Umsagnir

Umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar o.fl.

Umsögn til heilbrigðis- og tryggingarnefndar Alþingis, dags. 20. febrúar 2002

20.2.2002


Persónuvernd vísar til beiðni, dags. 7. febrúar þ.m., um umsögn um frumvarp til laga, mál nr. 359, um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, með síðari breytingum, lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum, lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum og sóttvarnarlögum, nr. 19/1997, með síðari breytingum.

Farið hefur verið yfir frumvarpið með hliðsjón af 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, nr. 33/1944, lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 með áorðnum breytingum og tilskipun Evrópusambandsins nr. 95/46/EB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga.


Persónuvernd gerir athugasemdir við 17. gr. frumvarpsins. Þar er lagt til að Tryggingastofnun ríkisins (TR) fái, án samþykkis hlutaðeigandi, að afla upplýsinga um tekjur þeirra, jafnt umsækjanda og sem bótaþega og eftir atvikum maka þeirra. Samkvæmt ákvæðinu verður TR heimilt að sækja upplýsingar um tekjur til skattayfirvalda, um greiðslur lífeyrissjóða, Atvinnuleysistryggingasjóði og hjá sambærilegum sjóðum erlendis. Ef um hjón er að ræða er ráðgert að TR megi afla upplýsinga um tekjur maka og greiðslur til hans hjá sömu aðilum.


Að mati Persónuverndar er slík heimild TR til öflunar upplýsinga um tekjur umsækjanda og bótaþega sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. 17. gr. frumvarpsins alltof víðtæk og opin.


Löggjafinn hefur engan veginn frjálsar hendur um það, hvernig hann hagar lagasetningu um þessi málefni. Þróun seinni ára, sbr. stjórnskipunarlög nr. 97/1995, til breytingar á stjórnarskránni og lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr.77/2000, hefur hnigið í þá átt að auka einkalífsvernd. Til þess að sá réttur hafi raunverulegt gildi verður að gera þá kröfu til löggjafans að einkalífsrétturinn sé virtur, þannig að bæði við setningu nýrra laga eða þegar lögum er breytt þess sé ekki á hann gengið, nema alveg brýna nauðsyn beri til. Löggjafinn er í öðru lagi bundinn af alþjóðlegum skuldbindingum, sem Íslendingar hafa undirgengist á þessu réttarsviði á undanförnum árum, þ. á m. tilskipun 95/46/EB, um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Markmið tilskipunarinnar er að tryggja samræmdar reglur og samræmda persónuvernd í öllum aðildarríkjum ESB. Ákvörðun Íslands um að fella þessa tilskipun undir EES samninginn þýðir að lög um meðferð persónupplýsinga, hvort heldur er almenn lög eða sérlög, þurfa að vera í samræmi við efnisákvæði tilskipunarinnar. Með setningu laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, voru sett almenn lög til verndar einkalífi einstaklinga. Önnur lög, líkt og þau sem hér eru til umfjöllunar, þurfa og að vera í samræmi við umrædda tilskipun.


Innan þess ramma sem tilskipunin setur er einstökum aðildarríkjum heimilt að setja strangari reglur sem tryggja meiri vernd en leiðir af ákvæðum tilskipunarinnar. Fer það eftir einstökum ákvæðum hennar að hvaða marki heimilt er í löggjöf einstakra ríkja að mæla fyrir um meiri vernd en tilskipunin sjálf gerir ráð fyrir.


Hvorki verður séð að brýn nauðsyn né almannahagsmunir kalli á slíka breytingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði á 17. gr. laganna. Eins og málum er fyrirkomið í dag þá veitir umsækjandi TR heimild til að kanna tekjur hans hjá skattyfirvöldum auk þess sem hann heitir því að láta TR vita ef breytingar verða á aðstæðum svo sem hjúskaparstöðu, fjölskyldustærð, heimilisfangi eða tekjum. Slík samþykkisyfirlýsing er í samræmi við grunnhugmynd laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuuplýsinga, að heimilt sé að afla og vinna með persónuplýsingar ef hinn skráði hefur veitt til þess samþykki sitt.


Efni frumvarpsins fer gegn þessu. Að mati Persónuverndar er hér of langt seilst. Því er lagt til að þessi grein verði felld brott úr frumvarpinu og þau úrræði sem TR hefur í dag verði látinn duga. Má benda á 50. gr. núgildandi laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, segir að hafi bótaþega verið greiddar hærri bætur en honum vera bar öðlist Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur honum eftir almennum reglum. Má og draga upphæðina frá bótum sem bótaþegi síðar kynni að öðlast rétt til


Til vara er lagt til að 2. mgr. 17. gr. verði breytt á eftirfarandi veg:


"Umsækjanda og bótaþega er skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Einnig er maka umsækjanda eða bótaþega skylt að veita upplýsingar um sig ef þær kunna að hafa áhrif á fjárhæð bóta. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki hins skráða, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur þeirra hjá skattayfirvöldum, greiðslur til umsækjanda og bótaþega hjá lífeyrissjóðum, hjá Atvinnuleysistryggingasjóði í Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis þegar það á við með rafrænum hætti eða á annan hátt. Þegar um hjón er að ræða er Tryggingastofnun heimilt, að fengnu skriflegu samþykki beggja, að afla upplýsinga um tekjur maka og greiðslur til hans hjá framangreindum aðilum ef þær gætu haft áhrif á fjárhæð bóta. Telji umsækjandi, bótaþegi eða maki upplýsingar frá þessum aðilum ekki réttar skal hann leggja fram gögn því til staðfestingar. Umsækjanda og bótaþega er skylt að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um breytingar á tekjum sem verða á yfirstandandi tekjuári. Ef gefnar eru rangar upplýsingar skal beita ákæðum 50. gr."





Var efnið hjálplegt? Nei