Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um rafeyrisfyrirtæki (heimildir Fjármálaeftirlitsins til upplýsingaöflunar)

Umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar, dags. 8. mars 2002

8.3.2002

Vísað er til erindis yðar til Persónuverndar, dags. 22. febrúar 2002, þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um rafeyrisfyrirtæki, 454. mál, EES reglur.

Farið hefur verið yfir frumvarpið með hliðsjón af 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, nr. 33/1944, lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 með áorðnum breytingum og forskrift Evrópusambandsins nr. 95/46/EB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga.


Í 15. gr. frumvarpsins er fjallað um eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar er gert ráð fyrir að stofnunin geti krafist "hvers konar gagna og upplýsinga" frá "einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða hyggjast eignast eða fara með eignarhlut í rafeyrisfyrirtæki". Samkvæmt ákvæðinu má krefjast þessara gagna "í því skyni að meta hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu skv. 12. gr. [frumvarpsins], sbr. 10. gr. laga um viðskipabanka og sparisjóði, og hvort þeir teljast hæfir til að fara með virkan eignarhlut." Í umræddri 10. gr. laga nr. 113/1996 segir m.a. að aðilar sem hyggist "eignast virkan hluta í viðskiptabanka skulu leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir fram." Skulu þeir beina skriflegri umsókn til Fjármálaeftirlitsins og skulu umsókninni fylgja upplýsingar sem tilgreindar eru í 4. mgr. 10. gr. laganna. Í 1.-10. tl. þess ákvæðis eru svo taldar upp ýmiss konar persónuupplýsingar sem umsækjendum ber að veita. Í 11. tl. segir loks að umsókn skuli fylgja aðrar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið fer fram á "og máli skipta við mat á hæfi eigenda virkra eignarhluta".


Með hliðsjón af framanrituðu telur Persónuvernd að æskilegra væri að tilgreining 2. mgr. 15. gr. frumvarpsins, á þeim gögnum sem Fjármálaeftirlitið getur krafist samkvæmt ákvæðinu, væri á sama veg og í 4. mgr. 10. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. M.ö.o. leyfir Persónuvernd sér að leggja til að 1. ml. 2. mgr. 15. gr. frv. orðist svo: "Fjármálaeftirlitið getur krafist þeirra gagna og upplýsinga, sem máli skipta, frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða hyggjast eignast eða fara með eignarhlut í rafeyrisfyrirtæki í því skyni að meta hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu skv. 12. gr. laga þessara, sbr. 10. gr. laga um viðskipabanka og sparisjóði, og hvort þeir teljast hæfir til að fara með virkan eignarhlut."


Telur stofnunin að svo breytt verði ákvæðið skýrara en ella og síður líklegt að í framkvæmd rísi ágreiningur um efni ákvæðisins eða beitingu þess.



Með hliðsjón af verksviði Persónuverndar er umsögn þessi takmörkuð við þau atriði er lúta að meðferð persónuupplýsinga.





Var efnið hjálplegt? Nei