Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila

1.6.2010

Þann 17. maí sl. veitti Persónuvernd efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

Umsögn um frumvarp til laga um rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila

1.

Persónuvernd vísar til tölvubréfs efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis frá 28. apríl 2010 þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila (þskj. 961, 570. mál á 138. löggjafarþingi).

Verði frumvarpið að lögum mun [efnahags- og viðskiptaráðherra] verða heimilt að sækja tilteknar upplýsingar, sem varða fjárhag einstaklinga og fjöldskyldna, frá Íbúðalánasjóði, fjármálafyrirtækjum, lífeyrissjóðum, Lánasjóði íslenskra námsmanna, Ríkisskattstjóra, Vinnumálastofnun, Þjóðskrá, Fjársýslu ríkisins, stærstu sveitarfélögum landsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Í 3. mgr. 2. gr. er tekið fram að upplýsingar megi ekki sækja oftar en ársfjórðungslega.

Í 3. gr. er að finna ákvæði um samkeyrslu framangreindra upplýsinga. Segir þar m.a. að beita skuli aðferðum sem Persónuvernd samþykkir til að skipta á kennitölum og fjölskyldunúmerum hinna skráðu og öðrum auðkennum sem hverfandi líkur eru taldar á að utanaðkomandi geti varpað aftur yfir í persónuauðkenni. Af athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins verður ráðið að upplýsingarnar muni þó áfram verða rekjanlegar til viðkomandi einstaklinga, en þar segir að um verði að ræða persónugreinanlegar upplýsingar.

Í 2. mgr. 4. gr. segir að ráðherra skuli rannsaka samkeyrðar upplýsingar í því skyni að varpa ljósi á fjárhagsstöðu skuldugra heimila og taka eingöngu saman úr þeim ópersónugreinanlegar upplýsingar til frekari kynningar. Í 2. mgr. 7. gr. segir að lög á grundvelli frumvarpsins falli úr gildi 1. maí 2013, en fyrir þann tíma skuli umræddri rannsókn vera lokið og öllum samkeyrðum gögnum hafa verið eytt.

2.

Áður hefur farið fram rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila. Vinnsla persónuupplýsinga vegna þeirrar rannsóknar byggðist á leyfum Persónuverndar, veittum með vísan til 3. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, til Seðlabanka Íslands, Íbúðalánasjóðs, banka, fjármögnunarfyrirtækja, sparisjóða, Ríkisskattstjóra, Vinnumálastofnunar og lífeyrissjóða, dags. 9. febrúar, 27. mars, 6. apríl og 3. júní 2009 (mál nr. 2009/72, 2009/332, 2009/448 og 2009/401). Útgáfa leyfanna vegna vinnslunnar, sem var mjög víðtæk, byggðist á þeim sérstöku aðstæðum sem nú ríkja. Öllum persónugreinanlegum upplýsingum, sem unnið var með vegna umræddrar rannsóknar, hefur nú verið eytt.

3.

Í 71. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um grunnregluna um friðhelgi einkalífs. Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. skulu allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þá segir í 3. mgr. að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. megi með sérstakri lagaheimild takmarka friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

Verði umrætt frumvarp að lögum mun hjá stjórnvöldum verða til persónugreinanlegur gagnagrunnur með ítarlegum fjárhagsupplýsingum um alla borgarana. Persónuvernd útilokar ekki að þjóðfélagslegir hagsmunir geti staðið til þess að í sérstökum tilvikum fari fram rannsóknir sem feli í sér víðtæka gagnasöfnun á borð við þá sem hér um ræðir. Í ljósi þess voru m.a. framangreind leyfi frá árinu 2009 veitt. Þar var um að ræða tímabundna rannsókn sem lauk með eyðingu allra persónugreinanlegra upplýsinga sem safnað var vegna rannsóknarinnar.

Það frumvarp, sem hér um ræðir, felur í sér að næstu þrjú árin munu stjórnvöld safna ítarlegum upplýsingum um fjárhag fjölskyldna og einstaklinga. Þó svo að frumvarpið geri því ráð fyrir að rannsókn samkvæmt lögum á grundvelli þess sé tímabundin mun hún engu að síður standa yfir um langt skeið. Ekki liggur fyrir hvort sú rannsókn, sem þegar hefur farið fram á grundvelli framangreindra leyfa, hafi haft slíkt notagildi að tilefni sé til lagasetningar um svo víðtæka rannsókn sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þá er til þess að líta að reynslan sýnir að þegar samþykkt eru lög um gagnagrunna á vegum stjórnvalda er tilhneiging til þess að framlengja þann varðveislutíma sem upphaflega hefur verið samþykktur. Um það vísast til laga nr. 89/2003 um breytingu á lyfjalögum nr. 93/1994, þess efnis að komið yrði á fót lyfjagagnagrunni, og laga nr. 97/2008 sem framlengdu varðveislutíma upplýsinga í gagnagrunninum úr þremur árum í þrjátíu.

4.

Með vísan til framangreinds lýsir Persónuvernd, í ljósi 71. gr. stjórnarskrárinnar, yfir áhyggjum af þeirri víðtæku vinnslu persónuupplýsinga sem lög á grundvelli umrædds frumvarps myndu hafa í för með sér, ekki síst í ljósi tilhneigingar til að framlengja varðveislutíma upplýsinga í gagnagrunnum sem til verða með upplýsingum um einstaklinga.

 





Var efnið hjálplegt? Nei