Umsagnir

Umsögn um þingsályktunartillögu um forvirkar rannsóknarheimildir

14.2.2012

Persónuvernd hefur veitt umsögn um þingsályktunartillögu um forvirkar rannsóknarheimildir. Þar er m.a. gert ráð fyrir að innanríkisráðherra verði falið að vinna frumvarp um að lögregla fái heimild til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Persónuvernd telur að þær megi einungis beinast að alvarlegustu brotum, sem skýrlega yrðu skilgreind í lögum.

Umsögn um þingsályktunartillögu um forvirkar rannsóknarheimildir


Persónuvernd vísar til tölvubréfs allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 3. nóvember 2011 þar sem óskað er umsagnar um tillögu til þingsályktunar um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu (þskj. 26, 26. mál á 140. löggjafarþingi). Nánar tiltekið lýtur tillagan að því að innanríkisráðherra verði falið að vinna og leggja fyrir Alþingi frumvarp um að lögregla fái sambærilegar heimildir og lögregla hefur í öðrum norrænum ríkjum til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Samkvæmt greinargerð með þingsályktunartillögunni væri um að ræða heimildir til að safna upplýsingum um einstaklinga og lögaðila þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um tiltekið afbrot sem framið hefur verið. Til að gæta varúðar myndi skýrt eftirlit fylgja beitingu heimildanna sem gæti t.d. verið í höndum eftirlitsnefndar, sem Alþingi kysi, eða sérstakrar deildar innan dómstóls nema hvort tveggja væri.

Stjórn Persónuverndar ræddi framangreinda þingsályktunartillögu á fundi sínum í dag og ákvað að koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum:

Í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er mælt fyrir um grunnregluna um friðhelgi einkalífs og skilyrði þess að sá réttur sé takmarkaður. Þau eru ströng og þarf brýna nauðsyn að bera til skerðingar vegna réttinda annarra.

Ljóst er að beiting forvirkra rannsóknarheimilda myndi fela í sér viðamikla skerðingu á friðhelgi einkalífs. Persónuvernd leggur áherslu á að ítrustu varfærni sé gætt við mat á því hvort lögfesta beri slíkar heimildir. Til að þær geti átt rétt á sér er til að mynda ljóst að þær mega einungis beinast að allra alvarlegustu brotum, sem og að skilgreiningin á slíkum brotum verður að vera mjög skýr; ella kann að skapast hætta á misnotkun heimildanna þannig að þeim sé beitt um tilvik sem með réttu ættu ekki að falla undir þær.

Að svo komnu máli telur Persónuvernd ekki tilefni til frekari athugasemda, enda liggja ekki fyrir mótaðar tillögur um umræddar rannsóknarheimildir. Þegar og ef þær verða lagðar fram mun stofnunin hins vegar veita frekari umsögn.



Var efnið hjálplegt? Nei