Umsagnir

Umsögn um frumvarp til barnaverndarlaga

Umsögn til félagsmálanefndar Alþingis, dags. 24. apríl 2001

24.4.2001

Vísað er til frumvarps til barnaverndarlaga, sem er mál nr. 572 á yfirstandandi löggjafarþingi, en það mun vera til meðferðar félagsmálanefndar.

Í samræmi við 6. tl. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga hefur Persónuvernd ákveðið að koma á framfæri við nefndina eftirfarandi athugasemdum við efni 36. gr. frumvarpsins:

Annars vegar skal bent á að í 4. mgr. er miklum fjölda vinnuveitenda veitt skilyrðislaus heimild til að kalla eftir nánar tilteknum upplýsingum beint úr sakaskrám umsækjenda um störf hjá þeim, án samþykkis viðkomandi umsækjenda. Ná má sama markmiði með því að umræddir vinnuveitendur geri framvísun sakavottorðs að skilyrði við starfsumsóknir og verður ekki séð að þessi víðtæka heimild atvinnurekenda til söfnunar upplýsinga þjóni sérstökum tilgangi sem ekki verður náð með öðrum ráðum. Telja verður að ákvæðið brjóti í bága við grundvallarsjónarmið um friðhelgi einkalífs og vernd persónuupplýsinga. Þá má draga í efa samkvæmt framansögðu að ákvæðið uppfylli skilyrði 2. sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands þar sem hinu yfirlýsta markmiði verður augljóslega náð með öðrum og viðurhlutaminni hætti. Ekki stendur neitt því í vegi að lögfestur verði, til áréttingar, sá réttur sem vinnuveitendum stendur nú þegar til boða og nefndur var hér að framan, þ.e. að áskilja að starfsumsóknir verði ekki teknar til greina fylgi þeim ekki umrætt sakavottorð. Önnur leið væri að lögfesta það sem skilyrði að ávallt verði að leggja fram sakavottorð með umsókn þegar sótt er um tilgreind störf. Til samanburðar má geta þess að slík leið er farin í norskri löggjöf eins og rakið er í athugasemdum með frumvarpinu. Að auki má nefna að banni því sem sett er fram í 2. mgr. verður ekki framfylgt hjá þeim stofnunum sem falla ekki undir 3. mgr., svo sem barnaverndarnefndum, nema með því að setja fram slík skilyrði um framvísun sakavottorðs þegar umrædd störf eru auglýst laus til umsóknar. Athygli er vakin á að sú leið sem valin er í frumvarpinu er ekki rökstudd á neinn hátt.

Hins vegar er vakin athygli á þeim rétti sem barnaverndarnefndum er veittur til að "gera öðrum viðvart" um menn "sem veruleg hætta er talin stafa af", samkvæmt niðurlagi 1. mgr. Segir í ákvæðinu að þessi heimild sé bundin því að samþykki Barnaverndarstofu liggi fyrir og að rík barnaverndarsjónarmið eigi við. Hins vegar er á engan hátt takmarkað hverjum er heimilt að að miðla umræddum upplýsingum. Með ákvæðinu er því ekki komið í veg fyrir þá óheillavænlegu bandarísku framkvæmd sem lýst er í athugasemdum með ákvæðinu og talið er þar að "eigi ekki erindi í lög á Íslandi". Að auki er hvorki að finna skýringu á því hvernig skilja beri orðalagið "maður sem veruleg hætta er talin stafa af" né hver teljist bær til að fella slíkan dóm, hvaða málsmeðferð skuli viðhafa við slíka ákvörðun eða hvort slíkri niðurstöðu verði áfrýjað og þá hvert.





Var efnið hjálplegt? Nei