Umsagnir

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um Þjóðskrá Íslands

26.2.2015

Persónuvernd hefur veitt innanríkisráðuneyti umsögn um drög að frumvarpi til laga um Þjóðskrá Íslands. Telur stofnunin m.a. að bæta þurfi við frumvarpið ítarlegri ákvæðum um notkun kennitölu og um notkun þjóðskrár í markaðssetningartilgangi. Einnig gerir stofnunin athugasemdir við ákvæði frumvarpsins um afhendingu upplýsinga úr þjóðskrá. Þá bendir Persónuvernd á að í frumvarpið vanti almenna tilvísun til persónuverndarlaga.

 

Reykjavík, 5. febrúar 2015

Umsögn um frumvarp til laga um Þjóðskrá Íslands

Persónuvernd vísar til tölvupósts frá innanríkisráðuneytinu, dags. 9. janúar 2015, þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um Þjóðskrá Íslands.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að núgildandi lög nr. 54/1962, um þjóðskrá og almannaskráningu, falli brott en þau lög séu ekki lengur í takt við samfélagið og tæknibreytingar undanfarinna áratuga. Þannig sé nú leitast við að bæta úr og skýra hlutverk stofnunarinnar, m.a. hvað varðar upplýsingamiðlun frá Þjóðskrá.

Persónuvernd hefur farið yfir efni frumvarpsins og telur að það þarfnist margþættra breytinga og viðbóta. Í ljósi hins skamma svarfrests sem stofnuninni var veittur til umsagnar er ekki mögulegt á þessu stigi að gera ítarlega grein fyrir öllum athugasemdum sem hún óskar að koma á framfæri við ráðuneytið.

Engu að síður vill stofnunin koma eftirfarandi meginatriðum á framfæri sem þarfnast frekari skoðunar:

1.    Ítarlegri ákvæði um heimildir til notkunar kennitölu skortir í frumvarpið. Ljóst er að kennitölunotkun á Íslandi er mun algengari en annars staðar í heiminum. Eðlilegt væri við heildarendurskoðun laga um efnið að taka núgildandi reglur til sérstakrar skoðunar út frá sjónarmiðum um persónuvernd. Telur stofnunin því mikilvægt að skýrt verði í ákvæðum laga um Þjóðskrá Íslands í hvaða tilvikum, sem og í hvaða tilgangi, heimilt sé að nota kennitölu einstaklinga. Sérstök rök standa til þess að kennitölur einstaklinga skuli njóta lagaverndar, annars vegar þar sem að þær auðvelda gerð gagnasafna um einstaklinga og hvers kyns samkeyrslu og hins vegar að þær geta nýst sem lykill að margs konar skrám, þ. á m. þeim sem hafa að geyma upplýsingar um einstaklinga sem eru viðkvæms eðlis. Dæmi um slík ákvæði er að finna í norrænni löggjöf, sbr. ákvæði kafla 13 í dönskum lögum um þjóðskrá (d. lov om Den Centrale Personregister).

2.    Setja þarf ítarlegri ákvæði um notkun þjóðskrár í markaðssetningartilgangi, þ.m.t. miðlun persónuupplýsinga úr skránni í  þeim tilgangi. Í Danmörku að finna ítarleg ákvæði um það hvenær megi miðla upplýsingum úr þjóðskrá í slíkum tilgangi, sbr. ákvæði í kafla 8-12 í dönsku lögunum. Engin slík ákvæði er að finna í frumvarpinu eins og það liggur fyrir nú. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að ákvæði 28. gr. laga nr. 77/2000 fjalla um bannskrá þjóðskrár. Ákvæði hennar hafa í einhverjum tilvikum valdið vandkvæðum í framkvæmd og telur stofnunin þörf á að skoða nánar samband 28. gr. laga nr. 77/2000 við ákvæði frumvarpsins. Þá þarf einnig að leggja mat á hvort ákvæði 28. gr. laga nr. 77/2000 eigi betur heima í ákvæðum laga um þjóðskrá.

3.    Persónuvernd gerir athugasemdir við ákvæði 12. gr. frumvarpsins um  afhendingu upplýsinga úr þjóðskrá. Þar er getið um heimild Þjóðskrár til að miðla eða veita miðlurum heimild til að annast  miðlun þjóðskrár á grundvelli samninga og skilmála sem Þjóðskrá Íslands setur. Af 6. gr. frumvarpsins sést að margþættar persónuupplýsingar eru færðar í þjóðskrá, þar með taldar viðkvæmar persónuupplýsingar, svo sem um trúfélög eða lífsskoðunarfélög sem menn tilheyra. Engar lögmæltar viðmiðanir er að finna í 12. gr. frumvarpsins um það hvaða persónuupplýsingum Þjóðskrá Íslands er heimilt að miðla úr skránni, til hverra eða í hvaða tilgangi og hvaða skorður eru settar slíkri miðlun. Ekki er heldur vikið að því í skýringum með þessu frumvarpsákvæði. Þótt ætlast sé til að Þjóðskrá Íslands setji nánari skilmála í þessu tilliti skortir hér á að mati Persónuverndar að þessara atriða verði getið með skýrari hætti í texta frumvarpsins, og varasamt sé að framselja Þjóðskrá Íslands óskorað vald til að ákveða hvaða upplýsingum er miðlað eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

3.    Í frumvarpið vantar einnig almenna tilvísun til laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, líkt og venja er, þegar um er að ræða umfangsmikla vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer hjá tiltekinni stofnun. Persónuvernd mælist því til þess að slíku ákvæði verði bætt við.

Sé óskað nánari skýringa vegna athugasemda þessara er ráðuneytinu velkomið að leita þeirra hjá Persónuvernd.Var efnið hjálplegt? Nei