ríkisskattstjóri hefur það lögboðna hlutverk að innheimta búnaðargjald en ekki Bændasamtökin. Í búnaðarlögum nr. 70/1998 og öðrum lögum, t.d. jarðalögum nr. 65/1976, eru samtökunum reyndar fengin ýmis verkefni í hendur en hvorki í þeim lögum né öðrum lögum er gert ráð fyrir heimild til þess að fela megi samtökunum vald til innheimtu búnaðargjalds.


Rök Bændasamtakanna eru þau að samtökin hafi þá þekkingu sem þarf til að leiðrétta mistök í skiptingu milli búgreina og búnaðarsambanda og tryggja sem besta framkvæmd. Einnig hafi samtökin hagsmuni af því að fá að vita hverjir stunda búrekstur vegna ýmissa verkefna, ma. við að uppfylla hlutverk sitt :

a. skv. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, en þar er lagt fyrir Bændasamtökin að halda skrá yfir handhafa greiðslumarks sauðfjárafurða og handhafa beingreiðslna samkvæmt því.

b. skv. 1. mgr. 53. gr. um handhafa greiðslumarks mjólkur, en í 3. mgr. segir að greiðslumark falli niður sé það ekki nýtt til framleiðslu að neinu leyti í full tvö ár, enda hafi Bændasamtökin tilkynnt eiganda lögbýlis um rétt til sölu eða geymslu greiðslumarksins.

c. skv. 2. mgr. 59. gr. en þar er landbúnaðarráðherra heimilað að fela Bændasamtökunum að halda skrá yfir rétthafa beingreiðslna fyrir garð- og gróðurhúsaafurðir.

d. skv. lögum nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl. en þar eru ýmis ákvæði um hlutverk Bændasamtakanna við búfjáreftirlit þótt eftirlitið sjálft sé á ábyrgð sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 10. gr. og 4. gr. sömu laga þar sem kveðið er á um að sveitarstjórn skuldi halda skrá yfir alla þá sem halda búfé. Hins vegar eru eyðublöð fyrir búfjáreftirlitsskýrslur gerð af Bændasamtökunum og eru skýrslurnar sendar þeim til úrvinnslu.

III.

Í 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsingar er kveðið á um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti. Í 2. tölul. er kveðið á um að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi. Og í 3. tölul. er kveðið á um að þær skuli vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað tilgang vinnslu. Þessi ákvæði eiga rót sína að rekja til 1.–3. tölul. 1. mgr. 6. gr. tilsk. 95/46/EB og fela í sér að til að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil þurfi hennar að vera þörf vegna einhverra málefnalegra og lögmætra hagsmuna. Að virtum framangreindum ákvæðum, og því að Persónuvernd telur, í ljósi hinna margþættu verkefna sem Bændasamtökunum eru falin með lögum, og hér hafa ekki verið tæmandi talin, að samtökin geti haft lögmæta hagsmuni af aðgangi að skrá yfir greiðendur búnaðargjalds óháð því hvort þeir séu félagar í samtökunum, leggst Persónuvernd ekki gegn því að Bændasamtökunum verði veittur umræddum aðgangur enda verði hann bundinn eftirfarandi takmörkunum:

1. Að samtökunum verði einungis veittar upplýsingar um hverjir greiðendurnir séu en ekki hversu mikið þeir greiða.

2. Að nákvæmlega verði tilgreint í hvaða tilgangi samtökin megi nota upplýsingarnar og að þau megi ekki vinna þær frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi.

3. Að einstökum greiðendum verði heimilt að andmæla því að nöfn þeirra birtist á þeim listum sem Bændasamtökin fá í hendur, enda hafi viðkomandi greiðandi til þess lögmætar ástæður vegna sérstakra aðstæðna sinna og að eigi andmælin rétt á sér sé samtökunuma óheimil frekari vinnsla umræddra upplýsinga.





Var efnið hjálplegt? Nei