Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögreglulögum

25.3.2014

Persónuvernd hefur veitt umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögreglulögum. Í umsögninni eru gerðar athugasemdir við ákvæði um öflun upplýsinga úr málaskrá lögreglu um þá sem gegna þar störfum eða sækja um starf, sem og þá sem sækja um skólavist í Lögregluskólanum. Í umsögninni er lögð áhersla á að gætt sé meðalhófs í þessum efnum.
Reykjavík, 13. mars 2014

 

Umsögn Persónuverndar um frumvarp til laga um breytingar á lögreglulögum

 

Persónuvernd vísar til tölvubréfs allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 17. janúar 2014 þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996 (þskj. 459, 251. mál á 143. löggjafarþingi). Rætt var um frumvarpið á fundi stjórnar Persónuverndar í dag og ákveðið að gera eftirfarandi athugasemdir:

 

1. Í tillögu 7. gr. frumvarpsins að 4. mgr. 28. gr. lögreglulaga er fjallað um öflun málaskrárupplýsinga, þ.e. vegna ráðningar lögreglumanna og reglubundins mats á því trausti sem bera megi til þeirra. Í ljósi eðlis lögreglustarfsins og ýmissa valdheimilda sem því fylgja telur Persónuvernd öflun umræddra upplýsinga geta komið til álita við aðstæður sem lýst er í ákvæðinu. Hins vegar leggur stofnunin áherslu að gætt sé meðalhófs, m.a. í tengslum við það hvaða upplýsinga sé aflað og hversu langt aftur í tímann, sem og að umsækjendum og starfsmönnum sé greint frá því fyrirfram að þeim verði flett upp. Þá er mikilvægt að mönnum sé veitt færi á að koma að skýringum við skráningu færslna í málaskrá. Mæla mætti nánar fyrir um það í reglugerð og leggur því Persónuvernd til að eftirfarandi málslið verði bætt aftast við tillögu 7. gr. frumvarpsins að 4. mgr. 28. gr.: „Um öflun málaskrárupplýsinga, þ. á m. umfang upplýsingaöflunarinnar, fræðslu til umsækjenda og starfsmanna í aðdraganda uppflettingar og andmælarétt þeirra, skal nánar mælt fyrir í reglugerð.“

Einnig er fjallað um öflun málaskrárupplýsinga í tillögu c-liðar 10. gr. frumvarpsins að nýjum málslið sem bætt yrði við 5. mgr. 38. gr. lögreglulaga. Með hinum nýja málslið yrði veitt heimild til öflunar upplýsinga úr málaskrá um þá sem sækja um skólavist í Lögregluskólanum. Í ljósi þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið varðandi lögreglumenn eru ekki gerðar athugasemdir við það. Hins vegar telur Persónuvernd að gæta þurfi meðalhófs og andmælaréttar þegar umræddir námsumsækjendur eiga í hlut með sama hætti og þegar um ræðir lögreglumenn og umsækjendur um störf þeirra. Persónuvernd leggur því til að við umrædda tillögu að nýjum málslið 5. mgr. 38. gr. sé bætt sömu viðbót og stofnunin leggur til varðandi tillögu að 4. mgr. 28. gr.

 

2.

Í 8. gr. frumvarpsins er lögð til ný 28. gr. a. Verði það ákvæði lögfest verður heimilt að afla upplýsinga úr málaskrá lögreglu um alla þá sem gegna þar störfum eða sækja um starf. Í þessu sambandi vekur Persónuvernd athygli á því að störf hjá lögreglu geta verið af ýmsum toga og sum þess eðlis að ekki sé þörf á slíkri upplýsingaöflun sem hér um ræðir, s.s. þegar um ræðir störf í mötuneyti, við ræstingar eða ýmsa stoðþjónustu. Ákvæðið tekur hins vegar ekki tillit til þessa og leggur Persónuvernd til að það falli brott eða verði að öðrum kosti breytt verulega þannig að það taki aðeins til þeirra tilteknu starfsmanna sem sérstök þörf verður talin á að upplýsinga sé aflað um úr málaskrá þó svo að þeir fari ekki með lögregluvald. Við brottfall ákvæðisins væri ekki lengur fjallað um öflun upplýsinga úr sakaskrá vegna umræddra starfa, en vakin er athygli á að um slíka upplýsingaöflun giltu þá sömu sjónarmið og alla jafna, þ.e. að vinnuveitandi getur farið fram á það við umsækjanda eða starfsmann að hann leggi fram sakavottorð sitt ef slíkt telst nauðsynlegt á grundvelli almenns hagsmunamats.

- - - - - - - - - - -

 

Að öðru leyti gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við einstök ákvæði frumvarpsins. Hins vegar minnir stofnunin á mikilvægi þess að stjórnsýsluframkvæmd á grundvelli þess samrýmist meðalhófskröfum.


Var efnið hjálplegt? Nei